Skip to main content
Frétt

Aðalfundur ÖBÍ 2020

By 24. mars 2021No Comments
Fundargerð aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands, haldinn á Grand Hóteli í Reykjavík 2. október kl. 16:00-19:00, og 3. október 2020, kl. 10:00-17:00.

Ávarp formanns, fundarsetning

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 16:07 og bauð fundarmenn velkomna. Formaður sagði frá breyttu fundarformi í ljósi samkomutakmarkana og sóttvarna. Hluti aðalfundarfulltrúa var í sal og hluti tók þátt í gegnum Zoom.

Formaður lagði til að Eyvindur Elí Albertsson og Rósa María Hjörvar yrðu fundarstjórar og var það samþykkt. Formaður lagði til að Aðalheiður Rúnarsdóttir og Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir rituðu fundargerð og var það samþykkt. Þá bauð formaður fundarstjórum að taka við fundinum.

Fundarstjórar þökkuðu traustið, buðu gesti velkomna og kynntu dagskrá fundarins (fskj. nr. 1). Fundarstjóri tilkynnti að samkvæmt venju sætu fundinn áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ, Karen Anna Erlingsdóttir, og áheyrnarfulltrúi Ungliðahreyfingar ÖBÍ, Margét Lilja Aðalsteinsdóttir.

Almenn fundarstörf

Skýrsla stjórnar (1)

Formaður flutti skýrslu stjórnar (fskj. nr. 2 – Ársskýrsla ÖBÍ 2019 til 2020. Skýrsla formanns og stjórnar, bls. 9-31) og sagði meðal annars frá eftirfarandi atriðum:

Skýrslan og starf sambandsins litast af Covid sem hefur tekið yfir líf okkar allra. Fyrirhugað var að halda stóran borgarafund, málþing og funda með alþingismönnum og sveitarfélögum. En svo kom Covid og fundir færðust úr fundarsölum yfir á eldhúsborðið. Stefnuþingi var frestað fram á næsta ár. ÖBÍ var í góðum samskiptum við stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög og sendi stjórnvöldum vikulega skýrslu um hvaða áhrif ástandið hafði á okkar fólk.

Á síðasta aðalfundi var hleypt af stokkunum auglýsingaherferðinni „Þér er ekki boðið“. Herferðin hófst með áberandi sjónvarpsauglýsingu en einnig voru miklar auglýsingar á samfélagsmiðlum. Þá er hafinn undirbúningur að sjónvarpsþáttaröð „Dagur í lífi“ sem stefnt er að verði sýnd á RÚV haustið 2021 ef Covid leyfir. Rafræn kröfuspjöld vegna rafrænnar kröfugöngu sem málefnahóparnir stóðu fyrir í tilefni af 1. maí fengu einnig góða dreifingu á samfélagsmiðlum.

Á árinu hefur verið afar gott samstarf á milli ÖBÍ og verkalýðshreyfingarinnar enda margar sameiginlegar áherslur í baráttunni. Þann 19. maí skrifuðu fjögur heildarsamtök launafólks (ASÍ, BSRB, BHM og KÍ) undir yfirlýsingu og kröfu ÖBÍ um að hagur öryrkja yrði bættur öllum til hagsbóta. Þarna fékk ÖBÍ góðan liðsstyrk í baráttunni en innan þessara fjögurra heildarsamtaka eru um 180.000 einstaklingar. 

Mikill tími ÖBÍ fór í að skrifa umsagnir um fjáraukalög og berjast fyrir hækkun grunnlífeyris. Fulltrúar ÖBÍ fóru auk þess á fundi fjárlaganefndar og félagsmálanefndar til þess að fylgja umsögnunum eftir.  Öll vinnan skilaði því að í desember 2019 greiddi TR eingreiðslu að upphæð 10.000 kr. til þeirra örorkulífeyrisþega sem fá desemberuppbót. Sami hópur fékk svo aðra eingreiðslu í júní 2020 að upphæð 20.000 kr. Báðar þessar eingreiðslur voru skattfrjálsar til þess að koma í veg fyrir skerðingar.

Þrátt fyrir erfitt ár gerðist ýmislegt gott líka. Framganga velferðarsviðs Reykjavíkurborgar var aðdáunarverð í Covid faraldrinum. ÖBÍ vann dómsmál gegn TR vegna búsetuskerðingar þeirra sem eru eða hafa verið búsettir erlendis. Sálfræðiþjónusta verður niðurgreidd skv. samþykkt Alþingis. Hækkun varð á styrkjum til kaupa á sérútbúnum bílum.

Á árinu voru haldnir reglulegir samráðsfundir við TR. TR viðurkenndi að hafa reiknað einstaklinga út skv. rangrireiknireglu í búsetumálum. Enn er samt sama reikniregla notuð við útreikninga og ÖBÍ vinnur að því að því verði breytt. Margir örorkulífeyrisþegar fengu endurkröfu frá TR þegar Reykjavíkurborg framfylgdi dómi Hæstaréttar og greiddi öllum þeim sem áttu rétt á því húsaleigubætur. Vegna stöðugrar vinnu ÖBÍ féllst TR á að skoða mál hvers og eins.

Formaður lagði áherslu á að rödd ÖBÍ væri sterk og greinilegt er að á hana er hlustað. Því væri afar mikilvægt að tala öll einum rómi. Vefsíða og samfélagsmiðlar sambandsins eru mikilvægir hlekkir í fréttaflutningi. Facebooksíða ÖBÍ er með um 9000 fylgjendur sem margir hverjir eru afar virkir.

Málefnahópar bandalagsinseru orðnir 7 talsins, fimm fastir hópar og tveir tímabundnir. Málefnahóparnir eru afar mikilvægir þrýstihópar og starf þeirra er grundvöllur málefnavinnu ÖBÍ. Mikið hefur verið að gera hjá hópunum og öll eru baráttumálin brýn. 

ÖBÍ tekur virkan þátt í erlendu samstarfi, bæði norrænu og evrópsku. Starfsárið 2019-2020 fór Ísland með formennsku í HNR sem er samstarfsvettvangur heildarsamtaka fatlaðs fólks á Norðurlöndunum. Þrír fundir voru haldnir á árinu, einn í Stokkhólmi og tveir í gegnum Teams fjarfundabúnað. Á dagskrá fyrsta fundarins var staða fatlaðs fólks á vinnumarkaði en síðari tveir fundirnir voru helgaðir Covid og áhrifum faraldursins á fatlað fólk. Fulltrúar ÖBÍ tóku einnig þátt í fundum á vegum RNSF (ráðgefandi og stefnumarkandi ráð varðandi málefni fatlaðs fólks fyrir norrænu ráðherranefndina) og EDF (Evrópusamtök fatlaðs fólks). 

Tveir formannafundir voru haldnir á árinu. Sá fyrri var haldinn 12. september 2019 en sá seinni 21. janúar 2020. 

Formaður fór einnig yfir hvað væri framundan. Haustið 2021 verður kosið til Alþingis. Á kosningaári harðnar baráttan óneitanlega og þá sem aldrei fyrr er mikilvægt að standa saman. 

Fundarstjóri bauð umræður um skýrslu stjórnar, en enginn kvaddi sér hljóðs.

Ársreikningur ÖBÍ (2)

Bryndís Björk Guðjónsdóttir, endurskoðandi frá PwC ehf., kynnti ársreikning ÖBÍ fyrir árið 2019 (fskj. nr. 3 – Ársreikningur ÖBÍ 2019). Endurskoðandi vakti athygli á athugasemd um Covid-19 í skýrslu stjórnar. Ekki var búist við að veiran mundi hafa áhrif á fjárhagsstöðu ÖBÍ.

Það var álit endurskoðanda að reikningurinn gæfi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu, efnahag og breytingum á haldbæru fé í árslok 2019. Ársreikningurinn var áritaður án fyrirvara af endurskoðanda og skoðunarmönnum.

Endurskoðandi fór yfir helstu meginatriði ársreikningsins.

Rekstrartekjur ársins 2019 voru 706 milljónir í stað rúmlega 661 milljón árið 2018.

Rekstrargjöld ársins 2019 voru einnig hærri en árið áður, eða 322 milljónir 2019 í stað 281 milljóna 2018.

Rekstrarafkoma ársins 2019 fyrir fjármunatekjur og -gjöld var 384 milljónir, en 380 milljónir 2018.

Rekstrarafkoma ársins 2019, að meðtöldum fjármunatekjum og veittum styrkjum, var neikvæð um ríflega 4,5 milljónir, í stað tæplega 39 milljóna hagnaðar árið áður. Þar munaði mest um tæplega 400 milljónir í veitt framlög og styrki árið 2019 í stað ríflega 352 milljóna árið áður.

Efnahagshluti reikningsins breyttist ekki mikið á milli ára.  Varanlegir fastafjármunir voru 318 milljónir 2019 samanborið við 321 milljón árið áður og jukust langtímakröfur úr 200 milljónum árið 2018 í 207 milljónir árið 2019. Þar var fyrst og fremst um að ræða bundnar innistæður.

Fastafjármunir samtals voru því 525 milljónir 2019 í stað 524 milljóna árið áður. Veltufjármunir voru 304 milljónir 2019 í stað 285 milljóna 2018 og voru eignir því samtals 829 milljónir árið 2019, í stað 809 milljóna 2018.

Eigið fé og skuldir voru samtals 829 milljónir 2019 í stað 809 milljóna árið áður. Það skiptist í óráðstafað eigið fé, sem var 608 milljónir 2019 í stað 613 milljóna árið áður, og skuldir, sem voru samtals 221 milljón 2019 í stað 196 milljóna 2018.

Rekstrarafkoma ársins 2019 var neikvæð um 4,6 milljónir. Skýrðist það helst af því að haldbært fé frá rekstri í árslok 2019 var tíu milljónir, í stað 147 milljóna árið áður. Helsta skýring þessarar miklu breytingar var talsverð skammtímaskuld vegna ógreidds styrks til Brynju hússjóðs.

Handbært fé í árslok 2019 var því 228 milljónir, í stað 227 milljóna árið áður.

Vísaði endurskoðandi í skýringar í ársreikningi á blaðsíðu 10-16 til frekari glöggvunar.

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um reikninga ÖBÍ. Til svara voru gjaldkeri ÖBÍ, Bergur Þorri Benjamínsson, og framkvæmdastjóri ÖBÍ, Lilja Þorgeirsdóttir.

Framkvæmdarstjóri ÖBÍ, Lilja Þorgeirsdóttir, sagði tekjur ársins 2019 hafa verið góðar, hærri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Sagði hún tekjur nær alfarið frá Íslenskri getspá, en að leigutekjur standi undir meginþunga kostnaðar af rekstri fasteignar ÖBÍ. Framkvæmdarstjóri sagði ráðstöfun tekna vera ákvörðun stjórnar og að fjármagni væri ráðstafað til aðildarfélaga ÖBÍ, Brynju hússjóðs og reksturs ÖBÍ. Þá væru greiddir styrkir til fyrirtækja sem ÖBÍ er aðili að og innlent hjálparstarf.

Gjaldkeri ÖBÍ, Bergur Þorri Benjamínsson, færði fundinum þau gleðitíðindi að á fundi sínum þann 29. september 2020 samþykkti stjórn Íslenskrar getspár að greiða út aukagreiðslu upp á 300 milljónir til eignaraðila. Minnti Bergur á að ÖBÍ eigi 40% í Íslenskri getspá.

Frekari umræður og fyrirspurnir voru ekki og bar fundarstjóri reikninginn upp til atkvæða. Ársreikningur ÖBÍ 2019 var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Skýrslur fastra málefnahópa (3)

Skýrslur málefnahópa ÖBÍ voru birtar í Ársskýrslu ÖBÍ 2019-2020 sem var dreift á fundinum (fskj. nr. 2, bls. 34-39).

Málefnahópur um aðgengismál (a)

Ingveldur Jónsdóttir frá MS félagi Íslands, formaður hópsins, sagði frá starfi hópsins og þakkaði þeim sem sátu í hópnum gott samstarf .

Ásamt Ingveldi voru í hópnum Birna Einarsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Ingólfur Már Magnússon frá Heyrnarhjálp, Jón Heiðar Jónsson frá Sjálfsbjörg lsh., Lilja Sveinsdóttir frá Blindrafélaginu, Margrét Lilja Arnheiðardóttir frá Sjálfsbjörg lsh. og Sigurjón Einarsson frá Fjólu, sem einnig var varaformaður. Formaður þakkaði starfsmanni hópsins, Stefáni Vilbergssyni, fyrir einstaklega gott samstarf og aðstoð.

Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu.

Málefnahópur um atvinnu- og menntamál (b)

Áslaug Ýr Hjartardóttir, Fjólu, var starfandi formaður hópsins frá desember 2019 og fór yfir starf hópsins. Hún hrósaði hópnum fyrir vel unnin störf og sagði mjög gott að vinna með honum.

Með Áslaugu Ýr störfuðu í hópnum Brynhildur Arthúrsdóttir frá Laufi, Elma Finnbogadóttir frá Blindrafélaginu, Hrannar Björn Arnarsson frá ADHD samtökunum, Hrönn Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands, og Vilborg Jónsdóttir frá Parkinsonsamtökunum. Sigurður Jón Ólafsson frá Stómasamtökum Íslands og Sylviane Lecoultre frá Geðhjálp voru varamenn. Starfsmaður hópsins var Þórdís Viborg.

Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu.

Málefnahópur um heilbrigðismál (c)

Emil Thóroddsen frá Gigtarfélagi Íslands, formaður hópsins, gerði grein fyrir starfi hópsins á starfsárinu.

Ásamt honum voru í hópnum Fríða Rún Þórðardóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir frá Sjálfsbjörg lsh., Guðni Sigurmundsson frá Sjálfsbjörg lsh., Karl Þorsteinsson frá Ás styrktarfélagi, Sigríður Jóhannsdóttir frá Samtökum sykursjúkra og Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum. Stefán Vilbergsson var starfsmaður hópsins.

Fundarstjóri bauð umræður en enginn kvaddi sér hljóðs.

Málefnahópur um kjaramál (d)

Bergþór Heimir Þórðarson frá Geðhjálp, formaður hópsins, sagði frá starfi hópsins.

Ásamt honum störfuðu í hópnum Atli Þór Þorvaldsson frá Parkinsonsamtökunum, sem var varaformaður, Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Elín Ýr Hafdísardóttir frá Fjólu, Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir frá Tourette-samtökunum á Íslandi, Frímann Sigurnýasson frá Vífli og Unnur Hrefna Jóhannsdóttir frá Laufi. Varamenn hópsins voru Geirdís Hanna Kristjánsdóttir frá Geðhjálp og Valgerður Hermannsdóttir frá Hjartaheillum. Sigríður Hanna Ingólfsdóttir var starfsmaður hópsins.

Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu.

Málefnahópur um sjálfstætt líf (e)

Rúnar Björn Herrera frá SEM samtökunum, formaður hópsins, sagði frá starfi hans.

Með honum áttu sæti í hópnum Bergþór G. Böðvarsson frá Geðhjálp, Eliona Gjecaj frá Blindrafélaginu, Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir frá Blindrafélaginu, Eyþór Kamban Þrastarson frá Blindrafélaginu, Megan Lee Smith frá Sjálfsbjörg lsh. og Snædís Rán Hjartardóttir frá Fjólu. Starfsmaður hópsins var Sigurjón Unnar Sveinsson og Katrín Oddsdóttir.

Rúnar Björn sagði frá starfi hópsins. Engar fyrirspurnir bárust.

Málefnahópur um málefni barna (f)

Elín Hoe Hinríksdóttir frá ADHD samtökunum, formaður hópsins sagði frá starfi hans.

Með henni í hópnum voru Fríða Bragadóttir frá Samtökum sykursjúkra / Laufi, Hjalti Sigurðsson frá Blindrafélaginu, Jóna Kristín Gunnarsdóttir frá ADHD samtökunum, Sif Hauksdóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Sigrún Birgisdóttir frá Einhverfusamtökunum og Sunna Brá Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands. Varamaður var Margrét Vala Marteinsdóttir frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Starfsmaður hópsins var Þórdís Viborg.

Spurt var hvort ungmenni eða barn ætti sæti í hópnum. Elín sagði svo ekki vera en að eitt sæti væri laust í hópnum og hvatti hún aðildarfélögin til að tilnefna ungmenni sem fulltrúa í hópinn.

Málefnahópur um húsnæðismál (g)

María Pétursdóttir frá MS félagi Íslands var formaður hópsins og sagði frá starfi hans.

Með henni í hópnum sátu Guðmundur Rafn Bjarnason frá Blindrafélaginu, María Magdalena Birgisdóttir Olsen frá Gigtarfélaginu, María Óskarsdóttir frá Sjálfsbjörg lsh., Olgeir Jón Þórisson frá Einhverfusamtökunum sem var varaformaður hópsins, Stefán Benediktsson frá Heyrnarhjálp, Steinar Björgvinsson frá Blindrafélaginu. Frímann Sigurnýasson frá Vífli og Karen Anna Erlingsdóttir frá Gigtarfélaginu voru til vara. Valdís Ösp Árnadóttir var starfmaður hópsins.

Spurt var hvort hópurinn hafi skoðað umhverfismál í tengslum við húsnæði. María sagði svo vera og að hópurinn hafi rætt um að setja spurningar þar að lútandi inn í könnun um húsnæði, umhverfi og aðgengi.

Skýrslur fyrirtækja (4)

Skýrslur fyrirtækja lágu frammi (fskj. nr. 2, bls. 42-47) og ársreikninga fyrirtækja má sjá í fylgiskjölum 4a-4d. Fundarstjóri bauð umræður um skýrslurnar.

BRYNJA, hússjóður Öryrkjabandalagsins (a)

Emil Thóroddsen, stjórnarmaður hjá Brynju hússjóði, var til svara. Spurt var hvort stjórn sjóðsins sæi tækifæri til að stækka eignasafn sjóðsins. Sagði Emil stöðuna ekki góða, að lokað hafi verið fyrir umsóknir í rúmt ár og ekki væri fyrirséð að opnað yrði aftur í bráð, en í kringum 500 væru á biðlista. Sagði hann alltaf væri vel tekið á móti hugmyndum um úrræði til úrbóta. Óvenju margar íbúðir voru keyptar á árinu.

Örtækni (b)

Þorsteinn Jóhannsson, framkvæmdastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Hringsjá (c)

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ, var til svara. Spurt var um vangreidd opinber gjöld á ársreikningi. Lilja sagði það alvanalegt, opinber gjöld séu ekki greidd fyrr en í janúar og því sé ekki um skuld að ræða.

TMF- Tölvumiðstöð (d)

Sigrún Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Fjölmennt (e)

Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Íslensk getspá (f)

Bergur Þorri Benjamínsson, fulltrúi ÖBÍ í stjórn Íslenskrar getspár, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Stefnuþing: Stefna og starfsáætlun (5)

Formaður sagði frá því að fjórða Stefnuþingi ÖBÍ, sem fram átti að fara í mars 2020, hafi verið frestað vegna samkomutakmarkana vegna Covid-19 og að áætlað væri að halda þingið 9. og 10. apríl 2021.

Aðildargjöld, ákvörðun (6)

Fundarstjóri kynnti framkomna tillögu frá stjórn ÖBÍ um að aðildargjöld ÖBÍ yrðu óbreytt, 0 kr. (sjá fskj. nr. 5).

Spurt var um forsendur tillögunnar og ástæðu þess að engin aðildargjöld væru greidd. Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri, svaraði. Í 6. gr. laga ÖBÍ segir að aðildarfélög skuli greiða aðildargjöld í samræmi við ákvörðun aðalfundar. Áður en Íslensk  getspá var stofnuð og ÖBÍ fór að fá þaðan reglubundnar tekjur var rekstur ÖBÍ fjármagnaður með greiðslu þessara aðildargjalda. Í dag er ekki þörf á að greiðslu þessara gjalda en vegna laga ÖBÍ er þessi tillaga afgreidd árlega.

Þá var tillagan tekin til atkvæða og hún samþykkt með 106 atkvæðum gegn fjórum, einn sat hjá.

Stjórnarseta, þóknun (7)

Fundarstjóri tók til afgreiðslu tillögu frá stjórn ÖBÍ um þóknun fyrir stjórnarsetu, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 6):

Lagt er til að fyrirkomulag við greiðslu þóknunar fyrir fundarsetu fyrir fulltrúa í stjórn ÖBÍ verði eftirfarandi:

• Stjórnarmenn ÖBÍ og varamenn fá greiddar 7 einingar fyrir hvern setinn stjórnarfund sem er allt að 2,5 klst. langur. 2 einingar eru fyrir undirbúning fundar og 5 einingar fyrir sjálfan fundinn. Ef forföll eru tilkynnt eru greiddar 2 einingar fyrir undirbúning fundar.

• Fyrir hverja klst. umfram það er greidd ein eining.

• Upphæð þóknunar tekur mið af ákvörðun þóknananefndar ríkisins sem er
2.502 kr. á hverja einingu, miðað við apríl 2020.

Fundarstjóri bauð umræður. Spurt var um einingakerfið og útskýrði framkvæmdastjóri ÖBÍ hugmyndina að baki því.

Greidd voru atkvæði um tillöguna, sem var samþykkt með þorra atkvæða, einn var á móti og fimm sátu hjá.

Kl. 19:00 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 10 laugardaginn 3. október 2020.


Laugardagur 3. október 2020 – fundi framhaldið

Fundarstjóri hóf fund að nýju kl. 10:22.

Kosningar í stjórn

Fundarstjóri tilkynnti að 130 fulltrúar væru skráðir inn í kosningakerfi fundarins (sjá lista yfir aðalfundarfulltrúa í fskj. nr. 7), þar af væru 54 á Zoom. Yfirlit yfir framboð til stjórnar var í fundargögnum (sjá fskj. nr. 8). Kynningar á frambjóðendum lágu frammi og má sjá þær í fylgiskjölum (sjá fskj. nr. 9-13b).

Jón Þorkelsson, formaður kjörnefndar, sagði frá starfi nefndarinnar. Ólíkt fyrri árum komu framboð til allra lausra embætta áður en frestur rann út og því var starf nefndarinnar létt. Hrósaði Jón aðilum fyrir vilja til þátttöku í starfi ÖBÍ.

Spurt var hvort ekki væru leyfð framboð á fundinum. Fundarstjóri sagði svo vera, en að meirihluta fundarfulltrúa þyrfti að samþykkja framboðið. Þá var kosið um að leyfa framboð á fundinum. 118 greiddu atkvæði og var samþykkt að leyfa framboð á fundinum með 77 atkvæðum gegn 33, nokkrir sátu hjá.

Formaður (8)

Kosið verður í embætti formanns 2021.

Varaformaður (9)

Fyrir fundinum lá að kjósa varaformann. Einn hafði boðið sig fram innan tilskilins frests, Bergþór Heimir Þórðarson frá Geðhjálp (sjá fskj. nr. 9).

Samþykkt hafði verið að leyfa framboð á fundinum og bauð Gísli Helgason frá Blindravinafélagi Íslands sig fram.

Frambjóðendur kynntu sig. Gengið var til kosninga, 117 greiddu atkvæði sem skiptust þannig:

Bergþór Heimir Þórðarson frá Geðhjálp fékk 84 atkvæði.

Gísli Helgason frá Blindravinafélagi Íslands fékk 33 atkvæði.

Því var Bergþór Heimir frá Geðhjálp réttkjörinn varaformaður ÖBÍ 2020-2022.

Gjaldkeri (10)

Fyrir fundinum lá að kjósa gjaldkera. Einn hafði boðið sig fram fyrir fundinn, Jón Heiðar Jónsson frá Sjálfsbjörg lsh. (sjá fskj. nr. 10)

Ekki komu fram önnur framboð og því var Jón Heiðar sjálfkjörinn í embætti gjaldkera ÖBÍ 2020-2022.

Formenn fastra málefnahópa (11)

Kosið verður um formenn fastra málefnahópa 2021 en fyrir fundinum lá að kjósa formann Málefnahóps um atvinnu- og menntamál til eins ár. Í framboði var Áslaug Ýr Hjartardóttir frá Fjólu (sjá fskj. nr. 11).

Ekki komu fram fleiri framboðog því var Áslaug Ýr sjálfkjörin sem formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál 2020-2021.

Vegna kjörs Berþórs Heimis í embætti varaformanns losnaði formennska í málefnahópi um kjaramál og opnaði fundarstjóri fyrir framboð. Atli Þór Þórðarson frá Parkinsonsamtökunum bauð sig fram.

Fleiri framboð komu ekki og því var Atli Þór sjálfkjörinn í embætti formanns málefnahóps um kjaramál 2020-2021.

Stjórnarmenn (12)

Fundarstjóri kynnti kosningu sjö stjórnarmanna til tveggja ára. Níu höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests, (sjá fskj. nr. 12a-i). Þau voru Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Elva Dögg Gunnarsdóttir frá Tourette-samtökunum, Fríða Bragadóttir frá Samtökum sykursjúkra, Fríða Rún Þórðardóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Ingibjörg Snjólaug Snorra Hagalín frá MS félagi Íslands, Karl Þorsteinsson frá Ás styrktarfélagi, Sigþór U. Hallfreðsson frá Blindrafélaginu, Snævar Ívarsson frá Félagi lesblindra á Íslandi og Þorsteinn Þorsteinsson frá Spoex. Eiður Welding bauð sig fram á fundinum.

Frambjóðendur kynntu sig. Greidd voru atkvæði. Þessi hlutu kosningu til setu í stjórn ÖBÍ 2020-2022:

  • Fríða Bragadóttir frá Samtökum Sykursjúkra fékk 97 atkvæði
  • Sigþór U. Hallfreðsson frá Blindrafélaginu fékk 97 atkvæði
  • Elva Dögg Gunnarsdóttir frá Tourette-samtökunum fékk 94 atkvæði
  • Eiður Welding frá CP félaginu fékk 83 atkvæði
  • Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélaginu fékk 82 atkvæði
  • Snævar Ívarsson frá Félagi lesblindra á Íslandi fékk 82 atkvæði
  • Ingibjörg Snjólaug Snorra Hagalín frá MS félagi Íslands fékk 79 atkvæði

Varamenn (13)

Fundarstjóri kynnti kosningu þriggja varamanna í stjórn til tveggja ára. Tveir höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests, (sjá fskj. nr. 13a-b), þau Elín Ýr Hafdísardóttir frá Fjólu og Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum. Fundurinn samþykkti að leyfa jafnframt framboð Fríðu Rúnar Þórðardóttur frá Astma- og ofnæmissamtökunum, Karls Þorsteinssonar frá Ás styrktarfélagi og Þorsteins Þorsteinssonar frá Spoex. Frambjóðendur kynntu sig.

Greidd voru atkvæði. Þessi hlutu kosningu til setu sem varamenn í stjórn ÖBÍ 2020-2022:

  • Elín Ýr Hafdísardóttir frá Fjólu fékk 85 atkvæði
  • Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum fékk 79 atkvæði
  • Fríða Rún Þórðardóttir frá Astma- og ofnæmissamtökunum fékk 70 atkvæði

Formaður kvaddi sér hljóðs. Óskaði hún nýkjörnum fulltrúum til hamingju með kosninguna. Jafnframt þakkaði hún fráfarandi fulltrúum samstarfið. Sagði hún að í fyrsta sinn tæki sólarlagsákvæði laga ÖBÍ gildi. Vegna þess ákvæðis gengu þrír reynslumiklir aðilar úr embættum og færði formaður þeim Halldóri Sævari Guðbergssyni, Bergi Þorra Benjamínssyni og Garðari Sverrissyni blóm með þökkum fyrir vel unnin störf.

Aðrar kosningar til tveggja ára

Kjörnefnd (14)

Kosið verður í kjörnefnd 2021.

Laganefnd (15)

Kosið verður í laganefnd 2021.

Skoðunarmenn reikninga og varamenn (16)

Kosið verður um skoðunarmenn reikninga og varafulltrúa þeirra 2021.

Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál

Lagabreytingar (17)

Teknar voru til afgreiðslu tillögur til breytinga á lögum ÖBÍ sem borist höfðu laganefnd fyrir aðalfund (sjá lög ÖBÍ í fskj. nr. 14).

Formaður laganefndar, Bergþór Heimir Þórðarson, kvaddi sér hljóðs og gerði grein fyrir störfum og niðurstöðum nefndarinnar.

Aðalfundur ÖBÍ 2019 hafði falið laganefnd að kanna tvö atriði; annars vegar hvort meirihluti stjórnar ÖBÍ ætti að vera skipaður fötluðu fólki og hins vegar hvort víkka ætti út kjörgengi aðalfundarfulltrúa, þ.e. hvort varafulltrúar gætu boðið sig fram til ákveðinna embætta.

Nefndin fór yfir lög ÖBÍ með þessi atriði í huga og niðurstöður þeirrar yfirferðar voru kynntar breytingatillögur.

Þá tók fundarstjóri fyrstu lagabreytingartillögu frá laganefnd til afgreiðslu, uppfærða frá því sem kynnt var í fundargögnum.

Formaður laganefndar kynnti uppfærða tillögu um breytingu á 18. grein laga ÖBÍ, að á eftir 1. mgr. 18. gr. A bætist við ný málsgrein, afgreidd í tveimur hlutum, a) og b), svohljóðandi (sjá fskj. nr. 15a):

a)

„Meirihluti stjórnar skal skipaður fötluðu fólki eða aðstandendum fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu. Með fötlun er vísað til skilnings Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“

b)

„Formaður skal vera fatlaður einstaklingur eða aðstandandi fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.“

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna. Þrettán tóku til máls. Gerð var athugasemd við að kynntri tillögu hafi verið breytt og breytta tillagan tekin til afgreiðslu. Rætt var um hugtakanotkun og skilgreiningar í tengslum við að bæta „foreldrum“ inn í textann eða hvort „aðstandandi“ nái yfir alla þá sem málið varða og mikilvægi þess að orðalag sé ekki opið til túlkunar. Lagt var til að láta þýða 7. álit sérfræðinefndar um SRFF. Nefnt var að mikilvægt væri að andlit ÖBÍ út á við sé fatlaður einstaklingur.

Formaður laganefndar lagði áherslu á þann skilning að fólk sem getur tjáð sig sjálft, með stuðningi aðstoðarmanna og/eða tækja, kemur auðvitað fram fyrir sig sjálft. Fólk verður að meta það sjálft hvort það sé fatlað eða ekki. Taldi hann mjög líklegt að 7. álitið verði þýtt og lýsti þeim vilja sínum að málið verði unnið áfram, jafnvel með vinnustofu eða málþingi. Í tengslum við b-lið komst nefndin að þeirri niðurstöðu að verði varaformaður að taka við af formanni, væri það aldrei lengur en fram að næsta aðalfundi og því þótti laganefnd ekki þörf á því að gera þá kröfu að varaformaður sé fatlaður eða aðstandandi fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.

Þá tók fundarstjóri a-lið 1. tillögu til afgreiðslu. Rúnar Björn Herrera lagði til að eftirfarandi yrði tekið út úr tillögunni: „…eða aðstandendum fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala  máli sínu.“, Frímann Sigurnýasson studdi. Tillagan var felld, 58 voru á móti og 45 með. Fjórir tóku ekki afstöðu.

Þá voru greidd atkvæði um a-lið eins og hann var kynntur:

„Meirihluti stjórnar skal skipaður fötluðu fólki eða aðstandendum fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu. Með fötlun er vísað til skilnings Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“

102 atkvæði voru á fundinum. Tillagan var samþykkt með 75 atkvæðum gegn 24 á móti. Þrír tóku ekki afstöðu.

Þá var b-liður 1. tillögu tekinn til afgreiðsu.

„Formaður skal vera fatlaður einstaklingur eða aðstandandi fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.“

Svavar Kjarrval lagði til að orðunum „og varaformaður” yrði skotið inn á eftir „Formaður”. Var það samþykkt með 75 atkvæðum, gegn 24, þrír tóku ekki afstöðu.

Þá voru greidd atkvæði um b-lið 1. tillögu með áorðnum breytingum:

„Formaður og varaformaður skulu vera fatlaðir einstaklingar eða aðstandendur fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.“

Var tillagan samþykkt með 64 atkvæðum gegn 27. Fimm tóku ekki afstöðu.

Þá voru greidd atkvæði um 18. gr. með áorðnum breytingum. Var hún samþykkt svohljóðandi með 74 atkvæðum gegn 12, þrír tóku ekki afstöðu:

„Stjórn samanstendur af nítján stjórnarmönnum: formanni, varaformanni, gjaldkera, fimm formönnum fastra málefnahópa og ellefu öðrum stjórnarmönnum. Stjórn er kosin á aðalfundi úr hópi aðalfundarfulltrúa sem boðið hafa sig fram til trúnaðarstarfa skv. 13. gr. Jafnframt skal aðalfundur kjósa þrjá varamenn sem hafa seturétt á stjórnarfundum. Stjórnarmenn sitja í umboði aðalfundar en ekki einstakra aðildarfélaga.

Meirihluti stjórnar skal skipaður fötluðu fólki eða aðstandendum fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu. Með fötlun er vísað til skilnings Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Formaður og varaformaður skulu vera fatlaðir einstaklingar eða aðstandendur fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.

Á oddatöluári skal kjósa formann, formenn fastra málefnahópa og fjóra stjórnarmenn. Á ári sem kemur upp á sléttri tölu skal kjósa varaformann, gjaldkera, sjö stjórnarmenn og þrjá varamenn. Fjöldi atkvæða ræður röð varamanna. Ef kjósa þarf varamann til skemmri tíma en tveggja ára, verður hann síðastur í röð varamanna.

Stjórn fer með æðsta vald bandalagsins á milli aðalfunda. Meginhlutverk stjórnar er að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. Stjórn gerir starfssamning við formann.

Aðalmenn í stjórn geta setið að hámarki í þrjú kjörtímabil samfellt. Seta í formannsembætti er óháð fyrri stjórnarsetu.“

Þá tók fundarstjóri lagabreytingartillögu nr. 2 til afgreiðslu. Formaður laganefndar kynnti tillögu um breytingu á 12. grein laga ÖBÍ, þar sem lagt var til innskot í og viðbót við 1. mgr.  (sjá fskj. nr. 15b) svohljóðandi:

„Inn í setninguna „Fulltrúar aðildarfélaga hafa atkvæðisrétt …” bætast við orðin „sem sitja fundinn” og seinni hluti setningarinnar verður að nýrri setningu: „Allir aðal- og varafulltrúar sinna félaga hafa kjörgengi í öll embætti á aðalfundi að teknu tilliti til uppfylltra skilyrða um kjörgengi.”

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna. Tveir tóku til máls, samþykkir tillögunni, en ítrekuðu vandað orðalag.

Þá voru greidd atkvæði um tillöguna. Var hún samþykkt með 77 atkvæðum gegn tveimur. Fimm tóku ekki afstöðu.

Þá tók fundarstjóri lagabreytingartillögu nr. 3 til afgreiðslu. Formaður laganefndar kynnti tillögu um viðbót, nýja málsgrein 2. mgr, við 13. grein laga ÖBÍ, a (sjá fskj. nr. 15c):

„Ef fulltrúi hættir áður en kjörtímabili lýkur er kosið í það embætti á næsta aðalfundi.“

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna en enginn kvaddi sér hljóðs. Greidd voru atkvæði um tillöguna. Var hún samþykkt samhljóða. Þrír tóku ekki afstöðu.

Þá tók fundarstjóri lagabreytingartillögu nr. 4 til afgreiðslu. Formaður laganefndar kynnti tillögu um breytingu á 12. grein laga ÖBÍ (sjá fskj. nr. 15d), að við hana bætist ný málsgrein:

„Fulltrúar í öllum embættum sem kosið er um á aðalfundi geta setið að hámarki í þrjú heil kjörtímabil samfellt í sama embætti. Hafi einstaklingur verið kosinn á miðju kjörtímabili getur hann klárað það auk þriggja heilla tímabila, þ.e. alls að hámarki 7 ár. Öll hlutverk innan stjórnar, þar með taldir varamenn, teljast sem seta í sama embætti þegar samfelldur tími er reiknaður samkvæmt þessu ákvæði. Seta í formannsembætti ÖBÍ er óháð fyrri stjórnarsetu.“

Jafnframt falla sambærilegar setningar úr 13. gr., 18. gr. Aog 24. gr. og hljóða þær svo:

13. gr. 4. mgr.: „Kjörnefndarmenn geta setið að hámarki í þrjú heil kjörtímabil samfellt.“

18. gr. A. 4. mgr.: „Aðalmenn í stjórn geta setið að hámarki í þrjú kjörtímabil samfellt. Seta í formannsembætti er óháð fyrri stjórnarsetu.“

24. gr. 1. mgr., 2. setning: „Laganefndarmenn geta setið að hámarki í þrjú heil kjörtímabil samfellt.“

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna og tveir tóku til máls. Vildu þeir nánari skýringu á hvernig skilja bæri breytinguna. Greidd voru atkvæði um tillöguna. Var hún samþykkt með 75 atkvæðum gegn fjórum. Tveir tóku ekki afstöðu.

Eftirfarandi lagagreinum var breytt og hljóða þær nú svo:

12. gr.:

„Fulltrúar aðildarfélaga sem sitja fundinn hafa atkvæðisrétt. Allir aðal- og varafulltrúar sinna félaga hafa kjörgengi í öll embætti á aðalfundi að uppfylltum skilyrðum um kjörgengi.

Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti, ef ekki er kveðið á um annað í þessum lögum. Atkvæðagreiðslur skulu vera leynilegar, sé þess óskað. Hafi tveir eða fleiri frambjóðendur hlotið jafnmörg atkvæði og röð þeirra skiptir máli ræður hlutkesti, nema tillaga komi fram um annað.

Kjósa má allt að jafnmarga frambjóðendur og þau sæti sem í boði eru hverju sinni.

Fulltrúar í öllum embættum sem kosið er um á aðalfundi geta setið að hámarki í þrjú heil kjörtímabil samfellt í sama embætti. Hafi einstaklingur verið kosinn á miðju kjörtímabili getur hann klárað það auk þriggja heilla tímabila, þ.e. alls að hámarki 7 ár. Öll hlutverk innan stjórnar, þar með taldir varamenn, teljast sem seta í sama embætti þegar samfelldur tími er reiknaður samkvæmt þessu ákvæði. Seta í formannsembætti ÖBÍ er óháð fyrri stjórnarsetu.”

13. gr.:

„Kjörnefnd skal hið minnsta tveimur mánuðum fyrir aðalfund óska eftir framboðum í trúnaðarstöður. Framboð skulu berast kjörnefnd eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund. Kjörnefnd skal tryggja næg framboð í þau embætti sem kosið er um. Kjörnefnd skal einnig tryggja fjölbreytni framboða með tilliti til jafnræðis milli fötlunarhópa. Jafnframt skal hún líta til annarra atriða sem talin eru skipta máli, svo sem kynja, búsetu og aldurshópa.

Ef fulltrúi hættir áður en kjörtímabili lýkur er kosið í það embætti á næsta aðalfundi.

Kjörnefnd skal senda aðalfundarfulltrúum lista með nöfnum frambjóðenda eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund.

Allir frambjóðendur eiga sama rétt á að kynna sig, þ.á.m. á aðalfundi. Berist framboð of seint eru þau háð samþykki aðalfundar.“

18. gr. A:

A. Kosning og hlutverk stjórnar

Stjórn samanstendur af nítján stjórnarmönnum: formanni, varaformanni, gjaldkera, fimm formönnum fastra málefnahópa og ellefu öðrum stjórnarmönnum. Stjórn er kosin á aðalfundi úr hópi aðalfundarfulltrúa sem boðið hafa sig fram til trúnaðarstarfa skv. 13. gr. Jafnframt skal aðalfundur kjósa þrjá varamenn sem hafa seturétt á stjórnarfundum. Stjórnarmenn sitja í umboði aðalfundar en ekki einstakra aðildarfélaga.

Meirihluti stjórnar skal skipaður fötluðu fólki eða aðstandendum fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu. Með fötlun er vísað til skilnings Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Formaður og varaformaður skulu vera fatlaðir einstaklingar eða aðstandendur fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.

Á oddatöluári skal kjósa formann, formenn fastra málefnahópa og fjóra stjórnarmenn. Á ári sem kemur upp á sléttri tölu skal kjósa varaformann, gjaldkera, sjö stjórnarmenn og þrjá varamenn. Fjöldi atkvæða ræður röð varamanna. Ef kjósa þarf varamann til skemmri tíma en tveggja ára, verður hann síðastur í röð varamanna. Stjórn fer með æðsta vald bandalagsins á milli aðalfunda. Meginhlutverk stjórnar er að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. Stjórn gerir starfssamning við formann.

24. gr.:

Innan bandalagsins skal starfa laganefnd. Hún vinnur að lagfæringum og breytingum á lögum ÖBÍ.

Aðildarumsóknir (18)

Engar aðildarumsóknir lágu fyrir.

Ályktanir aðalfundar (19)

Engar ályktanir bárust innan tilskilins frests, en ein ályktun barist fyrir fundinn og fundarstjóri óskaði leyfis fundarins til að taka ályktunina fyrir. Var það samþykkt með 60 atkvæðum gegn sex og sex sátu hjá.

Formaður ÖBÍ, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, kynnti ályktun aðalfundar ÖBÍ um kjör örorkulífeyrisþega, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 16):

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 2. og 3. október 2020


Við skilum skömminni til ríkisstjórnarinnar

Í þrjú ár hefur ríkisstjórn Katrínar, Bjarna og Sigurðar Inga ákveðið að auka fátækt fatlaðs og langveiks fólks í stað þess að bæta kjör okkar. Sístækkandi hópur öryrkja býr við sárafátækt. Það veldur aðalfundi  Öryrkjabandalags Íslands miklum vonbrigðum að um áramótin 2020-2021 verði munurinn á örorkulífeyri og  lágmarkslaunum orðinn kr. 86.000.

Frá árinu 2007 hefur bil á milli örorkulífeyris og lágmarkslauna stöðugt breikkað. Í valdatíð núverandi  ríkisstjórnar hefur ekkert verið gert til að bregðast við þessari kjaragliðnun, heldur þvert á móti hefur bilið  breikkað enn meira, þrátt fyrir að ríkisstjórnin segist vinna í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna,  hvar efst á blaði er að útrýma fátækt. Nú þegar Bjarni hefur lagt fram sitt síðasta fjárlagafrumvarp á  kjörtímabilinu er enga breytingu að sjá.

Aðalfundur Öryrkjabandalagsins krefst þess að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína gagnvart lífskjörum  fatlaðs og langveiks fólks og bæti kjör okkar án tafar. Skömm ríkisstjórnarinnar er að halda okkur í fátækt  og skýla sér á bakvið Covid og slæmt efnahagsástand.

Fátækt er afleiðing skammarlegra pólitískra ákvarðana. Ekkert um okkur án okkar!


Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina en enginn tók til máls.

Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða og var hún samþykkt með 67 atkvæðum gegn tveimur, sjö sátu hjá.

Önnur mál (20)

A

Gísli Helgason frá Blindravinafélagi Íslands sagði frá þeim tímamótum sem verða 2021 þegar Blindravinafélagið mun sjálfkrafa hætta í bandalaginu, sbr. 7. gr. laga ÖBÍÍ og þetta sé því hans síðasti aðalfundur. Það hafi skipst á skin og skúrir á aðalfundum bandalagsins en hann hafi þroskast mikið á veru sinni hér. Minnti á mikilvægi „Ekkert um okkur án okkar“. 

B

Bergþór Heimir Þórðarson þakkaði fyrir traustið til embættis varaformanns. Þakkaði hann einnig fyrir fyrir gott samtal og samvinnu í laganefnd.

Þá þökkuðu fundarstjórar fyrir sig og afhentu formanni ÖBÍ, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, fundinn.

Fundarlok

Formaður þakkaði öllum fyrir fundarsetuna og þolinmæði við nýtt fundarform. Hún þakkaði fráfarandi stjórnarfólki fyrir vel unnin störf og óskaði nýju stjórnarfólki til hamingju með embættin. Þá þakkaði formaður fundarstjórum og fundarriturum fyrir góð störf sem og starfsfólki ÖBÍ.

Formaður sleit fundi kl.16:34

Fylgiskjöl:
1) Dagskrá aðalfundar 2. og 3. október 2020
2) Ársskýrsla Öryrkjabandalags Íslands 2019-2020
3) Ársreikningur ÖBÍ 2019
4) Ársreikningar fyrirtækja
a) BRYNJA hússjóður Öryrkjabandalagsins
b) Örtækni
c) Hringsjá
d) Fjölmennt
5)  Tillaga að aðildargjaldi 2019
6)  Tillaga að þóknun fyrir stjórnarsetu ÖBÍ
7)  Fulltrúar aðildarfélaga ÖBÍ á aðalfundi 2020
8)  Yfirlit yfir framboð til embætta 2020
9)  Kynning frambjóðanda til varaformanns ÖBÍ
10) Kynning frambjóðanda til gjaldkera ÖBÍ
11) Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um atvinnu- og menntamál
12) Kynning frambjóðenda til stjórnar a-i
13) Kynning frambjóðenda til varamanna a-b
14) Lög Öryrkjabandalags Íslands
15) Lagabreytingartillögur
a) Lagabreytingartillaga nr. 1
b) Breytingartillaga Rúnars Björns Herrera
c) Lagabreytingartillaga nr. 2
d) Breytingartillaga Svavars Kjarrval
e) Lagabreytingartillaga nr. 3
f) Lagabreytingartillaga nr. 4
16) Ályktun aðalfundar ÖBÍ 2020