Fatlað fólk á tímamótum: Eru mannréttindi virt?

Hrefna K. Óskarsdóttir
Hrefna K. Óskarsdóttir

 

Markmið fundanna var að að ná til fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra vegna yfirfærslunnar, kynna nýjar áherslur í málefnum fatlaðs fólks og ræða áætlun ÖBÍ varðandi yfirfærsluna. Á fundunum var samningur Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi fatlaðs fólks kynntur, ÖBÍ kynnti starf bandalagsins og áætlun og farið var yfir stöðu þjónustu við fatlað fólk eins og hún var fyrir yfirfærslu. Á fyrstu fundunum var NPA miðstöðin (miðstöð sem styður og aðstoðar fatlað fólk sem kýs að nota beingreiðslur og notendastýrða persónulega aðstoð (NPA)) með kynningu á starfsemi sinni og á landsbyggðinni kynnti Sjálfsbjörg Þekkingarmiðstöðina (miðstöð sem veitir upplýsingar og aðstoð fyrir hreyfihamlað fólk) sem opnaði síðastliðið vor.   

Misjafnt hversu margir mættu

Fundaferðin hófst 1. febrúar 2011 í Reykjanesbæ og lauk á Höfn í Hornafirði 7. maí 2012. Mismunandi var hversu margir mættu á fundina, allt frá 10 manns upp í 50, en besta mæting var á Egilsstöðum. ÖBÍ lagði mikla áherslu á að sem flest fatlað fólk og aðstandendur þeirra mættu á fundina. Auk þess var rætt við stjórnendur í málefnum fatlaðs fólks á hverju svæði fyrir sig til að heyra áætlanir þeirra og sýn á málefni fatlaðs fólks. Á fundunum var óskað eftir sjálfboðaliðum úr hópi fatlaðs fólks  með það að markmiði að slíkir sjálfboðaliðar gætu verið styðjandi fyrir fatlað fólk á svæðinu og í tengslum við ÖBÍ. Það hefur til dæmis  verið haft samband við þá vegna fræðslufunda NPA miðstöðvarinnar um landið til að kynna þetta nýja fyrirkomulag aðstoðar.

Umræður á fundunum

Í lok fundanna var boðið upp á umræður og spurningar sem nýtt var vel á sumum stöðum. Meðal efnis sem fólki var hugleikið var þjónustan og yfirfærslan. Kvartað var yfir skorti á samráði við fatlað fólk við ákvarðanatöku í málum þeirra. Á landsbyggðinni kom fram að að húsnæði vantaði fyrir fatlað fólk í heimabyggð og að í mörgum tilvikum þyrfti það að flytja á milli bæjarfélaga. Með tilkomu NPA má í sumum tilvikum bæta úr þessu, en það á ekki að skipta máli hvar fólk býr. Aðstoðin er veitt á heimili fólks og öðrum stöðum þar sem það þarf á aðstoð að halda og því þarf það ekki að búa í sérstöku húsnæði. Mikið var spurt um NPA og vildi fólk meðal annars fá upplýsingar um hvað sú aðstoð byði upp á fram yfir þá þjónustu sem fyrir er. Réttindagæsla var mörgum hugleikin og er það vel að fatlað fólk hafi nú aðgang í heimabyggð að fólki sem stendur vörð um réttindi þess. ÖBÍ telur þó að auka ætti stöðugildi réttindagæslumanna þar sem sumir þeirra sinna mjög fjölmennum svæðum og aðrir sjá um strjálbýla landshluta þar sem mikill tími fer í ferðir.  

Almennt gerði fólk sér grein fyrir mikilvægi samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og taldi brýnt að hann yrði lögleiddur sem fyrst. Rætt var um aðgengismál sem eru því miður í ólestri á sumum stöðum. Það þarf að taka á þeim málum af festu og hafa fatlað fólk með í ráðum. Í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 kemur meðal annars fram að sveitarfélög eigi að gera úttekt á aðgengismálum á sínu svæði og gera áætlun um úrbætur. Þegar líða tók á fundaferðina komu fram umræður um SIS matið (mat á stuðningsþörf fatlaðs fólks), en sveitarfélög voru þá að fá niðurstöður matsins í hendur. Á nokkrum stöðum kom fram harkaleg gagnrýni á matið, bæði frá fötluðu fólki og starfsfólki sveitarfélagsins.

Almenn ánægja með fundaröðina

Fatlað fólk, sérstaklega á landsbyggðinni lýsti ánægju sinni yfir að ÖBÍ hafi staðið fyrir fræðslu- og upplýsingafundum um allt land, en ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Í ferðunum fékk ÖBÍ góða mynd af stöðu fatlaðs fólks á hinum mismunandi svæðum. Bandalagið þarf að taka afstöðu til þess hvort fundaröð ÖBÍ um landið verði endurtekin.

Ýmsir tenglar: