Skip to main content
Frétt

Félagsmálaráðherra hækkar styrki til kaupa á sérútbúnum bifreiðum um 20%

By 15. júní 2020No Comments
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að hækka styrki til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum fyrir hreyfihamlaða einstaklinga um 20%. Þannig er komið til móts við þá einstaklinga sem höfðu pantað bíl, en ekki fengið afhenta, áður en gengi krónunnar féll í kjölfar Covid-19.

Eins og komið hefur fram í fréttum gat verið um umtalsverðar upphæðir að ræða fyrir þá sem höfðu gengið frá pöntun á nýjum bíl, en ekki fengið afhentan. Fyrir suma gat upphæðin verið á aðra milljón.

Ráðherra hefur nú ákveðið að breyta reglugerð um styrki vegna kaupa á sérútbúnum bifreiðum. Hámarks fjárhæð styrks var áður 5 milljónir, en verður 6 milljónir eftir breytingu. Ekki kemur fram í frétt Félagsmálaráðuneytisins hvort um tímabundnar ráðstafanir er að ræða, eða til frambúðar. Reglugerðin sjálf hefur ekki verið birt.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins: „Við fögnum því að þetta mál sé leyst, svo einstaklingar sem sáu fram á gríðarleg fjárútlát vegna falls krónunnar, geti nú leyst út bíla sína. Þessir styrkir hafa hins vegar ekki hækkað síðustu 5 ár, ekki frekar en aðrar viðmiðunarfjárhæðir almannatrygginga, svo sem frítekjumark. En mjór er mikils vísir. Ráðherra hlýtur að horfa til þess að þessar breytingar nái til allra hreyfihamlaðra sem þurfa sérútbúin bíl.“
Alls voru greiddir 18 styrkir til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum á árinu 2019, 15 á árinu 2018, 9 á árinu 2017 og 14 styrkir á árinu 2016.