Nokkur orð frá ritstjóra

Margrét Rósa Jochumsdóttur, ritstjóri ÖBÍ
Margrét Rósa Jochumsdóttur, ritstjóri ÖBÍ

 Kæri lesandi,

Vefrit þetta er gefið út af Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ) og er tilgangurinn fyrst og fremst að auka umræður í samfélaginu um líf, réttindi og kjör fatlaðs fólks og öryrkja á líðandi stundu. Lífeyrisþegar hafa orðið fyrir miklum kjaraskerðingum síðustu ár og er því mikilvægara en nokkru sinni fyrr að halda úti öflugri umræðu um málaflokkinn á sem flestum vígstöðvum. ÖBÍ vill leggja sitt af mörkum með því að hleypa þessu vefriti af stokkunum.

Hlutverk og markmið vefritsins

Hlutverk vefritsins er að vera upplýsingaveita um það helsta sem er að gerast í málefnum fatlaðs fólks og öryrkja hérlendis sem og erlendis. Markmiðið er að gefa vefritið út einu sinni í mánuði. ÖBÍ vill virkja umræðu sem víðast um hin mikilvægu málefni sem það vinnur að og verður vefritið því einnig með síðu á Facebook. 

Um hvað verður fjallað?

Umfjöllunarefni vefritsins eru öll þau málefni sem snúa að fötluðu fólki, öryrkjum og aðstandendum þeirra. Fjallað verður m.a. um:

  • Kjara- og réttindamál
  • Mannréttindamál
  • Líf og aðstæður fatlaðs fólks
  • Málefni fatlaðs fólks í alþjóðlegu ljósi
  • Aðildarfélög ÖBÍ
  • Það sem er að gerast í málaflokknum hjá háskólasamfélaginu
  • Íþróttir og tómstundir fatlaðs fólks
  • Reynslusögur o.fl.

Þeim sem áhuga hafa á að senda inn greinar eða koma efni sínu á framfæri er velkomið að hafa samband við ritstjóra, netfang er margret@obi.is.

Hægt er að skrá sig á póstlista vefritsins með því að smella á „Áskrift að vefriti“ sem er staðsett á grænum borða neðst á vefsvæði ÖBÍ.  

Við hjá ÖBÍ vonumst til þess að þið lesendur góðir munið hafa bæði gagn og gaman af lestri þessa vefrits. Síðast en ekki síst óskar ÖBÍ þess að þetta framtak verði til þess að glæða baráttuna lífi, baráttuna fyrir sjálfsögðum mannréttindum fatlaðs fólks og öryrkja.

Með góðri kveðju,

Margrét Rósa Jochumsdóttir, ritstjóri