Skip to main content
Frétt

Umboðsmaður ítrekar rétt fatlaðra barna til náms á framhaldsskólastigi

By 15. nóvember 2021No Comments
Umboðsmaður Alþingis hefur ákveði að ljúka athugun sinni á aðgengi fatlaðra barna að skólavist í framhaldsskóla, sem hann hóf í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um að fötluðum börnum væri synjað um skólavist.

Umboðsmaður segir í bréfi til Mennta og menningarmálaráðuneytisins að í svörum þess við fyrirspurnum umboðsmanns hafi komið fram að ástæður þessa hafi fyrst og fremst verið tengdar vanda við innritun, það er að ráðuneytið og Menntamálastofnun, fengju ekki tæmandi upplýsingar frá grunnskólum um fjölda fatlaðra nemenda sem þurfa námsvist á starfsbrautum og þjónustuþörf þeirra.

Ráðuneytið segir í svarbréfi sínu til umboðsmanns að tilteknar breytingar á verklagi við innritun í framhaldsskóla séu yfirstandandi. Starfshópur ráðuneytisins ásamt sérfræðingum frá Menntamálastofnun sé að endurskoða ferli innritunar allra nemenda í framhaldsskóla. Ástæða endurskoðunarinnar sé m.a. að núverandi kerfi tryggi ekki gagnsæi, skortur á samhæfingu milli for-innritunar og loka innritunar og skoða þurfi útskriftardagsetningar úr grunnskólum í tengslum við innritun í framhaldsskóla.

Í svari ráðuneytisins kemur einnig fram að allir nýnemar úr grunnskólum, sem eftir því hafi sóst, hafi fengið boð um skólavist í framhaldsskóla á haustönn 2021 í kringum 15. júní síðastliðinn. leitað hafi verið leiða til að sætta þá foreldra og nemendur, sem ekki voru sáttir við það boð sem barst, og þess vegna hafi ekki legið fyrir upplýsingar um skólavist nemenda fyrr en um miðjan ágúst.

Umboðsmaður vísar sérstaklega til þess að í lögum er áskilið að á framhaldsskólastigi skuli veita nemendum með fötlun og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika, kennslu og sérstakan stuðning í námi. Nemendur með fötlun skuli stunda nám við hlið annara nemenda eftir því sem kostur er.

Umboðsmaður segir svo að í ljósi þeirrar vinnu sem standi yfir í ráðuneytinu sem áður er minnst á, svo og að öll fötluð börn sem sóttust eftir skólavist í framhaldsskóla haustið 2021, hafi fengið slíka vist, telur hann ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram að svö stöddu, en segir að áfram verði fylgst með þessum málum af hálfu embættisins. Umboðsmaður ítrekar svo að ráðuneytið hafi í huga þau sjónarmið sem hann reifar og varða rétt barna til náms, þar á meðal fatlaðra barna, við þá endurskoðun á verklagi við innritun, sem nú á sér stað í ráðuneytinu.