Landamærahindranir örorkulífeyrisþega

1. maí ganga
1. maí ganga
Öryrkjar lenda oft "á milli kerfa" þegar þeir flytja á milli landa og getur staða þeirra vegna þessa orðið svo slæm að þeir ná ekki að framfleyta sér. Það sem gerist þegar öryrkjar lenda "á milli kerfa" er að þeir fá ekki örokulífeyrisgreiðslur frá almannatryggingakerfi þess lands sem þeir bjuggu í og ekki fullar greiðslur í því landi sem þeir búa nú.

Helsta ástæða þessa er ósamræmi í löggjöf viðkomandi landa eða í túlkun laganna sem og mismunandi örorkumat. Fólk getur því til dæmis verið með fullt örorkumat í einu norrænu landi og ekki fengið það í öðru. Á meðan örorkulífeyrisþegar með fullt örorkumat frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) bíða eftir örorkumati frá fyrrum búsetulandi fá þeir skertar örorkubætur frá TR og umsóknarferlið getur tekið langan tíma.

Fjöldinn allur af örorkulífeyrisþegum sem búið hefur erlendis hefur leitað til Öryrkjabandalagsins vegna þessa vandamáls á síðustu misserum. Gera má ráð fyrir að þeim sem lenda í þessari stöðu eigi eftir að fjölga í framtíðinni, þar sem búferlaflutningar verða algengari með hverju árinu, og brýnt er að finna skjótvirka lausn á þessu vandamáli.

Endurhæfingarlífeyrir

Að sama skapi geta einstaklingar, sem búsettir hafa verið erlendis, lent í því að fá skertan endurhæfingarlífeyri á Íslandi og engar greiðslur erlendis frá þar sem endurhæfingarlífeyrir er ekki greiddur úr landi. Frá 1. janúar 2010 gilda sömu lagaákvæði um greiðslu endurhæfingarlífeyris á Íslandi hvað varðar búsetuhlutfallsútreikninga og um greiðslu örorkulífeyris. Þeir sem eru með skertar endurhæfingarlífeyrisgreiðslur vegna fyrrum búsetu erlendis fá heldur engar greiðslur frá fyrra búsetulandi. Þarna er augljóslega ósamræmi sem verður að bregðast við.

Ekki í anda samnings Sameinuðu þjóðanna

ÖBÍ hefur bent á að ofangreindur vandi samræmist ekki 18. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem kveður á um rétt til ferðafrelsis. Ekki er þetta heldur í samræmi við 28. grein samningsins um viðunandi lífskjör og félagslegt öryggi, en aðildarríki samningsins viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara. Í því samhengi er vert að benda á að Ísland undirritaði samninginn þann 30. mars 2007 og varð þar með eitt  fyrstu ríkja heims til þess að gera svo.

Umræður á Alþingi

Þann 20. apríl síðastliðinn áttu sér stað umræður á Alþingi um landamærahindranir (líka kallað stjórnsýsluhindranir) á Norðurlöndum þar sem framangreind vandamál voru rædd. Samskonar umræða átti sér stað á hinum Norðurlöndunum á svipuðum tíma. Fram kom viðurkenning á því að vandinn er stór og finna verður lausnir þar á. Þuríður Backman vitnaði í ræðu sinni í tillögur að lausnum frá Öryrkjabandalagi Íslands, sem það lagði fyrir velferðarnefnd Norðurlandaráðs 22. mars síðastliðinn. Þá sagðist hún heyra á umræðunni í þinginu að vel væri tekið í að minnsta kosti sumar þessara tillagna. Velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson benti á nýútkomna skýrslu um þær hindranir sem kunna að felast innan stjórnkerfa Norðurlandanna. Skýrsla þessi var gefin út af Norrænu ráðherranefndinni og unnin af þverfaglegri sérfræðinganefnd. Innihaldið er samantekt og lýsing á landamærahindrunum og tillögur að lausnum. Guðbjartur segir skýrsluna þó einungis vera fyrsta skrefið í þeirri vinnu að kortleggja þau vandamál sem upp hafa komið við flutninga fólks á milli Norðurlandanna. Velferðarráðherra hvatti þingmenn eindregið til þess að kynna sér efni skýrslunnar sem best.

Öryrkjabandalagið fagnar því að formlega sé hafin umræða um landamærahindranir á Alþingi. ÖBÍ hvetur stjórnvöld til þess að vinna hratt að lausnum á þessum málum þar sem fjöldinn allur af fólki er nú statt "á milli kerfa" og hefur þar með búið við óviðunandi kjör til lengri tíma. Slíkt á ekki að viðgangast á Íslandi, ríki sem kennir sig við velferð.