Skip to main content
Frétt

Fundað með Bjarna í vikunni

By 8. apríl 2018No Comments

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, hittir Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundi á þriðjudag. Þar verður farið yfir frumvarp að fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin kynnti fyrir helgi og samræður forystu Öryrkjabandalagsins og stjórnvalda um nýtt almannatryggingakerfi. Þetta kom fram í Silfrinu á Rúv.

Þar benti Þuríður Harpa á að mörgu væri ábótavant í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjármálaáætlunar næstu fimm ára. Meðal annars að í henni væri fólgin ávísun á að viðhalda og búa til félagsleg vandamál. Það gangi hreinlega ekki að einum þjóðfélagshópi, fólki sem misst hefur heilsuna sé beinlínis vísað út á jaðar samfélagsins og ætlað að lifa af lægri tekjum en aðrir.

Flestir öryrkjar hafi verið á vinnumarkaði um lengri eða skemmri tíma áður en slys eða heilsubrestur varð til þess að skerða starfsgetu þeirra. Þetta fólk hafi lagt mikið til samfélagsins með einum eða öðrum hætti og vildi gera það áfram. 

Hún benti einnig á að engin tengsl væru á milli óréttlátar krónu-á-móti-krónu skerðingar og samtals við stjórnvöld um nýtt almannatryggingakerfi. Krónu-á-móti-krónu skerðingar mætti afnema nú þegar, enda væru þær kerfisbundið ofbeldi sem beindist að einum þjóðfélagshópi og hefðu alvarleg áhrif á ekki aðeins afkomu fólks heldur möguleika þess á vinnumarkaði. Fólki væri beinlínis meinað að bjarga sér eða nýta hæfileika sína og starfsgetu til að afla sér tekna. Þetta óréttlæti verði að afnema nú þegar og ekkert væri því til fyrirstöðu. Það þyrfti ekki að bíða eftir samtali um kerfisbreytingar til að ganga til verka.

Bent var á það í þættinum, eins og fram hefur komið hér á vef ÖBÍ, að allir stjórnarflokkarnir þrír hafa samþykkt að afnema þessar skerðingar án fyrirvara eða tenginga við önnur mál. Þá nefndi Þuríður Harpa að þingmenn úr öllum flokkum hafa tekið undir að þessar skerðingar eru óréttlátar og til þess fallnar að draga mátt úr fólki. Allir þingflokkar tækju undir þessa skynsamlegu kröfu.

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins, tók undir þetta með Þuríði. Það þyrfti ekki að bíða eftir því að farið yrði í önnur mál áður en hægt yrði að afnema krónu-á-móti-krónu skerðingarnar. 

Í því sambandi má benda á að nú þegar liggur fyrir í þinginu frumvarp um afnám þessara skerðinga og er það til umfjöllunar í velferðarnefnd.

Í umræðum í þættinum kom jafnframt fram hörð gagnrýni á þá ráðstöfun stjórnvalda að ætla að lækka neðra þrep tekjuskatts um eitt prósentustig. Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, benti á að sú aðgerð yrði til þess að auka ójöfnuð og kæmi þeim best sem mestar hefðu tekjurnar. Ekki væri hægt að ætlast til þess að fólk á lægstu laununum – sem ekki væri hægt að lifa á til að byrja með – sýndi einhverja sérstaka virðingu fyrir einhverjum stöðugleika, ef þetta væri það sem boðið er upp á. Beina þyrfti sjónum að persónuafslættinum og þannig hefði samfélagsumræðan verið. Það segir sig enda sjálft að lunginn af þeim fjármunum sem ríkissjóður mun verja til þess að lækka tekjuskatt með þessum hætti rennur til efnameira fólks og vinnur gegn jöfnuði. Á þetta hefur ÖBÍ jafnframt bent.