Frá formanni

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ
Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ

 

Að eiga sér málgagn, eða miðil til að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri er nauðsyn hverjum samtökum. Tímarit með ítarlegum greinum og annan miðil með stuttum fréttum og upplýsingum úr daglegu baráttunni. Frá árinu 1988 gaf ÖBÍ út Fréttabréf ÖBÍ, sem svo breyttist í Tímarit Öryrkjabandalagsins. Slík rit hafa komið út frá Öryrkjabandalagi Íslands allt frá einu sinni til fjórum sinnum á ári. Slíkur prentmiðill er mikilvægur til að koma á framfæri ítarlegum greinum sem lýsa baráttu bandalagsins og starfsemi aðildarfélaganna og hentar vel sem ítarefni og afþreying.

Þeim miðli sem hér fer af stað er ætlað að kynna starfsemina jafnóðum og veita fólki innsýn í daglega baráttu ÖBÍ. Það er ekki hvað síst á tímum sem þeim sem við lifum í dag að áríðandi er að láta vita fljótt og örugglega hvar helst steytir á í baráttunni og ekki síður að upplýsa um nýjar hugmyndir og réttindi.

Nú, þegar heil fimm ár eru frá því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður er brýnt að hvetja stjórnvöld til að fullgilda hann, eins og ráð var fyrir gert. Hátt á fjórða ár er líka liðið frá „hruni“ og aðgerðum í kjölfar þess sem bitnuðu fyrst og fremst á lífeyrisþegum og langveikum. Þær aðgerðir áttu sér stað án þess að sett væri fram áætlun um hvernig þeim skerðingum yrði skilað til baka, eins og alþjóðlegir mannréttindasamningar gera þó ráð fyrir.

Það er einstaklega ánægjulegt að hleypa þessu vefriti af stokkunum á afmælisdegi ÖBÍ og ef til vill aldrei brýnna en nú að hafa sterka rödd í samfélaginu.

Að lokum vil ég þakka ritstjóra og ritnefnd fyrir þeirra frábæra starf og óska okkur öllum til hamingju með vefritið. Nú er það ljóst: Ekkert um okkur án okkar.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ