Skip to main content
Frétt

Hætta á að fatlað fólk verði afskipt í neyðarástandi

By 18. mars 2020No Comments
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins segir að aldrei fyrr hafi það verið mikilvægara að fatlað fólk fái þá aðstoð sem það þarf og að örorkulífeyrir tryggi mannsæmandi líf.

„Ég hef í dag tekið við símtölum frá fólki í sárri neyð og hingað hefur komið grátandi fólk sem á ekki fyrir mat á sama tíma og hjálparstofnanir hafa þurft að loka. Það er náttúrulega skammarlegt að fátækt fái að þrífast í samfélagi okkar, en núna snýst þetta um svo miklu meira“

Catalina Devandas, sérstakur skýrslugjafi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, segir lítið hafa verið gert til að veita fötluðu fólki stuðning og upplýsingar, svo hægt sé að vernda það meðan Covid-19 faraldurinn gengur yfir.

“Fötluðu fólki finnst það afskipt” segir hún. “Það getur verið ógjörningur fyrir þá sem reiða sig á stuðning annara til daglegra athafna svo sem að nærast, klæðast og þrífast, að fylgja sóttvarnarleiðum eins og sóttkví og að viðhalda fjarlægð”

Hún segir þennan stuðning lífsnauðsynlegan og að ríki heims verði að grípa til viðeigandi aðgerða til að tryggja áframhaldandi stuðning í því neyðarástandi sem nú ríkir.

Þá hefur NPA miðstöðin sent beiðni til Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra þess efnis að starfsfólk í NPA þjónustu verði á lista yfir þær starfstéttir sem fá forgang að þjónustu leik- og grunnskóla til að geta sinnt störfum sínum fyrir fatlað fólk sem nýtur NPA þjónustu. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess.

 

Catalina Devandas leggur einnig áherslu á afkomutryggingar fatlaðs fólks.

“Aukinn fjárhagsstuðningur er líka bráðnauðsynlegur til að draga úr þeirri hættu að fatlað fólk og fjölskyldur þeirra dragist inn í meiri fátækt eða meiri hættu”

Þetta sjáum við raungerast nú í því neyðarástandi sem nú ríkir. Fatlað fólk, sem hefur treyst á matargjafir, er nú skyndilega einangrað heima hjá sér, oft án aðstoðar. Öryrkjar sem þurfa að draga fram lífið á smánarupphæðum standa nú frammi fyrir því að ráðstöfunarfé mánaðarins dugir ekki til að kaupa það sem áður fékkst úthlutað frá hjálparsamtökum.

Catalina leggur jafnframt áherslu á að ríki heims hafi ríkari ábyrgð að gegna gagnvart fötluðu fólki sökum þeirra innbyggðu mismununar sem fatlað fólk býr við, og hvetur aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að hafa samráð við samtök fatlaðs fólks og hafa þau við borðið í allri vinnu við viðbrögðum við því sóttvarnarástandi sem nú ríkir.

 

Félags og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa ritað undir samstarfsyfirlýsingu til aðgerða sem miða að því að takast á við þær áskoranir sem stofnanir ríkisins, félagsþjónusta og aðrir aðilar sem sinna þjónustu við viðkvæma hópa í landinu standa frammi fyrir vegna Covid-19 veirunnar. Með yfirlýsingunni er boðað til víðtæks samstarfs ríkis, sveitarfélaga, fagaðila og hagsmunaaðila um allt land svo tryggja megi öryggi og nauðsynlega þjónustu fyrir þá sem mest þurfa á henni að halda m.a. fatlað fólk, aldraða og börn og fjölskyldur.

Stofnað hefur verið, í samvinnu við almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, viðbragðsteymi um þjónustu við viðkvæma hópa sem mun vinna með markvissum hætti, og í náinni samvinnu við aðila sem sinna hagsmunagæslu og/eða þjónustu við viðkvæma hópa,  að því að draga úr rofi á þjónustu. Teymið hefur það hlutverk að safna og miðla upplýsingum, meta stöðu sem upp getur komið og eftir atvikum bregðast við áhrifum Covid-19 faraldursins á mikilvæg þjónustukerfi á landsvísu, m.a. ef upp kemur sú staða að ekki sé mögulegt að veita lágmarksþjónustu til tiltekinna hópa eða einstaklinga til skemmri eða lengri tíma.

Ábendingar og fyrirspurnir til viðbragðsteymisins sendist á vidbragd@frn.is.