Ólöf Ásta Farestveit forstjóri nýrrar stofnunar Barna og fjölskyldustofu

Ólöf Ásta Farestveit ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, mennta og barnamálaráðherra
Ólöf Ásta Farestveit ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, mennta og barnamálaráðherra
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hefur skipað Ólöfu Ástu Farestveit í embætti forstjóra nýrrar Barna- og fjölskyldustofu. Barna- og fjölskyldustofa mun taka við verkefnum Barnaverndarstofu en jafnframt gegna lykilhlutverki við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Stofan mun enn fremur fara með tilgreind verkefni sem kveðið er á um í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

Í frétt á vef Stjórnarráðsins kemur fram að Ólöf Ásta hafi verið settur forstjóri Barnaverndarstofu frá 1. september sl. Hún starfaði sem sérfræðingur í Barnahúsi frá árinu 2001 og sem forstöðumaður Barnahúss frá 2007-2021.
Ólöf Ásta er með menntun á sviði uppeldis- og afbrotafræði og fjölskyldumeðferðar og hefur m.a. sérhæft sig í yfirheyrslutækni vegna skýrslutöku barna.