Skip to main content
Frétt

Sameiginleg yfirlýsing

By 12. október 2018No Comments

Yfirlýsing frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Félagi áhugafólks um Downs-heilkenni, Áhugafélagi um hryggrauf/klofinn hrygg, Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.

Alvarleg athugasemd vegna ummæla  yfirlæknis fæðingarþjónustu Landspítala Háskólasjúkrahúss í sjónvarpsfréttum RÚV 29. september 2018.

Hin fullkomna manneskja er ekki til. Samfélag okkar er fjölbreytt og í margbreytileikanum eru fólgin verðmæti sem endurspeglast í okkur hverju og einu. Þess vegna eru sláandi og ámælisverð ummæli yfirlæknis fæðingarþjónustu Landspítala Háskólasjúkrahúss í fréttum RÚV 29. september sl. um að „leysa“ megi „vandamál“ fötlunar með þungunarrofi. Ummælin og viðhorfin sem þau endurspegla stríða gegn siðferði, jafnræði og ganga að auki gegn alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að fylgja.

Velferðarráðuneytið lagði nýlega fram til umsagnar frumvarp um þungunarrof. Málið var kynnt á samráðsgátt stjórnvalda og er nú til frekari vinnslu í velferðarráðuneytinu. Við meðferð þessa máls, hvort heldur í ráðuneytinu, á Alþingi, eða í opinberri umræðu, skiptir gríðarlegu máli að höfð verði hliðsjón af eftirfarandi þáttum.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur fullgilt, bannar mismunun á grundvelli fötlunar. Þennan mannréttindasáttmála er nú verið að innleiða í íslenska löggjöf, stefnumótun, störf og stjórnsýslu. Eitt grundvallaratriði samningsins er að líta beri á fötlun sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni, ekki sem galla, frávik eða persónulegan harmleik sem koma skuli í veg fyrir. Ummæli yfirlæknis fæðingarþjónustu LSH eru því á skjön við nútímahugmyndir og skilning á fötlun og fötluðu fólki. Þá ganga ummælin þvert gegn tilgangi frumvarps velferðarráðuneytis. Að leggja til hvernig í framkvæmd megi mismuna á grundvelli fötlunar er vítavert.

Ómetanleg verðmæti eru fólgin í margbreytileikanum. Það er alvarlegt ef samfélagið vill ekki takast á við margbreytileikann eins og hann kemur fyrir. Að gefa í skyn að við séum ekki öll jafn velkomin eða jafn verðmæt sendir verstu skilaboð sem nokkur einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun, getur látið frá sér. Slík skilaboð hafa verið fordæmd sem hatursorðræða sem elur á fordómum.

Í ljósi þessa eru þau viðhorf Landspítala Háskólasjúkrahúss sem endurspeglast í ummælum yfirmanns fæðingaþjónustu í besta falli ámælisverð. Jafnframt ganga þau þvert gegn þeim siðferðislegu gildum sem spítalinn og Háskóli Íslands hafa sett sér.

Eitt grundvallaratriði í samfélagi okkar er jafnræði og stjórnarskrá landsins kveður á bann við mismunun. Í ljósi þess eiga ný lög um þungunarrof ekki að mismuna á grundvelli fötlunar, hvorki beint né óbeint.