Nýtt um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA)

Mynd frá 1. maí göngu
Mynd frá 1. maí göngu

Þann 10. febrúar síðastliðinn var haldin ráðstefna á Icelandair Hotel Reykjavík Natura þar sem kynnt var hugmyndafræði, framkvæmd og skipulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Verkefnisstjórn um NPA hélt ráðstefnuna og kynnti fyrir ráðstefnugestum handbók um NPA. Formaður stjórnarinnar Guðmundur Steingrímsson kynnti handbókina og á hún að vera fyrsta skref í átt að fullri innleiðingu NPA á Íslandi. Í handbókinni er leiðinni í átt að NPA-samningi í sem einfaldastri mynd lýst í fimm skrefum.

Hvað er NPA?

Fyrir þá sem ekki þekkja til NPA þá er það í stuttu máli nýtt form aðstoðar fyrir fatlað fólk sem byggir á því að fólk ákveður sjálft hverjir aðstoða það, við hvað og hvenær. Þá fær fólkið sjálft peninga frá sveitarfélögunum til að kaupa sína þjónustu í staðinn fyrir að fara inn í hefðbundið þjónustukerfi eins og t.d. sambýli. Markmiðið með NPA er að fólk með líkamlegar eða andlegar skerðingar og þörf fyrir aðstoð hafi möguleika á að lifa sjálfstæðu og virku lífi.

Staðan á Íslandi

NPA þjónusta hefur ekki verið innleidd á Íslandi en gert er ráð fyrir að NPA verði lögbundin þjónusta í lok árs 2014. Engu sveitarfélagi er því skylt samkvæmt lögum að veita slíka þjónustu fyrir þann tíma. Rík áhersla er þó lögð á það af hálfu verkefnisstjórnarinnar um NPA að sem flest sveitarfélög taki þátt í þessu þróunarverkefni. Á hinum Norðurlöndunum er þessi þjónusta við lýði og á sér lengsta sögu í Svíþjóð eða allt frá árinu 1993.

Verkefnisstjórn um NPA

Hlutverk verkefnisstjórnar um NPA er að móta ramma um fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar og innleiða samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um innleiðingu þessarar tegundar þjónustu. Stjórnin var skipuð í apríl 2011 í samræmi við bráðabirgðaákvæði IV í lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992. Í samvinnu verkefnisstjórnar og sveitarfélaganna verður þjónustan mótuð með aðstoð handbókarinnar.

NPA í fimm skrefum

Á ráðstefnunni var gerð grein fyrir stöðuúttekt á vinnu verkefnisstjórnarinnar og lýst verklagi í fyrsta áfanga verkefnisins. Í máli Guðmundar Steingrímssonar kom fram að þar sem ekki eru enn í gildi lög um NPA þjónustu sveitarfélaga væri um þróunarverkefni til lok árs 2014 að ræða. Handbókinni, sem Guðmundur kynnti, er ætlað að gagnast notendum, sveitarfélögum, ríkisstofnunum og öðrum þjónustuaðilum við framkvæmd þróunarverkefnis um NPA. Í handbókinni er leiðinni að NPA-samningi lýst í fimm skrefum og gefnar tíu leiðbeiningar um þetta ferli. Áður en þessi skref eru tekin er gert ráð fyrir að sveitarfélagið hafi kynnt notendum að NPA sé valkostur og hvað slík aðstoð feli í sér. Kjósi notandi að leita eftir NPA-samningi eru skrefin í grundvallaratriðum þessi:  

  1. Notandi sækir um NPA til sveitarfélags.
  2. Lagt er mat á stuðningsþörf. Samkomulagi náð.
  3. Gert er samkomulag milli notanda og sveitarfélags um fjölda vinnustunda samkvæmt mati á stuðningsþörf. Hverri vinnustund fylgir fé.
  4. Á grundvelli fjölda vinnustunda gerir notandi einstaklingssamning við sveitarfélagið ef hann kýs að sjá um umsýslu sjálfur, en við sjálfstæðan aðila, sem gert hefur samstarfssamning við sveitarfélagið, ef hann kýs að úthýsa umsýslunni til slíks aðila. Greiðslur samkvæmt samningi hefjast. Leit að aðstoðarfólki hefst.
  5. Aðstoðarfólk er ráðið. NPA-þjónustan er hafin.   

Verkefnisstjórn óskar eftir ábendingum frá notendum

Verkefnisstjórnin ítrekaði margsinnis á ráðstefnunni að mikilvægt væri að fá ábendingar frá notendum, félögum og stofnunum um sem flest sem varðar framkvæmd NPA. Sérstakt ábendingaform er inni á heimasíðu velferðarráðuneytisins sem hægt er að fylla út og senda verkefnisstjórninni.