Skip to main content
Frétt

Frumvarp um breytingu á 69. grein laga um almannatryggingar.

By 23. mars 2021No Comments

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp frá Birni Leví Gunnarssyni og fleirum, um breytingu á 69. grein laga um almannatryggingar. Frumvarpið leggur til þær breytingar að í stað núverandi fyrirkomulags, verði tekið upp sama fyrirkomulag og er notað við breytingar á þingfararkaupi. Frumvarpið var lagt fram í janúar, og ÖBÍ hefur nú sent inn umsögn við það.

 

Frumvarpið er 2 greinar, og hljóðar sú fyrsta svo:

69. gr. laganna orðast svo:
    Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu endurreiknaðar og þeim breytt fyrir 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum skal Hagstofan afla skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem þörf krefur. Tryggingastofnun ríkisins uppfærir krónutölufjárhæðir til samræmis við tölur Hagstofunnar áður en kemur til greiðslna fyrir júlí. Krónutöluhækkanir í kjarasamningum opinberra starfsmanna skulu endurspeglaðar í krónutöluhækkunum fyrir bætur almannatrygginga, greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a:

 „Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9818/2018 kemur fram að fyrirmæli 69. gr. séu matskennd en samkvæmt ákvæðinu skal hækkun bóta „taka mið af launaþróun“. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur í skýringum sínum bent á að orðalag ákvæðisins vísi ekki til tiltekinnar vísitölu, líkt og launavísitölu, og að af forsögu ákvæðisins megi ráða að ekki hafi verið ætlun löggjafans, þegar ákvæðinu var breytt í núgildandi horf, að festa hækkanir við slíkan mælikvarða.“

Öryrkjabandalagið hefur um árabil gagnrýnt þá aðferð sem fjármálaráðuneytið beitir við uppreikning lífeyris almannatrygginga ár hvert, og bent á að aðferðin sé ekki í anda laganna. Í skýrslu Kolbeins Stefánssona, félagsfræðings, Lásar gera bara gagn ef þeir eru læstir, kemst skýrsluhöfundur svo að orði:

„Niðurstaða skýrslunnar er að kjör stórs hluta örorkulífeyrisþega hafi dregist aftur úr lægstu launum fyrir fullt starf á almennum vinnumarkaði. Þau sem fengu örorkumat fyrir 40 ára aldurinn hættu þó að dragast aftur úr eftir 2015 og drógu jafnvel aðeins á lágmarkslaunin ef þau tilheyrðu þeim minnihluta örorkulífeyrisþega sem nutu jafnframt heimilisuppbótar. Jafnvel þá vantar nokkuð upp á greiðslur TR vegna örorku til að þær væru eins og þær ættu að vera ef tvöfaldi lásinn hefði haldið. Þetta bil hefur vaxið ár frá ári frá 2007. Fjárhæðin sem upp á vantaði á hverju ári var ekki há en hefur safnast upp yfir tíma og nú er svo komið að það þarf átak til að leiðrétta kjörin. Því lengur sem við bíðum, því stærra verður átakið sem þarf.“

Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, sagði við umræðu um málið á Alþingi, 9. desember árið 1997:

„Tenging bóta almannatrygginga við vikukaup í almennri verkamannavinnu var afnumin tímabundið með bráðabirgðaákvæði við lög um almannatryggingar í 34. gr. laga nr. 144/1995, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996. Bráðabirgðaákvæði þetta líður úr gildi um næstu áramót og mundi að óbreyttu færa ákvörðun um fjárhæð bóta almannatrygginga aftur í fyrra horf. En ýmsir hagsmunahópar hafa orðið til að benda á að tenging þeirra við almenna launataxta hafi ekki alltaf skilað bótaþegum sanngjarnri niðurstöðu í ljósi þeirra launahækkana sem orðið hafa á almennum vinnumarkaði. Af þessum sökum er í 9. gr. frv. lagt til að ákvæði bráðabirgðaákvæðisins um árlega endurskoðun á fjárhæð bótanna í tengslum við gerð fjárlaga verði fest varanlega í sessi. Jafnframt er í sömu grein lagt til að efnisregla bráðabirgðaákvæðisins um ákvörðun fjárhæðarinnar verði gerð varanleg í nokkuð breyttri mynd. Þannig er lagt til að ákvörðun bótanna taki mið af almennri þróun launa á fjárlagaárinu og leggi þá sömu forsendur og fjárlagafrv. því til grundvallar en jafnframt er lagt til að bótaþegum verði veitt trygging fyrir því að fjárhæð þeirra geti aldrei farið niður fyrir það mark sem vísitala neysluverðs segir til um ef laun skyldu þróast með öðrum hætti en verðlag.“

Það er því ljóst að þrátt fyrir yfirlýstan vilja Alþingis, þegar ákvæðið var sett, að taka mið af „almennri þróun launa á fjárlagaárinu“ eins og þáverandi forsætisráðherra orðaði það, hefur síðustu ár verið vikið af þeirri leið.

Frumvarpi þingmannana er ætlað að breyta því, og taka upp samskonar viðmið og notuð eru við ákvörðun þingfararkaups.

Öryrkjabandalagið hefur nú sent Alþingi umsögn sína um málið, og fagnar frumvarpinu og hvetur til að það verði samþykkt.

Í umsögninni kemur fram að Öryrkjabandalagið hafi ítrekað sent beiðnir á fjármála- og félagsmálaráðuneytið, þar sem farið er fram á útskýringar á hvernig staðið er að útreikningi á árlegri breytingu á upphæðum almannatrygginga, án þess að fá skýr svör. Ráðuneytin hafa verið mjög óljós í svörum sínum og þau ekki getað eða viljað gefa upp þá reiknireglu sem notuð er. Hún virðist byggð á huglægu mati hverju sinni.

Afleiðingarnar eru að munur lægstu launa og örorkulífeyris fer vaxandi ár frá ári svo munar nú tugum þúsunda.

Í Félagsmálasáttmála Evrópu, samningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, er kveðið á um að einstaklingar skuli njóta stöðugt batnandi lífskjara og að ríkið skuli tryggja að slíkt hafi forgang. Ákvarðanir í slíkum málum verða stjórnvöld að taka föstum tökum og byggja á ákvæði sem tryggir gegnsæi og að kjör lífeyrisþega haldi í við kjör annara í landinu.