Skip to main content
FréttMálefni barna

Leiðbeinandi verklagsreglur um einveruherbergi í mótun

By 11. febrúar 2022ágúst 31st, 2022No Comments
Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, vinnur nú að leiðbeinandi verklagsreglum um einveruherbergi, fyrir kennara og starfsfólk skóla, þar sem skýrt verður hvenær og við hvaða aðstæður heimilt sé að nota þau. Þetta kemur fram í svari ráðherra til umboðsmanns Alþingis og sagt er frá í Fréttablaðinu 11. febrúar.

Í svari mennta og barnamálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis kemur fram að höfð verða til hliðsjónar gildandi lög, reglugerðir og aðalnámskrá þegar verklagsreglurnar verða gerðar. Umboðsmaður óskaði eftir svörum ráðherra í bréfi 9. desember 2021, þar sem kom fram að innilokun nemanda, sem jafnað yrði til frelsissviptingar, verði aðeins réttlætt með vísan til neyðarréttar eða nauðvarnar. Frelsissvipting nemanda á slíkum grundvelli, ef um hans sé að ræða, geti aðeins varað í mjög skamman tíma, eða þar til yfirvofandi hættu hafi verið afstýrt. Umboðsmaður telur slíka frelsissviptingu ekki koma til greina þegar um sé að ræða einföld brot á skólareglum, sov sem truflandi hegðun eða óhlýðni, enda séu skólunum þá tæk önnur úrræði.

Fréttablaðið hefur eftir ráðherra úr svari hans til umboðsmanns að ráðherra fagni úttekt umboðsmanns og að ráðuneyti hans ætli að bregðast við málinu með fjölbreyttum hætti.

„Það þarf að marka reglurnar, hver er að gera þetta, hvernig er það gert og hvernig er það skráð,“ segir Ásmundur Einar í samtali við Fréttablaðið, og að afstaða ráðuneytisins sé ekki að það þurfi að banna herbergin alfarið, en að skýra þurfi betur notkun þeirra.

Í svari ráðuneytisins kemur jafnframt fram að til standi að stofna vinnuhóp með helstu hagsmunaaðilum, til þess að skoða álitamál sem snúa að notkun einveruherbergja.

Ráðuneytið mun óska eftir upplýsingum frá Brúarskóla um hvaða skólar hafi verið aðstoðaðir við einveruherbergi og hvernig. Ráðuneytið ætlar einnig að taka afstöðu til með hvaða hætti beri að skrá beitingu úrræðisins og tilkynna viðeigandi aðilum og skoða hvernig hægt sé að bæta fræðslu og þjálfun starfsfólks hvað varðar faglegar og lagalegar heimildir til að bregðast við málum nemenda með alvarlegan hegðunarvanda.

Þá segir að lokum að ráðuneytið muni taka til skoðunar fýsileika þess að setja upp miðlæga ráðgjöf, í stað þeirrar sem Brúarskóli og aðrir sérskólar hafa sinnt, með það að markmiði að samhæfa betur ráðgjöf á landsvísu.

Ásmundur Einar segir við blaðið að: „Í stóra samhenginu er það þannig að það er úrræðaleysið innan skólakerfisins gagnvart því hvernig við vinnum með börnum sem eru með ýmsar áskoranir og það er verkefnið sem er fram undan. Með innleiðingu nýju farsældarlaganna erum við að fara inn í það“

Farsældarlögin voru samþykkt á Alþingi í júní 2021, en markmið þeirra er að stuðla að farsæld barna og að börn og foreldrar sem á þurfa að halda, hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Lögin tóku gildi 1. janúar 2022, en samkvæmt þessu svari ráðuneytisins eru þau enn í innleiðingarferli. Til að mynda segja lögin fyrir um að ráðherra skuli, áður en ár er liðið frá kosningum til Alþingis, leggja fyrir þingið í formi þingsályktunar, stefnu um farsæld barna og framkvæmdaáætlun um verkefni ríkisins sem varða farsæld barna til fjögurra ára. Í lögunum er kveðið á um að þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á þjónustu í þágu farsældar barna skuli vinna með virkum þætti að markmiðum laganna og að fulltrúar þessara sömu ráðherra, skuli hafa reglubundið samráð um samþættingu þjónustunnar og undirbúa áðurnefnda stefnu.

Samhliða innleiðingu þessara laga mun ráðherra beita sér fyrir því að hefja samtal við skólakerfið um hvernig farsældin komi þar inn og hvenær félagsþjónustan þurfi að stíga inn og með hvaða hætti.

„Hluti af þeirra innleiðingarvinnu verður að endurskoða aðkomu félagsþjónustu og annarra kerfa að skóla án aðgreiningar,“ segir Ásmundur Einar.

Hann segir að með stofnun nýs mennta- og barnamálaráðuneytis, og með því að fá félagsmálin líka þangað inn, sé gerð tilraun til að endurskoða hvernig mennta- og félagsmál samtvinnast og að samhliða því verði öll úrræði og tæki og tól endurskoðuð.

„Við ætlum að fara í þetta samtal og setja kraft í þessa vinnu svo hægt sé að skýra hvernig megi gera þetta og með hvaða hætti.“

Fréttin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 11. febrúar 2022