Skip to main content
Frétt

Fjármálaráðherra sagði ósatt um skerðingar öryrkja

By 10. maí 2019No Comments
Í gær tilkynnti félagsmálaráðuneytið að það hefði sent bréf til Tryggingastofnunar þess efnis að stofnunin geti loksins byrjað endurútreikning og leiðréttingu greiðslna til þeirra örorkulífeyrisþega sem TR hefur ólöglega skert um margra ára bil. Eins og kemur fram í tilkynningunni er með þessu verið að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis frá því í júní 2018.

Í álitinu kom fram sú afdráttarlausa niðurstaða að TR hafi ólöglega skert örorkulífeyrisgreiðslur vegna búsetu örorkulífeyrisþega erlendis. ÖBÍ hefur frá því að álitinu var skilað krafist þess að leiðréttingar hefjist strax, enda búa mörg hundruð örorkulífeyrisþega við gríðarmiklar skerðingar vegna ólögmætrar framkvæmdar TR.

Er með ólíkindum að TR hafi leyft sér að halda áfram skerðingum í tæpt ár eftir að umboðsmaður Alþingis segir þær ólöglegar. ÖBÍ hefur furðað sig á seinagangi málsins og taldi sökina að öllu leyti liggja hjá TR og félagsmálaráðuneytinu. Átti það meðal annars stoð í því að á fjármála- og efnahagsráðherra sagði á Alþingi í janúar sl. að fjármögnun leiðréttingar skipti engu máli enda væri einfaldlega um að ræða réttindi sem fólk ætti samkvæmt lögum. Orðrétt sagði fjármálaráðherra um leiðréttingarnar:

„…skiptir fjármögnun þess í sjálfu sér engu máli vegna þess að þar er bara um lögbundin réttindi að ræða sem við verðum að uppfylla. Það er þá bara loforð sem stendur. Það er þá krafa sem fólk á á ríkið og það reiknast af ríkissjóði, hvort sem menn hafa fjármagnað það sérstaklega eða ekki.“

Í tilkynningu félagsmálaráðuneytisins í gær kemur svo allt annað í ljós. Þar kemur fram að nú geti TR loksins hafið leiðréttingu hinna ólögmætu skerðinga þar sem  „Félagsmálaráðuneytinu barst í gær erindi frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um að Tryggingastofnun geti hafið endurútreikning örorkubóta vegna búsetuskerðinga, en beðið hefur verið eftir staðfestingu þess efnis.“

Verður því ekki annað séð en að fjármálaráðherra hafi haft í frammi fögur en innantóm orð á Alþingi um að fjármögnun gæti ekki tafið að fólk fengi það sem rétt væri samkvæmt lögum. Á sama tíma var hans eigið ráðuneyti að koma í veg fyrir að fólk fengi það sem það á rétt á samkvæmt lögum.

Vandræðagangur stjórnvalda í þessu máli er fyrir löngu orðinn óforsvaranlegur, þar sem Tryggingastofnun, fjármála- og félagsmálaráðuneytin hafa vísað hvert á annað. Stjórnvöldin virðast ekki geta komið sér saman um það hver ætlar að bera ábyrgð á ólögmætum skerðingum örorkulífeyris. Á meðan halda skerðingarnar þó áfram og síðan álit Umboðsmanns var gefið út hafa liðið 11 mánaðamót þar sem TR hefur ólöglega skert framfærslu örorkulífeyrisþega. Enn bólar ekkert á leiðréttingu enda er nú einungis búið að tilkynna TR að stofnunin „geti hafið“ vinnu við leiðréttingarnar. 

Engar frekari upplýsingar hafa verið gefnar. Örorkulífeyrisþegar hafa engar nánari upplýsingar og vita ekki hvenær þeir geta vænst þess að fá endurútreikning og leiðréttingu, hversu langt aftur í tímann á að greiða (brotin spanna 10 ár), frá hvaða tíma og á hverju útreikningurinn byggir (s.s. um áhrif búsetu á Íslandi og erlendis). Þessa upplýsingagjöf þarf að tryggja tafarlaust. Þá verður að tryggja að enginn lífeyrisþegi verði með heildartekjur undir framfærsluviðmiði TR, óháð fyrri búsetu.