Skip to main content
Frétt

Ljóta orðið, heilaskaði

By 21. október 2018No Comments
Þessi grein eftir Stefán John Stefánsson, verkefnisstjóra Hugarfars birtist í Fréttablaðinu (prentútgáfu), 18. október 2018. 

Ákominn heilaskaði er er algengasta fötlun ungs fólks á Íslandi í dag. Af þeim 1000-1500 einstaklingum sem hljóta heilaáverka á hverju ári hér á landi eru um 350 einstaklingar sem glíma við langvarandi afleiðingar og jafnvel fötlun vegna þessa. Ákominn heilaskaði er flokkaður sérstaklega einkum vegna orsaka og alvarleika hans því eru ekki tilvik heilablóðfalla og heilabilana með í þessum tölum svo fjöldinn er mun meiri ef þau eru tekin inn í reikninginn. Meirihluti þessara einstaklinga sem hljóta ákominn heilaskaða sitja eftir án greiningar, meðferðar né eftirfylgni á þessarri ósýnilegu fötlun sinni. Heilaskaði er oft nefndur „hinn þögli faraldur“ því um dulda fötlun er að ræða þar sem það sést ekki utan á fólki því er heilaskaði vangreindur og fjöldi fólks er að líma við afleiðingar heilaskaðans sem má rekja til slys, falls, umferðaróhapps eða margvíslegra sjúkdóma.

Þeir einstaklingar sem fá greiningu, sitja uppi með þetta ljóta orð yfir fötlun sinni, „heilaskaði“.  Fötlun sem er jú annað ljótt orð sem einstaklingar með heilaskaða upplifa í mótsögn við eigin spegilmynd sem er oft óbreytt, hvergi er plástra að sjá né gifs, engar slöngur sýnilegar og enn kunna þessir einstaklingar að telja upp á 10 aftur á bak. 

En síðan er allt hitt, allt sem ekki sést utan á fólki með heilaskaða: verkir, þol-þróttleysi, minnistap, einbeitingarskortur, persónuleikabreytingar, skapbreytingar og þessi mikla þreyta sem bugar marga einstaklinga með ákominn heilaskaða.

Heilaskaði er stórt og mikið orð yfir mjög víðtæka fötlun, allt frá vægum heilaáverkum í alvarlegan heilaskaða sem hefur þau áhrif að einstaklingar geta ekki búið sjálfstætt. 

Það á við um heilaskaða líkt og aðra falda sjúkdóma að ekki fyrr en einstaklingurinn játar veikleika sína að hann geti eflt og gert þá að styrkleikum sínum.


Stefán John Stefánsson, verkefnisstjóri Hugarfars