Skip to main content
Frétt

Yfir hálfur milljarður í þjálfun rannsakenda á sviði mannréttinda fatlaðs fólks

By 23. október 2018No Comments

Fræðimenn í fötlunarfræði við Háskóla Íslands eru meðal þátttakenda í nýju þverfræðilegu Evrópuverkefni sem hlotið hefur 4,1 milljónar evra styrk, jafnvirði nærri 550 milljóna króna, úr Marie Curie rannóknaráætlun Evrópusambandsins. Markmið verkefnisins er að fjölga ungum fræðimönnum sem samþætta fötlunarfræði og lögfræði í rannsóknum á þróun löggjafar, stefnumótunar og mannréttinda fatlaðs fólks með það fyrir augum að tryggja virka þátttöku og réttindi þessa hóps í samfélaginu. 

Verkefnið ber heitið DARE (Disability Advocacy and Research for Europe) og lýtur forystu fræðmanna við Centre for Law and Policy við National University of Ireland í Galway. Auk þeirra koma fræðimenn við Háskóla Íslands, Maastricht-háskóla í Hollandi, Leeds-háskóla í Englandi og Institute for Social and Political Sciences í Portúgal að verkefninu ásamt European Disability Forum, European Association of Service Providers for Persons with Disabilities og Swiss Paraplegic Research.

Alls munu 15 ungir fræðimenn stunda doktorsnám við þátttökustofnanir verkefnisins í þrjú ár en það hefst formlega í september 2019. Verkefni ungu fræðimannanna er meðal annars að rannsaka áskoranir sem fatlað fólk stendur frammi fyrir í samfélögum nútímans með það fyrir augum að þróa löggjöf, stefnumótun, stjórnsýslu og þjónustu með hliðsjón af Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sá samningur var fullgiltur hér á landi árið 2016. Doktorsnemunum gefst enn fremur ómetanlegt tækifæri til þess að starfa með leiðandi stofnunum og samtökum á sviði réttinda fatlaðs fólk í Evrópu.

Alls munu þrír ungir fræðimenn hefja doktorsnám í fötlunarfræðum hér á landi en Rannveig Traustadóttir, prófessor í fötlunarfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, hefur forystu um það innan Háskóla Íslands. Nær 70 milljónir króna af styrktarfénu koma í hlut hennar og samstarfsfólks hér á landi. „Þátttaka Íslands í þessu viðamikla verkefni er afar dýrmæt og tryggir tengsl við fremstu baráttusamtök og fræðafólk í réttindum fatlaðs fólks á alþjóðavettvangi,“ segir Rannveig Traustadóttir og bætir við að hún vonist til að ungt fræðafólk á Íslandi sæki um þátttöku í verkefninu. „Okkur vantar ungt fólk sem hefur þekkingu og færni til að innleiða nýja mannréttindasáttmála fatlaðs fólks hér á landi.“ 

Greint er frá málinu á vef Háskóla Íslands.