Skip to main content
Frétt

Formaður ÖBÍ á fundi með flokksformönnum

By 22. nóvember 2017No Comments

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, átt í gær fund í Alþingishúsinu með formönnum þeirra þriggja flokka sem reyna nú að mynda ríkisstjórn eftir þingkosningarnar í síðasta mánuði. Það voru formenn flokkanna, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, sem boðuðu til fundarins. Ásamt Þuríði Hörpu var Þórunni Sveinbjörnsdóttur, formanni Landssambands eldri borgara, einnig boðið til fundarins.

Fram kom í fréttum RÚV og Stöðvar 2 að vinna við gerð málefnasamnings flokkanna standi yfir og fundurinn með fulltrúum ÖBÍ og LEB liður í þeirri vinnu.

Formaður ÖBÍ sagði eftir fundinn að hún væri ánægð með hann. Í viðtali við Stöð 2 kom fram að hún hefði lagt áherslu á að staða örorkulífeyrisþega í samfélaginu yrði rétt þannig að skerðingar yrðu afnumdar og frítekjumark hækkað. Þá hefði einnig verið rætt um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) og fullgildingu á viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og lögfestingu hans. Þuríður Harpa sagði að vel hefði verið tekið í kröfur bandalagsins og hún hefði átt gott samtal við formenn á fundinum.

Fjallað var um fundinn í kvöldfréttum RÚV, bæði í útvarpi og sjónvarpi, og á Stöð 2. Þá var einnig fjallað um hann á forsíðu Fréttablaðsins og í Morgunblaðinu.