Kerfisbundinn ójöfnuður

Hátekjufólk fær sex sinnum fleiri krónur í vasann en lágtekjufólk við rútínubreytingar á skattkerfin…
Hátekjufólk fær sex sinnum fleiri krónur í vasann en lágtekjufólk við rútínubreytingar á skattkerfinu um áramót.

Ráðstöfunartekjur hátekjufólks aukast sex sinnum meira en fólks með lágar tekjur og millitekjur, við skattbreytingar um áramót. Þetta kemur fram í frétt frá Hagdeild Alþýðusambands Íslands.

Þar er bent á að persónuafsláttur hafi hækkað um áramótin, um 1,9 prósent í samræmi við verðlag, en efri tekjumörk miðist við launavísitölu. Þau hafi hækkað um ríflega sjö prósent. „Alþýðusambandið hefur ítrekað vakið athygli á þessu ósamræmi í framkvæmd skattkerfisins sem leiðir kerfisbundið til aukins tekjuójafnaðar,“ segir í frétt Hagdeildar ASÍ

Öryrkjabandalag Íslands hefur oft bent á að hækkun persónuafsláttar hefði lang mest áhrif til tekjujöfnunar. Veruleg hækkun hans yrði mikil kjarabót fyrir lágtekjufólk. Hann hefur hins vegar engan veginn haldið í við launaþróun (sjá t.d. hér). Það er mikið áhyggjuefni í sjálfu sér.

Hagdeild ASÍ bendir á að manneskja sem hefur 350 þúsund krónur í heildarlaun greiðir 988 krónum minna í tekjuskatt og útsvar, núna en fyrir áramót. Manneskja í efri tekjumörkum skattkerfisins, með mánaðarlaun upp undir 900 þúsund krónur, greiðir hins vegar 6.476 krónum minna á mánuði. Þarna er ríflega sexfaldur munur á lágtekjumanneskju og hátekjumanneskju.

Til samanburðar við þessar tölu má nefna að miðgildi heildartekna örorkulífeyrisþega var rúmlega 271 þúsund krónur á mánuði árið 2016. Ljóst má vera að örorkulífeyrisþegar fara mun lakar út úr þessum samanburði en fólkið í dæmi ASÍ.

Þá minnir Öryrkjabandalag Íslands á að krónu-á-móti-krónu skerðingar verður að afnema. Þær halda fólki föstu í fátæktargildru og koma í veg fyrir að fólk geti bætt hag sinn.