Skip to main content
Frétt

Sjálfstæð mannréttindastofnun í bígerð

By 8. febrúar 2021No Comments
Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum föstudaginn 5. febrúar, að setja á fót starfshóp til að útfæra hugmyndir um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun, sem uppfyllir Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna um slíkar stofnanir á Íslandi.  Stjórnvöld telja tilvist slíkrar stofnunar nauðsynlega til þess að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði mannréttinda og er forsenda þess að mögulegt sé að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 

Í samþykkt ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að fulltrúi dómsmálaráðuneytisins fari með formennsku í hópnum en forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti tilnefni einn til tvo fulltrúa sem geti komið með bæði faglegt og fjárhagslegt innlegg inn í umræðuna. Í núgildandi fjármálaáætlun er ekki gert ráð fyrir því fjármagni til slíkrar stofnunar og því þarf að leita leiða til þess koma stofnuninni á fót og tryggja framtíðarrekstur hennar innan heildarútgjaldaramma ríkisins. Starfshópnum er ætlað að koma með tillögu að verkefnum sem hægt er að færa til mannréttindastofnunarinnar, t.d. frá öðrum stofnunum sem sinna mannréttindaeftirliti eða ráðuneytum, og eftir atvikum leggja til flutning á starfsfólki og fjármagni. Einnig á starfshópurinn að gera tillögu um lagalega stöðu slíkrar mannréttindastofnunar og hafa aðkomu að vinnu við frumvarp um hana.

Það er mikið fagnaðarefni að þessi vinna skuli nú komin af stað, því tilvist stofnunar sem þessarar hefur verið forsenda fyrir lögfestingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Öryrkjabandalagið hefur einni um langt árabil talað fyrir embætti umboðsmanns fatlaðs fólks og því ánægjulegt að sjá hilla undir sérstaka stofnun um mannréttindi, og ekki síður, lögfestingu SRFF.

Ísland skrifaði undir samninginn 30. mars árið 2007, og fullgilti hann 23. september 2016. Allar götur síðan hefur ÖBÍ barist fyrir lögfestingu samningsins.

Ljóst er að þetta er ekki í fyrsta skipti sem hugmyndir þessa efnis koma fram. Árið 2012 voru uppi áform um stofnun Mannréttindastofnunar, er Ögmundur Jónasson, þá innanríkisráðherra lét hafa eftir sér í Vísi: 

„Þetta verður gert. Við þurfum að tryggja þetta samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum ef við ætlum að teljast fullgild í hópi mannréttindaþjóða, sem við viljum vera.“

Ekkert varð þó úr áformum Ögmundar. Næstur í röðinni var Ólöf heitin Nordal, þá innanríkisráðherra, lagði fram frumvarp þess efnis árið 2016. Þá var sagt að hér væri á ferðinni stórt skref í full­gild­ingu samn­ings Sam­ein­uðu þjóð­anna um rétt­indi fatl­aðs fólks. Fullgildingin varð svo eins og áður segir hausti 2016, án þess að Mannréttindastofnun liti dagsins ljós.

Síðla árs 2018 birtust svo í samráðsgátt áform Dómsmálaráðuneytis um enn eitt frumvarpið um þessa stofnun, og óskað var umsagna. Þrátt fyrir það virðist það hafa dagað uppi í ríkisstjórn þeirri sem enn situr.

Nú er talað um að tilvist Mannréttindastofnunar sé nauðsynlegur undanfari lögfestingar SRFF. Þrátt fyrir fögur fyrirheit og engar efndir, er það engu að síður von ÖBÍ að nú verði þetta nauðsynlega mál ekki leiksoppur í pólítískum hrossakaupum eða yfirboðum í aðdraganda kosninga, heldur leiði núverandi forsætisráðherra það loks til lykta.