Skip to main content
Frétt

Ráðherra á að framfylgja vilja Alþingis

By 28. febrúar 2019No Comments

„Ráðherra á að framkvæma vilja Alþingis, þess vegna heitir vald hans framkvæmdarvald,“ segir Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur og fyrirverandi sérfræðingur hjá ÖBÍ. Tilefni ummæla hennar er sú afstaða dómsmálaráðherra sem fram kom á Alþingi nýlega, að ályktanir Alþingis hefðu minna vægi en lög frá þinginu og að ekki stæði til að verða við vilja Alþingis í réttindamálum fatlaðs fólks.

Málið snýst um Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og valkvæða bókun við samninginn. Alþingi samþykkti einróma í September 2016 þingsályktun sem kvað á um að valfrjálsa bókunin skyldi fullgilda fyrir árslok 2017. Ráðherra hefur ekkert gert í því máli og segist nú ekki ætla að fara eftir skýrum vilja Alþingis.

Ráðherra gerir lítið úr ályktun Alþingis

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði Sigríði Andersen, dómsmálaráðherra og þingkonu Sjálfstæðisflokksins, um málið á Alþingi á dögunum. Þar gaf ráðherrann skýrt í skyn að þingsályktanir væru minna virði en lög frá Alþingi. Tvennar kosningar væru að auki síðan ályktun um valkvæða viðaukann hefði verið samþykkt. Hún sagði:

„Fyrir nokkrum árum ályktaði Alþingi að valkvæði viðaukinn skyldi einnig fullgiltur en við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að þessi samningur er ekki bara tilgangslaus heldur segir í þingsályktuninni að hann feli ekki í sér ný réttindi til fatlaðs fólks heldur feli í sér að erlend eftirlitsnefnd hagsmunaaðila muni skera úr um stöðu þeirra sem skjóta máli sínu til nefndarinnar,“ sagði ráðherrann í ræðustól Alþingis.

Þá sagði hún að ekki væru gerðar miklar hæfniskröfur til setu í nefndinni og að úrlausnir hennar uppfylltu ekki kröfur sem gera þarf til dómsúrlausna. Þá væru álit nefndarinnar ekki bindandi og því óhagstæðari en að fara með málið til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE). Rétt er þó að benda á að landslögum samkvæmt eru úrlausnir MDE ekki bindandi að íslenskum landsrétti, segir í endursögn Fréttablaðsins af ræðu ráðherrans.

Engin sérréttindi

Sigurjón Unnar Sveinsson, lögmaður Öryrkjabandalags Íslands og starfsmaður málefnahóps ÖBÍ um sjálfstætt líf, bendir á í samtali við Fréttablaðið að Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks feli ekki í sér nein sérréttindi fyrir fatlað fólk.

„En á að tryggja að fatlað fólk njóti réttar síns til jafns við aðra. Viðaukinn felur í sér einstaklingsbundna samskiptaleið, þegar fólk telur að á sér hafi verið brotið. Þessi samskiptaleið hefur reynst fólki vel, til dæmis þurftu Svíar að taka í gegn alla sína byggingarlöggjöf í kjölfar fyrsta málsins sem fór fyrir nefndina.“

Feimni við alþjóðasamfélagið?

Sigurjón heldur áfram:

„Orð ráðherra um að bókunin sé óþörf felur í raun í sér vanvirðingu við bókunina sjálfa. Það er ástæða fyrir því að hún er til,“ segir Sigurjón Unnar Sveinsson, lögmaður hjá ÖBÍ.

Ísland hafi yfirleitt tekið sér langan tíma í að verða aðilar að alþjóðasamningum og bókunum á þessu sviði og einhverrar feimni virðist gæta. „Sá sem hefur ekkert að fela er ekki feiminn við eftirlit. Alþjóðasamfélagið sér auðveldlega í gegnum þetta,“ segir Sigurjón.

Ráðherra gegn vilja Alþingis

Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur og fyrrverandi sérfræðingur hjá ÖBÍ er, eins og Sigurjón, skýr um málið. Hún segir á Facebook síðu sinni:

„Þessi frétt gefur tilefni til að skoða það hvort framkvæmdavaldið á Íslandi hafi tekið sér fullt og endanlegt vald yfir löggjafarvaldinu. Formenn allra flokka á Alþingi ályktuðu um að Ísland skyldi gangast undir eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nú segir dómsmálaráðherra að það standi ekki til því hún sé ekki búin að „kostnaðargreina“ slíka aðgerð, auk þess sem hún telji þessa nefnd tilgangslausa. Þó hefur þessi ályktun Alþingis ekki verið dregin til baka. Með öðrum orðum velur ráðherrann að fara gegn yfirlýstum og þverpólitískum vilja Alþingis sem vill veita minnihlutahóp rétt til að kvarta yfir mögulegum mannréttindabrotum.“