Skip to main content
Frétt

Er verið að svelta okkur til hlýðni?

By 8. apríl 2019No Comments
Það er mikið óunnið hjá stjórn­völd­um og vinn­an mun taka nokk­ur ár. Hvað eiga ör­yrkj­ar að gera á meðan til að fram­fleyta sér? spyr Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ, sem bendir sömuleiðis á að þær skerðingar sem öryrkjar verða fyrir á Íslandi tíðkast hvergi annars staðar.

Í meira en ára­tug hafa ís­lensk stjórn­völd viljað leggja niður nú­ver­andi ör­orkumat og taka upp svo­kallað starfs­getumat. Á meðan stjórn­völd vinna und­ir­bún­ings­vinn­una bíða ör­yrkj­ar eft­ir kjara­bót­um þannig að þeir geti fram­fleytt sér og sín­um á viðun­andi hátt og tekið þátt í sam­fé­lag­inu eins og aðrir. Það er al­veg ljóst að stjórn­völd eiga mikið starf óunnið áður en starfs­getumat kem­ur til fram­kvæmda og í mín­um huga er ég ekki sann­færður um að stjórn­völd­um tak­ist ætl­un­ar­verk sitt, en ef þeim tekst það mun það taka nokk­ur ár. En hvað eiga ör­yrkj­ar að gera á meðan til að fram­fleyta sér?

Örorku­líf­eyr­ir frá Trygg­inga­stofn­un rík­is­ins er í dag rúm­ar 247 þúsund kr. fyr­ir skatt, fyr­ir utan heim­il­is­upp­bót sem aðeins 30% ör­orku­líf­eyr­isþega fá. Þegar búið er að greiða skatt af 247 þúsund­um eru eft­ir til ráðstöf­un­ar rúm­ar 212 þúsund kr. Það er öll­um ljóst að þessi lága upp­hæð hrekk­ur skammt í heim­il­is­bók­hald­inu og ill­mögu­legt er að ná end­um sam­an og þurfa ör­orku­líf­eyr­isþegar að lifa á loft­inu seinni hluta hvers mánaðar.

1. janú­ar síðastliðinn fengu ör­orku­líf­eyr­isþegar að jafnaði inn­an við 8 þúsund kr. eft­ir skatta í hækk­un á líf­eyri fyr­ir árið 2019 og ljóst er að verðbólg­an á þessu ári mun éta hækk­un­ina upp og því verður eng­in raun­hækk­un þetta árið. Þetta er ekki ný staðreynd fyr­ir okk­ur ör­yrkj­ana.

All­ir fá mun meiri hækk­un en við!

Í mörg ár hef­ur ör­orku­líf­eyr­ir verið á pari við at­vinnu­leys­is­bæt­ur en frá og með 1. janú­ar sl. mun­ar rúm­um 32 þúsund kr. á mánaðargreiðslum. Við hjá Öryrkja­banda­lag­inu höf­um þrá­spurt stjórn­völd hverju þetta sæt­ir en fáum eng­in skýr svör og menn yppta öxl­um og segja að þetta hafi bara gerst, eins og stjórn­völd hafi ekki komið ná­lægt breyt­ing­un­um.

Sýnið okk­ur sann­girni og virðingu!

Stjórn­völd geta ekki kennt for­svars­mönn­um Öryrkja­banda­lags­ins um þá kjaragliðnun sem líf­eyr­isþegar hafa þurft að taka á sig síðastliðinn ára­tug. Stjórn­mála­menn og -kon­ur bera alla ábyrgð á slæm­um kjör­um ör­yrkja og það er löngu orðið tíma­bært að losa fatlað og veikt fólk út úr fá­tækt­ar­gildr­um t.d. með því að losa okk­ur und­an krónu-á-móti-krónu-skerðing­unni.

Svona skerðing­ar þekkj­ast ekki í ná­granna­lönd­um okk­ar og all­ir stjórn­mála­flokk­ar á Alþingi hafa sagt að það eigi að af­nema þetta órétt­læti strax en ekk­ert ger­ist. Nýj­asta út­spil rík­is­stjórn­ar­inn­ar er að hækka at­vinnu­leys­is­bæt­ur um rúm­ar 42 þúsund kr. og skilja aldraða og ör­yrkja eft­ir með ein­ung­is 3,6% hækk­un sem étin verður upp í verðbólgu.

Rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur er úti á túni við að draga úr fá­tækt því fá­tækt hef­ur þvert á móti auk­ist í ís­lensku sam­fé­lagi. Ég skora á Katrínu að stíga fram og verja þá sem verst standa án taf­ar. Fyrst er að viður­kenna vand­ann og síðan að bregðast við hon­um með ábyrg­um hætti.
 
Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ

Greinin var einnig birt í Morgunblaðinu, 6. apríl 2019