Félag í frumkvöðlastarfi

Mynd af starfsfólki Ás við vinnu
Mynd af starfsfólki Ás við vinnu
Skrifað af Þóru Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra Áss styrktarfélags.

Ás styrktarfélag var stofnað í mars 1958 og stendur því á gömlum merg. Það hefur allar götur síðan staðið fyrir nýjum starfsháttum sem og frumkvöðlastarfi. Félagið hefur um allnokkurt skeið rekið um 78% dagþjónustu fyrir þroskaskerta í Reykjavík. Í heildarstefnu Áss styrktarfélags, sem samþykkt var af stjórn í desember 2010, segir að miðað sé að því að öll dagþjónustutilboð séu vinna og hafi gildi sem slík. Stefna félagsins er þannig í fullu samræmi við 27. gr. í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Frá þjónustu í vinnu og verkefni

Endurhönnun dagþjónustu hjá  Ási styrktarfélagi er í fullum gangi og er markmiðið það að fólk hafi val um verkefni í staðinn fyrir að það sé í þjónustu. Í framtíðinni er stefnt á að gera verksamning við hvern og einn þegar viðkomandi hefur valið sér viðfangsefni.

Tilboð um verkefni skulu vera fjölbreytt og hæfa fólki á mismunandi aldursskeiðum. Lögð er áhersla á að verkefnin verði óstaðbundin og einnig mismunandi eftir starfsstöðvum. Stefnt er á að fólk geti valið á milli mismunandi tilboða eftir því sem hægt er. Tilgangur með breytingum þessum er m.a. að draga úr eða lágmarka og jafnvel eyða núverandi stofnanafyrirkomulagi. Breyting þessi á fyrirkomulagi dagtilboða felur í sér raunverulegt val um að gera eitt í dag og annað eftir einhvern ákveðinn tíma vilji fólk breyta til. 

Núverandi kerfi býður uppá flöskuhálsa og langtímadvöl á einum stað, þar sem leiði getur gripið fólk í fábreytni og venjuverkum. Lítið sem ekkert val er í boði fyrir þá sem sækja dagþjónustu í dag og fólk jafnvel ofurselt því að vera alltaf í félagsskap sama fólksins heima og að heiman – alla daga og til margra ára, án þess að hafa haft nokkurt val þar um.

Mynd af umræðuhópi Áss styrktarfélags

Ísbrjótar

Í mars 2012 var myndaður tilraunahópur til að prófa nýjar útfærslur og endurhönnun dagtilboða. Við höfum valið að kalla einstaklinga þessa hóps Ísbrjóta. Valdir voru með tilviljanakenndu úrtaki fjórir einstaklingar af hverjum stað  til að taka þátt, þ.e. alls 16 manns sem völdu sér mismunandi viðfangsefni. Samhliða Ísbrjótunum starfaði rýnihópur til að meta hverju þyrfti að breyta og lagfæra í nýja skipulaginu. Mikilvægt var að meta skipulagið áður en öllum hópnum býðst að taka þátt í endurhönnuðu kerfi tilboða um verkefni og vinnu,  eða alls 170 einstaklingum. 

Mjög vel hefur gengið og þátttakendur og aðstandendur ásamt starfsfólki mjög ánægt með verkefnið og útfærslu þess. Sé eitt nefnt öðru fremur varðandi þátttakendur þá ríkti gleði! Gleði með að fá ný tækifæri, hafa möguleika á að breyta til og síðast en ekki síst að hafa áhrif og val um hvað maður vill og ætlar að vinna við. 

Á komandi hausti heyrið þið meira frá okkur þegar nýtt verklag varðandi meira val og þátttöku á vinnumarkaði stendur fólki með þroskaskerðingu til boða. Þetta nýja verklag köllum við „Frá stöðnun í fjölbreytileika“.

Tengill á vef Áss styrktarfélags