Skip to main content
Frétt

Fatlað fólk til Mars

By 17. febrúar 2021No Comments
Evrópska geimferðastofnunin ESA, er nú að auglýsa eftir geimförum, í fyrsta sinn í ellefu ár. Sú breyting er hins vegar nú að sérstök áhersla er lögð á að ná til kvenna og fatlaðs fólks.

Geimferðastofnunin er nú að leita eftir allt að 26 geimförum, hverra hlutverk verður að vera þátttakendur í ferðum til tunglsins og á endanum, Mars.

„Umsækjendur þurfa að vera andlega undirbúnir undir umsóknarferlið“ sagði Lucy van der Tas, sem er yfir ráðningum hjá ESA, á blaðamannafundi síðastliðinn þriðjudag.

ESA er tilbúið að fjárfesta í nauðsynlegri aðlögun þeirrar tækni sem notuð er í geimferðum, svo þeir einstaklingar, sem annars hefðu vegna fötlunar sinnar ekki komið til greina í vali geimfara en uppfylltu allar aðrar kröfur, geti unnið sem áhafnarmeðlimur í geimnum.

ESA segir margt enn óvitað og eina loforðið sem gefið er að á bak við þetta er full alvara til að greiða leið fatlaðra geimfara. Frekari upplýsingar um fatlaða geimfara er að finna hér.

Samantha Cristoforetti í alþjóðlegu geimstöðinni

Mynd: ESA / Samantha Cristoforetti í alþjóðlegu geimstöðinni 

Kröfur ESA fyrir starf geimfara eru meðal annars meistara gráða í náttúruvísindum, verkfræði, stærðfræði eða tölvufræði, og þriggja ára starfsreynsla að loknu meistara námi.

Opnað verður fyrir umsóknir 31. mars 2021, og er sérstök vefsíða fyrir val á geimförum hér.

Við höfum áður sagt frá rannsóknum Accenture, sem er gríðarstórt ráðgjafafyrirtæki með yfir hálfa milljón starfsmanna um allan heim, sem staðfesta að aukin fjölbreytni innan fyrirtækja, þar með talið fatlað fólk, hefur góð áhrif á allt fyrirtækið, ekki síst efnahagsreikninginn.