Staða fatlaðs fólks í alþjóðlegu ljósi

Tom Shakespeare
Tom Shakespeare
Þann 15. mars síðastliðinn var haldið málþing á Grand Hóteli Reykjavík þar sem kynnt var efni fyrstu alþjóðaskýrslunnar um fötlun og aðstæður fatlaðs fólks. Skýrslan heitir á ensku, World Report on Disability, og er unnin og gefin út af Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) í samstarfi við Alþjóðabankann. Aðalfyrirlesari málþingsins var enginn annar en Tom Shakespeare, sem er heimsþekktur, mikilsvirtur fræðimaður á sviði fötlunarfræða og baráttumaður fyrir mannréttindum fatlaðs fólks.
Ýmsir aðilar stóðu að málþinginu
Velferðarráðuneytið bauð til málþingsins í samstarfi við forsætisráðuneytið, innanríkisráðuneytið, Embætti landlæknis, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp og Rannsóknasetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Fulltrúar þessara stofnana héldu stutt innlegg á málþinginu um þýðingu skýrslunnar fyrir Ísland.
 
Efni skýrslunnar
Í skýrslunni er fjallað um helstu málefni sem snerta fatlað fólk svo sem heilbrigði, atvinnu, menntun, þjónustu og stuðning, aðgengi og hindranir í umhverfinu. Eitt af aðalmarkmiðum skýrslunnar er að leggja til tillögur um framþróun í málefnum fatlaðs fólks á alþjóðavísu. Einnig að styðja við framkvæmd samningsins um réttindi fatlaðs fólks með því að gefa alþjóðlegar leiðbeiningar um innleiðingu, draga athygli að hindrunum og gefa dæmi um góða framkvæmd.
 
Hvað segir alþjóðaskýrslan okkur?
Í skýrslunni er greint frá ýmsum vandamálum sem fylgja málaflokknum á alþjóðavísu eins og t.d. skortur á þjónustu, aðgengi, samráði og þátttöku sem og öflun upplýsinga og þekkingar, ófullnægjandi stefnumótun og gæðaviðmið, neikvæð viðhorf o.fl. Afleiðingar þessa eru augljóslega miklar, sem dæmi má nefna verra heilsufar en tíðkast meðal almennings, lægra menntunarstig, minni þátttöku í efnahagslífi, meiri fátækt, vaxandi þörf á aðstoð og minnkandi samfélagsþátttöku.
 
Níu heildstæðar tillögur skýrslunnar
Í skýrslunni setja höfundar fram níu heildstæðar tillögur sem þeir segja marga og ólíka aðila í hverju landi fyrir sig verða að koma að, bæði í opinbera og einkageiranum:
  1. Samþætta alla almenna stefnumótun, skipulag, stofnanir og þjónustu
  2. Fjárfesta í skilgreindum áætlunum og þjónustu fyrir fatlað fólk
  3. Lönd setji sér stefnu varðandi fötlun og geri framkvæmdaáætlun
  4. Stuðla að þátttöku og áhrifum fatlaðs fólks
  5. Efla mannauð
  6. Veita fullnægjandi fjármögnun og gera þjónustuna ódýrari
  7. Stuðla að aukinni vitund almennings og skilningi á fötlun
  8. Bæta upplýsingaöflun um fötlun
  9. Styrkja og styðja rannsóknir á fötlun
Tom Shakespeare
Tom Shakespeare var eins og fyrr segir aðalfyrirlesari málþingsins en hann kynnti skýrsluna sem hér um ræðir. Tom er með doktorsgráðu í félagsfræði og hefur skrifað fjöldan allan af bókum og greinum á sviði fötlunarfræða. Í dag starfar hann samhliða fræðastörfum sem sérfræðingur hjá WHO og er einn af höfundum og ritstjórum skýrslunnar. Tom er sjálfur fatlaður og hefur verið virkur í baráttuhreyfingu fatlaðs fólks í tvo áratugi. Einnig hefur hann stundað myndlist og leiklist, skrifað reglulega fyrir fjölmiðla eins og BBC, komið mörgum sinnum fram sem gestur í útvarpi og sjónvarpi og stýrt viðtalsþáttum.
Tom hefur verið í samstarfi við íslenska fræðimenn á sviði fötlunarfræða um árabil og hefur komið til Íslands nokkrum sinnum og haldið fyrirlestra. Honum var veitt heiðursdoktorsnafnbót í fötlunarfræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands 16. mars síðastliðinn.
 
Taldi skóla án aðgreiningar og NPA mikilvæg málefni 
Þegar Tom hafði lokið máli sínu á málþinginu á Grand Hóteli var boðið upp á fyrirspurnir úr sal og fékk hann þá spurningu hvað honum þyki mikilvægast að unnið verði að fyrir fatlað fólk á Íslandi í dag. Hann svaraði því til að hann þekkti stöðu mála á Íslandi ekki nógu vel til þess að geta svarað spurningunni en nefndi þó tvö atriði sem honum þykja afar mikilvæg í öllum samfélögum. Annað var skóli án aðgreiningar, að fötluð börn geti farið í almenna skóla og tók það sem dæmi að hann væri sjálfur staddur hér á Íslandi vegna þeirrar menntunar sem hann fékk. Hitt atriðið sem hann talaði um var mikilvægi sjálfstæðs lífs, að fólk geti búið sjálfstætt í samfélaginu og utan stofnana. Þá sagðist Tom vera spenntur að heyra um sjálfstæða búsetu (NPA) á Íslandi og sagðist hafa trú á því að það myndi ganga vel.