Skip to main content
Frétt

Opið fyrir umsóknir í fötlunarfræði til og með 15. október.

By 6. október 2020No Comments

Fötlunarfræði er þverfagleg fræðigrein sem leggur áherslu á að þróa félagslegan skilning á fötlun og rannsaka þátt menningar og umhverfis í að skapa og viðhalda fötlun. Markmið námsins er að veita nemendum fræðilega og hagnýta þekkingu á fjölbreytilegum þáttum sem varða fatlað fólk og málefni þess.

Um námið

Fötlunarfræði er námsbraut innan Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar á Félagsvísindasviði HÍ. Nám í fötlunarfræði er framhaldsnám að loknu BA-prófi eða öðru sambærilegu háskólaprófi. Námið er kennt bæði sem staðnám og í fjarnámi. Í náminu er stuðst við fjölbreytta og gagnvirka kennsluhætti sem gera ráð fyrir virkri þátttöku nemenda m.a. í samvinnu og umræðu. Boðið er upp á diplómanám, meistaranám og doktorsnám. Markmið námsins er að veita nemendum fræðilega og hagnýta þekkingu á fjölbreytilegum þáttum sem varða fötlun, fatlað fólk og málefni þess. Nemendur eru hvattir til að tengja námið við eigin áhugasvið og fræðilegan bakgrunn. 

Að námi loknu 

Fólk sem lokið hefur námi í fötlunarfræði sinnir margvíslegum störfum innan mennta- og þjónustukerfisins. Einnig við stefnumótun, réttindagæslu, á vettvangi baráttusamtaka fatlaðs fólks, rannsóknastörf og víðar.

Viðfangsefni

Í náminu læra nemendur um líf, aðstæður og mannréttindi fatlaðs fólks. Unnið er út frá þverfaglegu sjónarhorni og nemendur koma m.a. af sviðum félags-, hug- mennta- og heilbrigðisvísinda. Áhersla er lögð á að nemendur geti fléttað viðfangsefni fötlunarfræðinnar við áhugasvið sín. Námsbraut í fötlunarfræði er rekin í öflugu alþjóðlegu samstarfi og í tengslum við Rannsóknasetur í fötlunarfræðum en þar er unnið að fjölmörgum innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum.

Diplomanám

Boðið er upp á diplómanám í fötlunarfræði og diplóma-nám í fötlunarfræði með áherslu á opinbera stjórnsýslu. Diplómanám í fötlunarfræðum (30 einingar) er ætlað þeim sem hafa áhuga á að auka fræðilega þekkingu sína á helstu stefnum og straumum í málefnum fatlaðs fólks og innan fötlunarfræða. Diplómanám í fötlunarfræðum með áherslu á opinbera stjórnsýslu (32 einingar) er einkum ætlað þeim sem vinna með eða hafa hug á að vinna að málefnum fatlaðs fólks í opinberri stjórnsýslu. Í náminu er sjónum einkum beint að sveitarstjórnarstiginu. Hægt er að fá diplómanámið metið sem hluta af MA-námi í fötlunarfræðum að uppfylltum inntökuskilyrðum. 

Hagnýtt rannsóknarnám

Meistaranám í fötlunarfræði er tveggja ára nám, ætlað þeim sem vilja efla fræðilega þekkingu sína á fötlun og málefnum fatlaðs fólks. Nemendur geta sérhæft sig á ákveðnum sviðum allt eftir áhuga hvers og eins, með það að markmiði að undirbúa sig fyrir leiðandi störf. Námið nýtist á víðtækum vettvangi s.s. við rannsóknir, stefnumótun, réttindagæslu, störf innan þjónustukerfisins og á vettvangi baráttusamtaka fatlaðs fólks. Námið er 120 einingar og lýkur með 30-60 eininga ritgerð til meistaraprófs.

Fötlunarfræði og opinber stjórnsýsla

Meistaranám í fötlunarfræði og opinberri stjórnsýslu er tveggja ára nám sem undirbýr nemendur m.a. til starfa að málefnum fatlaðs fólks hjá ríki, sveitarfélögum eða félagasamtökum. Áhersla er á færni á sviði stjórnunar og stjórnsýslu. Námið er 120 einingar og lýkur með 30 eininga meistararitgerð.

Doktorsnám

Námið er 180 eininga doktorsritgerð og 30 einingar í námskeiðum á fræðasviði doktorsverkefnis, samtals 210 einingar ECTS. 

Auk þess getur námsbraut gert kröfu um að doktorsnemi bæti við fleiri einingum í námskeiðum í samráði við leiðbeinanda sé talin þörf á að bæta við undirstöðuþekkingu í aðferðafræði rannsókna eða á fræðasviði doktorsnámsins

Bóknámshluta námsins má sinna jafnt í lesnámskeiðum sem almennum námskeiðum á framhaldsstigi. Nemendur sem hefja doktorsnám skulu hafa lokið meistaraprófi með fyrstu einkunn, eða sambærilegu prófi við viðurkenndan háskóla. 

Inntökuskilyrði

  • MA nám er gerð krafa um BA, BS, B.Ed. próf með fyrstu einkunn eða sambærilegt próf. 
  • Í diplómanám er gerð krafa um BA, BS, B.Ed. próf eða sambærilegt próf. 
  • Í doktorsnám er gerð krafa um að umsækjandi skal hafa lokið meistaraprófi (kandídatsprófi) eða sambærilegu prófi með fyrstu einkunn.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um námið, ásmt því að sækja um hér.