Skip to main content
Frétt

„Land tækifæranna“

By 10. september 2018No Comments

Í ljósi umræðu síðustu vikna bendi ég á þá nöturlegu staðreynd að lífeyristekjur örorkulífeyrisþega eru langt undir lágmarkslaunum. Þær eru nú mun lægri en lágmarks atvinnuleysisbætur í dag (270 þús. kr. á mánuði fyrir skatt). Örorkulífeyrisþegar geta náð því að fá 300.000 kr. á mánuði fyrir skatt frá Tryggingastofnun, en bara ef þeir fá svonefnda heimilisuppbót. Hún er bundin  því að fólk búi eitt, í eigin húsnæði eða sé með þinglýstan leigusamning. Innan við þriðjungur örorkulífeyrisþega er í þessari stöðu og fær því þessa heimilisuppbót.

Hreppsómagakerfi nútímans

Um helmingur örorkulífeyrisþega hefur úr enn minna að spila; lægri upphæð en 270 þúsund á mánuði fyrir skatt, til að lifa af. Það segir sig sjálft að það fólk þarf að stórum hluta að leita til sveitarfélagsins í von um að geta kannski náð endum saman. Það er ekki eftirsóknarvert að þurfa að biðja um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu, hjálparstofnun eða þurfa að leita á náðir ættingja og vina. Þetta eru því miður ekki undantekningar, heldur venja í allt of mörgum tilvikum. Er von að fólk spyrji hversu aum þau stjórnvöld séu sem leyfa svona að viðgangast?

Loforð gefin á atkvæðaveiðum fyrir kosningar hafa litla merkingu þegar stjórnvöld skirrast við að afnema skerðingar og tekjutengingar og gera þar með fötluðu fólki illmögulegt að bæta hag sinn t.d. með vinnuframlagi.

Gildishlaðin orð um „land tækifæranna“ (eins og það er orðað í stjórnarsáttmálanum) hafa enga merkingu þegar aðgerðir og aðgerðarleysi halda í raun við gamla hreppsómagakerfinu.

Afturför

Stærstur hluti örorkulífeyrisþega  á að baki langan feril á vinnumarkaði. Þetta fólk sem sannarlega hefur skilað sínu, er jarðarsett, í samfélagi sem það sjálft tók þátt í að halda uppi með vinnuframlagi sínu árum og áratugum saman. Þannig er kerfisbundið stuðlað að aukinni stéttarskiptingu og ójöfnuði.

Og það er afturför þegar bilið milli sárafátæktar og ofurríkra fer breikkandi. Þetta gerist skjóli stjórnvalda og síbylju um prósentujöfnuð og kaupmáttaraukningu sem engin örorkulífeyrisþegi sér í sínu veski.

Nærð þú endum saman?

Láglaunafólk hvort sem það eru örorkulífeyrisþegar eða fólk á vinnumarkaði hefur beðið of lengi, of lengi reynt að lifa af krónutölu sem allir vita að dugar ekki. Tími þolinmæði er á þrotum.  Blákaldur veruleikinn er sá að allt of stór hluti þjóðarinnar býr við fátækt og sárafátækt. Við sjáum þetta í nýlegum tölum Hagstofunnar um heildarlaun. Miðgildi þeirra er rétt rúmar 400 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt. Það þykir ekki mikið. Hvernig á þá að vera hægt að lifa af helmingnum af þeirri upphæð?

Jarðsamband óskast

Ég tala máli fólks sem aldrei hefur átt þess kost að taka þátt á vinnumarkaði eða er ekki lengur á vinnumarkaði, fólks sem getur unnið en fær ekki vinnu og fólks sem útslitið og útbrunnið vegna líkamlegs og andlegs álags við að reyna að sjá sér og sínum farborða. Annað hvort þurfa lágmarkslaun, hvort sem það eru atvinnutekjur eða lífeyristekjur, að hækka umtalsvert eða kostnaður við að lifa, að lækka verulega.

Tal stjórnvalda lýsir ekki bara ábyrgðarleysi valdhafa gagnvart þeim íbúum landsins sem minnstu afkomu hafa, heldur einnig því að vera algjörlega úr tengslum við þann þjóðfélagshóp. Koma svo stjórnvöld, þið getið lagað þetta!

 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands

Birtist fyrst á Kjarnanum.