Skip to main content
Frétt

Íslenskan verði nothæf í stafrænum heimi

By 12. október 2021No Comments
Tungan þarf að vera nothæf í stafrænum heimi framtíðar. Með gríðarlegum breytingum á tölvunotkun, máltækni með nýrri gervigreindartækni og talgervlum eiga smá málsamfél á í vök að verjast. Varðstaða móðurmálsins ákvarðar hvernig málsamfélaginu reiðir af. Einungis framþróun þar sem íslenskan er felld inn í tölvutækni og starfræna þjónustu verður hún raunverulegur valkostur í öllu viðmóti og upplýsingavinnslu. Fylgi íslenskan ekki nýrri tækni situr hún eftir og tækin nýta önnur tungumál.

Samkeppnishæfni samfélags og tungu

Tungumál verða æ meir nýtt í samskiptum við tæki og marvísleg tæki verða sífellt meira notuð til að vinna með tungumál. Ný gervigreindartækni gerir okkur kleift að hagnýta stór texta-, mál- og upplýsingasöfn með áður óframkvæmanlegum hætti. Dæmi um það eru sjálfvirk fyrirspurna- og samtalskerfi sem geta aukið hagkvæmni og bætt þjónustu fyrirtækja og stofnana. Þýðingarvélar auka framleiðni þýðenda og gera meira efni aðgengilegt á ólíkum tungum. Áheyrilegir talgervlar létta aðgengi að efni á hljóðbókaformi jafnvel á tungum fámennra þjóða.

Mikilvægt fyrir blinda, sjónskerta og lesblinda

Hugbúnaður sem gerir fólki kleift að tala eða skrifa, sem annars væri það ókleift sakir fötlunar eða sjúkdóma, getur gjörbreytt lífsgæðum þeirra. Engum blöðum er um það að fletta að ný máltækni gagnast blindum, sjónskertum og lesblindum sérstaklega vel ásamt því að spila lykilhlutverk í aðgengi upplýsinga og miðlun þeirra fyrir alla í samfélaginu. Þúsundir félagsmanna Blindrafélags Íslands og Félag lesblindra á Íslandi bera miklar væntingar til framþróunar íslensku í stafrænum heimi framtíðar.

Þessi tækniþróun er fyrirheit aukina lífsgæða og samkeppnishæfni atvinnulífs, samfélags og tungumáls. Til að svo sé verður að tryggja fólki, fyrirtækjum og stofnunum að geta nýtt máltækni án þess að flókin og þung tækni- og innviðaþróun standi fyrir þrifum.

Síðasta ríkisstjórnin stóð að framkvæmd máltækniáætlunar sem miðaði að gjaldgengi íslenskrar tungu í stafrænum heimi. Verkefnið var samvinna rannsóknastofnana, háskóla, fyrirtækja og frjálsra félagasamtaka. Margvíslegum tal- og textagögnum var safnað og forskriftir af talgreiningarvélum, talgervlum, ritvinnslustoð og vélrænum þýðingarvélum gefnar út. Nýjar „raddir“ hafa verið gefnar út fyrir Android stýrikerfið sem verður auðvelt að viðhalda og bæta með innlendri þekkingu. Enn er þó langt í land.

Máltækni í nýjan stjórnarsáttmála

Fyrstu máltækniáætluninni líkur senn og því skorum við á stjórnvöld að hefja undirbúning og framkvæmd nýrrar máltækniáætlunar. Finna verður fleiri leiðir til að koma afurðum fyrstu máltækniáætlunarinnar í hendur tækninotendenda. Tækninni fleygir einnig fram og Ísland verður að halda í við þróun stærri málsvæða.

Máltækni er mikið jafnréttis- og mannréttindamál fyrir blinda, sjónskerta og lesblinda. Hún skiptir miklu máli í allri nýsköpun og tækniþróun og er grundvöllur aukinnar skilvirkni í fyrirtækjarekstri sem og hinu opinbera.

Við hvetjum forystumenn íslenskra stjórnmála að tryggja áfram gott skipulag og samstillt átak um sterka stöðu íslensku í stafrænum heimi framtíðar. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar þarf skýra yfirlýsing um nýja máltækniáætlun sem varðturn íslenskrar tungu í ólgusjó tækniframfara. Varðstöðu um það sem sameinar okkur sem þjóð. 

Greinin er eftir þá Guðmund Skúla Johnsen formann Félags lesblindra og Sigþór U. Hallfreðsson formann Blindrafélagsins og birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2021