Skip to main content
Frétt

Stjórnvalda er skömmin

By 23. febrúar 2019No Comments

Ræða Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, formanns ÖBÍ, á fyrstu Hungurgöngunni á Austurvelli 23. febrúar 2019

Kæra fólk og samherjar í baráttunni!

Fólk býr við ömurlegar aðstæður á Íslandi sem sagt er velsældar og tækifæra. Það hefur verið logið að þjóðinni, logið að fátæku fólki – Sem enn á þreyta sína hungurgöngu með eilífa von í brjósti. Fátæku fóki -sem enn er gert að bíða eftir réttlæti. Ísland er ekki land tækifæra og velsældar fyrir alla öryrkjar fá ekki tækifæri og lifa svo sannarlega ekki í velsæld – þeim gert að lifa í vesöld!

OKKUR ER ALVARLEGA MISBOÐIÐ, misboðin sú ömurlega og ómanneskjulega staða sem fólk er sett í, sem er að eigi ekki fyrir nauðsynjum, að framfærsla lágtekjufólks dugi ekki nema fram í miðjan mánuð og hjá sumum skemur!

Okkur er misboðin SÚ GRAF ALVARLEGA STAÐA – AÐ ÖRYRKJAR OG FÁTÆKT FÓLK BETLI Í DAG Á GÖTUM ÚTI FYRIR MAT! Að fólk hefur ekki þak yfir höfuðið og endar þess vegna jafnvel í krumlum smálánafyrirtækja!

Hversu hár er fílabeinsturn þeirra stjórnvalda sem leyfa þessu að viðgangast?

Við biðjum ekki um ölmusu, við krefjumst réttlætis, og við segjum nei við því óréttlæti sem borið er á borð fyrir okkur Þegar okkur er sagt að hér fari allt á hliðina ef þau tekjulægstu fá leiðréttingu! Við krefjumst þess að laun þeirra tekjulægstu dugi fyrir mannsæmandi lífi. Það er ekki frekja það er ekki græðgi – Það er réttlæti

Ég hafna þeirri þjóðarskömm sem fátækt er í ríku landi – það er stjórnvalda að koma í veg fyrir að FÁTÆKT þrífist á Íslandi – fátækt er meinsemd sem eitrar samfélagið. Í þannig samfélagi vil ég ekki! Stjórnvalda er skömmin og þeirra er að bæta úr. Það er sanngjörn og eðlileg krafa að við búum í samfélagi þar sem fólk getur framfleitt sér af launum sínum og lífeyri hvort sem það er örorkulífeyrir, ellilífeyrir eða lægstu laun. Ísland er ekki land tækifæranna í dag! Okkar er að breyta því, okkar er að krefjast sanngirni og réttlætis Og það gerum við saman nú í dag!

Hér í okkar ríka samfélagi þarf að ríkja það réttlæti – að fólk lifi af framfærslunni sinni.

Við höfum beðið, og við höfum sýnt skilning á því að þjóðarbúið þurfi að rétta við eftir hrun – eftir að hinir ofurríku og skynsömu settu Ísland nánast á hausinn með yfirgengilegri græðgi sem við greiddum fyrir dýru verði. – fyrir það hefur almenningur sumur hver borgaði með heimilum sínum og með heilsu sinni. EKKI MEIRI GRÆÐGI Á KOSTNAÐ HINNA TEKJULÆGSTU– EKKI MEIR!

Sýnum styrk okkar og stöndum saman um þá sanngjörnu kröfu að við öll getum lifað mannsæmandi lífi hér á Íslandi.

Berjumst!