Skip to main content
Frétt

Nýtt greiðsluþátttökukerfi kynnt – myndband

By 27. apríl 2017No Comments

Nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu tekur gildi 1. maí nk. Þar eru sett þök á hámarksútgjöld fólk vegna þess heilbrigðiskostnaðar sem fellur undir kerfið.

Markmiðið með nýju greiðsluþátttökukerfi er að lækka útgjöld þeirra einstaklinga sem þurfa mikið á heilbrigðisþjónustu að halda og hafa greitt háar fjárhæðir fyrir þá þjónustu. Kerfinu er ætlað að létta byrðum af þeim sem í núverandi kerfi bera mestan kostnað en þeir sem minnst hafa greitt munu í einhverjum tilfellum borga meira en áður.
 

Á opnum upplýsingafundi sem málefnahópur Öryrkjabandalags Íslands um heilbrigðismál (ÖBÍ) boðaði til fimmtudaginn 27. apríl kynntu fulltrúar Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) nýja kerfið fyrir notendum. Fundarstjóri var Sigmundur Ernir Rúnarsson fjölmiðlamaður. 

Á fundinum var farið yfir uppbyggingu kerfisins. Rætt var um hámarksgreiðslur einstaklinga, hvað fellur undir greiðsluþátttökukerfið og hvernig notendur geti áttað sig á sinni greiðslustöðu hverju sinni.

Þá báru gestir á fundinum upp fjöldamargar spurningar um fyrirkomulagið, brytingar á kostnaði og fleira. Voru mörg dæmi tekin um áhrif breytinganna. Þá vísuðu fulltrúar Sjúkratrygginga á vef SÍ og réttindagáttina sem þar er aðgengileg bæði með Íslykli og rafrænum skilríkjum.

Kom m.a. fram að 2016 greiddu 45 þúsund einstaklingar/fjölskyldur 80 þúsund á ári fyrir heilbrigðisþjónustu. Í greiðsluþátttökukerfinu getur hámarksgreiðslan á einu ári orðið mest 69.700 hjá almennum einstaklingi. Hjá lífeyrisþegum, öryrkjum og börnum getur hún orðið mest 46.463. Börn eru að mestu gjaldfrjáls í nýja kerfinu.

Hér má sjá glærur með kynningu frá Sjúkratryggingum Íslands

Hér má svo sjá upptöku af fundinum í heild sinni: