Skip to main content
Frétt

Svör Samfylkingarinnar í Kópavogi

By 23. maí 2018No Comments

Samfylkingin í Kópavogi svarar spurningum sem komið hafa fram á opnum fundum ÖBÍ: Réttur fatlaðs fólks í sveitarfélögum.

1. Mun framboð þitt beita sér fyrir því að fjölga fagfólki í grunnskólum og koma til móts við þarfir barna og unglinga með fatlanir og raskanir.
Já það er á stefnuskrá Samfylkingarinnar í Kópavogi.
2. Langir biðlistar eru eftir aðgengilegu húsnæði og Félagsbústaðir (í Reykjavík) hafa ekki getað útvegað fötluðu fólki aðgengilegt húsnæði að meinu marki. Mun framboð þitt gera bragarbót á þessu og ef já, með hvaða hætti?
Við stefnum að jöfnuði hér eins og í öðrum málum. Við teljum að allt húsnæði í eigu Kópavogsbæjar eigi að vera aðgengilegt fötluðu fólki.
3. Hefur framboð þitt hugsað sér að hækka tekjuviðmið vegna sérstakra húsnæðisbóta þannig að fólk geti unnið sér inn aukatekjur án þess að missa húsnæðisbæturnar eða þær skertar til muna?
Já, Samfylkingin í Kópavogi telur að gefa eigi fólki færi á að bæta sín lífskjör án þess að það komi strax til skerðingar. Annars er verið að loka fólk inni í fátæktrargildru.
4. Við mótun stefnu ykkar, hefur framboð þitt tekið mið af Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
Samfylkingin í Kópavogi fylgir stefnu Samfylkingarinnar á landsvísi og þar er tekið á réttindum fatlaðs fólks og þar er stefna okkar tiltekin.
5. Mun framboð þitt beita sér fyrir því að bæta ferðaþjónustu fatlaðs fólks?
Ferðaþjónusta fatlaðra í Kópavogi var ekki tengd ferðaþjónustu strætó. Samfylkingin lagði fram tillögu um að gerð yrði könnun hjá notendum ferðaþjónustunnar í Kópavogi eftir að nýr aðili tók við rekstrinum. Niðurstöður voru góðar og almenn ánægja notenda með ferðaþjónustuna. Samfylkingin í Kópavogi vill að ferðaþjónusta fatlaðra sé til fyrirmyndar og komi í ljós hnökrar verði leyst úr þeim.
6. Mun framboð þitt fjölga NPA samningum og liðveisluúrræðum?
Við munum fjölga liðveisluúrræðum og fjölga NPA samningum í samvinnu við ríkisvaldið sem ber ábyrgð á fjármögnun.
7. Hyggst framboð þitt gera félagsbústaðakerfið skilvirkara?
Já. Samfylkingin í Kópavogi hefur lagt fram tillögur um að lóðum verði úthlutað til félaga sem eru ekki hagnaðardrifin og til uppbyggingu á félagslegu húsnæði. Allar þær tillögur hafa verið felldar í bæjarstjórn Kópavogs.
8. Hvað hyggst þitt framboð gera hvað varðar félagslegt húsnæði fyrir fatlað fólk og til að gera úthlutun þess skilvirkari?
Við ætlum að fjölga félagslegum úrræðum og starfa í samræmi við tillögur okkar á síðasta kjörtímabili.
9. Ætlar þitt framboð að skilyrða fjárhagsaðstoð með einhverjum hætti?
Stefna jafnaðarfólks er að sveitarfélög og ríkisvald komi upp öryggisneti og aðstoði þá sem á aðstoð þurfa að halda.
10. Ætlar þitt framboð að bjóða upp á frekari sálfræðiþjónustu í grunnskólum?
Já, Samfylkingin í Kópavogi hefur það á stefnuskrá sinni.
11. Hver er þín skoðun á skóla án aðgreiningar?
Við erum samála skóla án aðgreiningar, þó þannig að úrræði séu til staðar í sérskólum ef það er metið svo að sérskólaúrræði komi viðkomandi einstaklingi betur. Enn fremur að kennsla verði meira einstaklingsmiðuð í almennum grunnskólum svo hægt sé að vinna með þarfir allra nemenda, hvort heldur sem þeir eru fatlaðir eða bráðgerir. Lykilatriðið er að fjölga sérfræðingum sem hafa menntun til að fást við þau mál sem upp koma í skólastarfi.
12. Vill framboð þitt fjölga NPA samningum umfram því sem ríkið fjármagnar? Já eða nei!
Þessu er ekki hægt að svara með já eða nei. Ef fjármagn frá ríki er of lítið þannig að einn eða tveir einstaklingar verði útundan hjá Kópavogi þá er svarið Já, Samfylkingin í Kópavogi myndi vilja taka þann eða þá einstaklinga með á kostnað Kópavogsbæjar í anda jöfnuðar. Ef fjármagn frá ríki kemur ekki og t.d. 20 einstaklingar í Kópavogi biðu eftir samning þá Nei, einfaldlega vegna þess að þá er það fjármagn ekki til. Það er á ábyrgð ríkisvaldsins að útvega fjármagnið en ekki á ábyrgð Kópavogsbæjar.
13. Telur þú mikilvægt að vinna gegn neikvæðri orðræðu í samfélaginu gegn öryrkjum og fólki með fötlun? Ef já. Hvernig ætlarðu að gera slíkt. Ef nei. Hvers vegna ekki?
Já ég tel það mikilvægt, ekki bara gegn öryrkjum og fólki með fötlun heldur gegn fólki í öllum þjóðfélagshópum. Slíkt verður best gert með upplýstri umræðu og aukinni fræðslu, sér í lagi í skólum landsins.