Skip to main content
Umsögn

53. mál. Endurskoðun lögræðislaga. 13. mars 2019.

By 13. maí 2019No Comments

Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 13. mars 2019

 

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun lögræðislaga, þskj. 53, 53. mál.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) þakkar fyrir að fá þingsályktunartillöguna til umsagnar og styður hana heils hugar og hvetur Alþingi til þess að samþykkja hana.

Líkt og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni er tilgangur hennar að vinna að heildarendurskoðun lögræðislaga, nr. 71/1997, en áður höfðu verið gerðar breytingar á lögræðislögum sem urðu að lögum nr. 84/2015. Breytingunum var ætlað að vera í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og þá sérstaklega 12. gr. SRFF sem fjallar um jafna réttarstöðu fatlaðs fólks og jafnan rétt til lögformlegs hæfis og rétt fatlaðs fólks til stuðnings við ákvarðanatöku. Breytingarnar náðu hins vegar engan veginn markmiði sínu og brjóta lögræðislög eins og þau eru í dag gegn ákvæðum SRFF og fela í sér alvarlega mismunun gagnvart fötluðu fólki. Þá fela gildandi lögræðislög í sér of rúmar heimildir til nauðungarvistunar og til þvingandi meðferðar en slíkt hefur verið gagnrýnt af European Committe for the Prevention of Torture and Inhuman Degrading Treatment or Punishment (CPT). Þá er mikilvægt að hið svokallaða lögráðamannakerfi sem byggist á staðgengilsákvörðunartöku (e. substitute decision-making) verið afnumið og komið verði á fót kerfi sem byggist á studdri ákvörðunartöku (e. supported decision-making). Jafnframt má benda á að vorið 2016 heimsótti Nils Muižnieks, fyrrum mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Ísland og ræddi m.a. mannréttindamál fatlaðs fólks hér á landi og furðaði sig á metnaðarleysi íslenskra stjórnvalda gagnvart þeim. Nils hafði áður gagnrýnt norsk stjórnvöld og ný lögræðislög þeirra sem tóku gildi árið 2010 þar sem þau þóttu brjóta gegn ákvæðum SRFF og annarra alþjóðamannréttindasamninga en norsku lögræðislögin voru höfð sem fyrirmynd við gerð frumvarps sem varð að lögum nr. 84/2015. Það er því ekki eingöngu tímabært heldur mikilvægt að heildarenduskoðun lögræðislaga nr. 71/1997 eigi sér stað.
 
Þá er mikilvægt að benda á almennt álit (e. general comment) sérfræðinefndar SRFF nr. 1 sem fjallar um 12. gr. SRFF og vill ÖBÍ koma því áleiðis að nauðsynlegt sé fyrir alla sem koma að vinnu við endurskoðun á lögræðislögum að kynna sér álitið til hlítar og hafa það til hliðsjónar við alla vinnu.
 
Ísland fullgilti SRFF í september 2016 og ljósi þess er brýnt að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á innlendri löggjöf til samræmis við ákvæði SRFF. Í vor munu íslensk stjórnvöld skila af sér svokallaðri stöðuskýrslu til sérfræðinefndar um innleiðingu og framkvæmd á samningnum. Það er ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegt fyrir íslenskt samfélag að engum sé mismunað um réttindi sín, alltof of lengi hefur fötluðu fólki verið mismunað og það ekki notið jafns réttar á við aðra á grundvelli fötlunar sinnar.
 
ÖBÍ fagnar því að í tillögunni sé lagt til að Alþingi kjósi sérnefnd þingmanna þvert á þingflokka sem vinna eiga að endurskoðun laganna og ítrekar mikilvægi þess að virkt og náið samráð verði haft við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess frá upphafi vinnunnar en þar liggur sérfræðiþekkingin og reynslan.
 
Ekkert um okkur án okkar!
Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
Formaður Öryrkjabandalags Íslands