Hjólastólahandbolti hjá HK

Mynd af hjólastólahandboltaliði
Mynd af hjólastólahandboltaliði

 

HK er eina íþróttafélag landsins sem býður upp á hjólastólahandbolta. Æfingar hófust í Kórnum í Kópavogi haustið 2010 og voru tveir þjálfarar ráðnir árið 2011. Í dag æfa 15 karlmenn og ein kona með liðinu tvisvar í viku. Ritstjóri brá sér á æfingu og tók viðtal við Friðrik Þór Ólason, sem er formaður hjólastólahandboltaráðs og spilar jafnframt með liðinu.

Friðrik Þór hefur spilað með liðinu frá upphafi og segir að miklar breytingar hafi orðið eftir að þjálfararnir tveir, Darri McMahon og Magnús Magnússon, voru ráðnir til starfa. Bæði fjölgaði verulega í liðinu og miklar framfarir urðu þar sem aðhaldið varð miklu betra segir hann.

Myndskeið frá æfingu í Kórnum

Fannst tími til að bæta við íþróttaflóru fatlaðra

„Okkur datt í hug á sínum tíma að gera okkar besta til að bæta við íþróttaflóru fatlaðra sem var engin þegar við fórum af stað með þetta. Það var aðeins boðið upp á einstaklingsgreinar, lyftingar og slíkt, en engar hópíþróttir. Íslendingar eru jú ein fremsta þjóð í heimi í handbolta og hvers vegna ekki að bjóða þá upp á handknattleik líka fyrir hreyfihamlaða,“ segir Friðrik.

HK er afar stolt af því að bjóða upp á hjólastólahandboltann og á vefsvæði þeirra segir: „Ekki er víst að allir geri sér grein fyrir mikilvægi þessa atburðar en til útskýringar má benda á að hingað til hafa fatlaðir starfað að mestu undir merkjum íþróttafélags fatlaðra eða þá fengið fyrir náð og miskunn aðstöðu fyrir áhugamál sín undir verndarvæng einhverra félaga ... Þetta er því stórt skref í samþættingu þeirri og valdeflingu sem lengi hefur verið unnið að í skólum landsins.“

Mynd af hjólastólahandboltaliði Hk

Þurfa að fara erlendis til að keppa

Þar sem HK er eina félagið á landinu sem býður upp á þessa íþrótt er engin samkeppni við liðið en Friðrik Þór vonast til að það breytist sem fyrst. Liðið þarf að fara erlendis til að keppa í íþróttinni og stefnir á mót í Svíþjóð í lok árs 2012. Friðrik Þór segir liðið hafa háleit markmið en vill ekki gefa þau upp að svo stöddu til að setja ekki of mikla pressu á liðið.

Það fór ekki á milli mála að liðsmenn hafa mikið keppnisskap en gleði, grín og samstaða voru þó einkennandi hjá þeim. Enginn vafi leikur á því að þetta frambærilega lið á eftir að gera góða hluti og óskar ÖBÍ þeim góðs gengis í framtíðinni.

Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um hjólastólahandboltann geta fengið þær á vefsvæði HK