Skip to main content
Frétt

Réttur fatlaðs fólks til bifreiðastyrks ekki háður tilteknum „samningi“ við sveitarfélag

By 25. september 2020No Comments
Ákvörðun úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar á umsókn fatlaðs einstaklings um bifreiðastyrk, á þeim grundvelli að viðkomandi hefði ekki „samning“ af tiltekinni gerð við sveitarfélag um þjónustu, byggði ekki á fullnægjandi lagagrundvelli að mati umboðsmanns.
 

Fatlaður einstaklingur í sjálfstæðri búsetu leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir niðurstöðu Tryggingastofnunar um að synja honum um bifreiðastyrk. Byggðist synjunin einkum á að viðkomandi hefði ekki persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag. Í kvörtuninni var bent á að þjónusta sveitarfélagsins við viðkomandi væri veitt á grundvelli þjónustuáætlunar sem væri talin henta best þörfum hans. Sveitarfélagið legði til starfsfólk sem aðstoðaði allan sólarhringinn og greiddi því laun. Ákvörðun úrskurðarnefndarinnar um að krefjast samnings við sveitarfélag fæli því í sér mismunun eftir því hvaða þjónustuform fatlað fólk nýtti sér.

Í áliti sínu benti umboðsmaður á að í reglugerðarákvæðunum sem á reyndi væri tiltekið form á þjónustu sveitarfélags ekki áskilið, heldur væru tilteknir samningar nefndir þar í dæmaskyni auk þess sem fram kæmi að „sambærilegir“ samningar féllu þar undir. Þá þyrfti að hafa í huga á hvaða lagagrundvelli slík þjónusta væri almennt veitt.

„Við túlkun á þessum ákvæðum verður því að líta til þess að útfærsla þjónustu við fatlað fólk í lögum hefur síðustu ár miðað að því að tryggja sjálfsákvörðunar­rétt þess þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á hagsmuni þess og daglegt líf og að því sé veitt þjónusta í samræmi við þarfir þess og óskir“, segir í áliti umboðsmanns.

Lagði umboðsmaður áherslu á að markmið mismunandi útfærslu í lögum á þjónustu við fatlað fólk hefði einkum verið að koma til móts við framangreind sjónarmið og þar með auka val þess um þjónustuform og fyrirkomulag aðstoðar. Þá væri ljóst að staða og möguleikar fatlaðs fólks að fá svonefnda samninga um notaendastýrða persónulega aðstoð (NPA) væru mismunandi, bæði innan sveitarfélaga og milli þeirra. Það eitt að sveitarfélag veldi, að höfðu samráði við viðkomandi, tiltekið form samnings og ráðstöfun fjármuna í þessu skyni gæti ekki útilokað einstakling frá því að njóta bifreiðastyrks ef hann uppfyllti að öðru leyti þau skilyrði sem sett væru. Þá yrði ekki séð í þessu sambandi að munur væri á því hvort einstaklingur greiddi sjálfur aðstoðarmönnum sínum laun samkvæmt samningi við sveitarfélag eða að starfsmenn sveitarfélagsins veittu slíka þjónustu.

Með hliðsjón af þeim réttindum sem væru undirliggjandi og sjálfsákvörðunarrétti fatlaðs fólks til að velja sér form þjónustu í samræmi við þarfir sínar og óskir, taldi umboðsmaður að úrskurðarnefnd velferðarmála hefði þrengt með of fortakslausum hætti að því mati sem orðalag reglugerðarákvæðanna fæli í sér. Úrskurður nefndarinnar hefði því ekki verið í samræmi við lög. Beindi hann þeim tilmælum til nefndarinnar að taka málið til nýrrar meðferðar, kæmi fram ósk þess efnis, og hafa þá meðferð þess í samræmi við sjónarmiðin í álitinu sem og hafa þau til hliðsjónar framvegis.