Skip to main content
Frétt

„Von um að réttlætið sigri“

By 21. apríl 2018No Comments

„Nú tekur við 4-8 vikna bið eftir dómsuppkvaðningu með æðruleysið í fararbroddi og von um að réttlætið sigri.“ Þetta segir baráttukonan Freyja Haraldsdóttir. Hún segir að sama hvernig málið fari, sé ljóst að hún, ásamt lögmönnum sínum, hafi gert sitt allra besta til að „tryggja að fatlað fólk njóti eðlilegrar málsmeðferðar og að fötlun ein og sér eða þörf fyrir aðstoð geti aldrei útilokað fatlað fólk sjálfkrafa, án rökstuðnings, frá foreldrahlutverkinu.“

Þetta segir baráttukonan Freyja Haraldsdóttir sem fyrir fjórum árum sótti um hjá Barnaverndarstofu að gerast varanlegt fósturforeldri. Eftir að hafa farið langa leið hefur héraðsdómur nú fjallað um málið og er beðið dóms.

Fjögur löng ár

Það var fyrir fjórum árum sem Freyja sótti um að gerast varanlegt fósturforeldri hjá Barnaverndarstofu. Umsókn hennar var samþykkt í heimilisumdæmi hennar. Næsta skref var að fara á matsnámskeið hjá Barnaverndarstofu þar sem endanlegt mat fer fram á hæfi. „Barnaverndarstofa hafnaði umsókn minni þó áður en ég fékk tækifæri til þess að vera metin,“ segir Freyja sem fjallar um málið á Facebook síðu sinni.

Virt að vettugi vegna fötlunar

„Röksemdir voru í stuttu máli að ég væri fötluð og var menntun mín á sviði þroskaþjálfafræði og kynjafræði, rúmlega áratuga starfsreynsla með börnum og unglingum og jaðarsettum hópum, félagsleg staða, fjárhagslegt öryggi og fjöldinn allur af meðmælum frá fyrrum vinnuveitendum og nákomnum virt að vettugi. Ég áfrýjaði þeirri niðurstöðu til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Barnaverndarstofu. Við þá niðurstöðu gat ég augljóslega ekki unað og ákvað ég að fara með málið fyrir dómstóla.“

Samstaða og kærleikur

Aðalmeðferð í málinu fór fram í vikunni fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Freykja segir að enda þótt dagurinn hafi reynt verulega á, hafi hann líka verið kraftmikill og fullur af samstöðu og kærleika.

„Ég er ólýsanlega þakklát öllu því ómetanlega fólki, ættingjum, vinum, Tabúsystrum, NPA fjölskyldunni, núverandi og fyrrverandi aðstoðarkonum, samstarfsfólki og baráttusystkinum, sem troðfyllti dómssalinn og gott betur en það – sumir þurftu frá að hverfa.“ Það var leitt segir Freyja og tjáir ást og þakklæti. Hún nefnir sérstaklega Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur og Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur, lögmennina sem hér sjást með henni á mynd.

„Þær eru ekki bara framúrskarandi lögmenn heldur sérstaklega vandaðar manneskjur sem hafa stutt mig með ráðum og dáð síðustu fjögur árin, velt við öllum steinum og haft takmarkalausa trú á verkefninu. Þvílík gæfa sem það er.“