Nýir tímar, nýir símar, en eru það símar fyriralla?

Birkir Guðmundsson, aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins á sviði upplýsingatækni
Birkir Guðmundsson, aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins á sviði upplýsingatækni

Tímarnir breytast, og símarnir með. Nú er orðið fátítt að fólk noti síma eingöngu til þess að tala saman, öld snjallsímans er runnin upp. Síminn er orðinn samblanda af tölvu, GPS tæki, dagbók, samfélagsmiðlunartóli og svo er víst líka hægt að nota snjallsímana til að hringja í fólk ef nauðsyn krefur. Í Bandaríkjunum eiga menn 1,1 síma að meðaltali, sem þýðir að það eru fleiri farsímar en íbúar þar í landi. Rúmlega 70% blindra og sjónskertra Bandaríkjamanna eiga snjallsíma, þar af langflestir iPhone síma. Ætla má að ástandið sé svipað hérlendis.

Miklir möguleikar með snjallsímum

Það sem er hvað mest spennandi við snjallsímana eru tækifærin sem þeir veita fötluðu fólki, tækifæri til að gefa því kost á að keppa á jafnréttisgrundvelli í upplýsingasamfélaginu. Með aðgengilegum snjallsíma væri hægt að skanna texta, vísa fólki veginn, hjálpa til við samskipti og túlkun, lesa af skiltum og lyfjaumbúðum, stuðla að fjarkennslu og margt, margt fleira.

En aðgengismál sitja oft á hakanum og framleiðendur símastýrikerfa eru misjafnlega langt á veg komnir með að veita fötluðu fólki aðgengi að þeirri þjónustu sem síminn býður upp á.

Fyrst þarf ákveðið grunnaðgengi að vera innbyggt í stýrikerfi símans. Þá geta snjallir menn og konur notfært sér upplýsingaþjónustu stýrikerfisins og búið til alls konar hugbúnað sem einfaldar okkur lífið og skapar ný tækifæri.

Vandamálin eru misalvarleg og misjöfn og fer það eftir því um hvaða stýrikerfi er að ræða. Því er hér stutt yfirlit yfir fjögur helstu símastýrikerfin, hvar þau standa hvað varðar aðgengismál, og við hverju undirritaður býst á næstu mánuðum.

Undirritaður telur að aðgengilegir símar verði að geta keyrt nýja íslenska talgervilinn sem kom út þann 15. ágúst síðastliðinn. Margt annað þarf þó að skoða eins og til dæmis stuðning við heyrnartæki, titringsstillingar, punktaletursskjái, lyklaborð, úrval forrita sem bæta aðgengi ýmissa hópa og svo framvegis.

Symbian, stýrikerfi á útleið

Síðustu ár hafa símar frá Nokia sem keyra hið svokallaða Symbian stýrikerfi verið aðgengislausnin hér á landi. Þar má nefna C105 Somann, og E og N línur Nokiasímanna. Skjálestrar- og skjástækkunarforrit á borð við Mobilespeak hafa tryggt nokkuð góðan aðgang að grunnmöguleikum símanna, þó flóknari aðgerðir eins og netskoðun hafi oft ekki gengið vel. Símarnir gátu keyrt eldri íslenska talgervla með forritinu MobileSpeak. En nú hefur Nokia meira og minna lagt Symbian stýrikerfið á hilluna og eru símar þessir að hverfa af markaði. Sú ákvörðun var tekin af Blindrafélaginu að eyða ekki aukafjármagni í að þróa nýja talgervilinn fyrir þetta stýrikerfi, þar sem það er greinilega á útleið. Nokia hefur skipt út Symbian kerfinu yfir í símastýrikerfi frá Microsoft sem kallast Windows Phone 7. Aðgengi er harla fábrotið í því kerfi, og litlir möguleikar til úrbóta, en menn vonast eftir því að fljótlega verði skipt yfir í Windows 8 stýrikerfið sem kemur á markað seinni partinn í október. Microsoft hefur þegar bætt aðgengi að kerfinu til muna, bæði fyrir lyklaborðs- og snertiskjásnotendur. Því miður keyra flestir Nokiasímar á markaði í dag Windows Phone 7 og því ekki aðgengilegir a.m.k. fyrir fólk sem vill tal og fleira. En Symbian kerfið virðist vera á útleið og því þurfum við að einbeita okkur að öðrum lausnum sem virðast líklegri til að koma í stað kerfisins.

Apple iPhone, möguleikarnir eru spennandi en risavaxið ljón er í veginum

iPhone símarnir, iPad spjaldtölvurnar og iPod tækin hafa notið gífurlegra vinsælda víða um heim, þá sérstaklega hjá fötluðu fólki. Síðan 2007 hefur Apple unnið mikið í aðgengi fyrir nær alla hópa fatlaðra að þessum tækjum og meðal annars fundið upp aðgengilegt snertiskjásviðmót fyrir blinda og sjónskerta. iPhone símarnir bjóða meðal annars upp á:

 • Stuðning við flestar gerðir punktaletursskjáa með Bluetooth tengingu
 • Allt að 500% skjástækkun
 • Stuðning við Bluetooth lyklaborð og önnur Bluetooth tæki
 • Textun, TTY og titringsskilaboð fyrir fólk sem á við heyrnarskerðingu að stríða
 • Talgreini (þó auðvitað ekki á íslensku)

Aðgengistækni Apple er að mestu leyti ókeypis og innbyggð í símanna, en mikill fjöldi forrita frá fjölda fyrirtækja er aðgengilegur notendum þessara tækja. Er það aðallega vegna þess að Apple framleiða tækin sín sjálfir og hafa einnig mikla stjórn á öllum hugbúnaði sem hægt er að keyra á símum og spjaldtölvum fyrirtækisins.

Hér má sjá lista yfir aðgengilegustu forrit fyrir Apple-tækin (frá sjónarhorni fólks með sjónskerðingu, þó oft nýtist slíkt aðgengi mörgum öðrum hópum notenda). 

iPhone 5 síminn kemur á markað 12. september næstkomandi, ásamt iOS6 stýrikerfinu sem býður upp á enn fleiri aðgengismöguleika:

 • "Guided Access" þar sem hægt er að virkja einungis eitt svæði á skjá símans
 • Möguleikann á að keyra tal og stækkun saman, eitthvað sem hingað til hefur ekki verið mögulegt
 • Stuðning við ný Bluetooth 4 heyrnartæki

Hér má lesa meira um aðgengisnýungar í iOS6 stýrkerfinu.

Gallinn fyrir okkur á Íslandi er sá að Apple hefur hingað til ekki viljað setja inn íslenskan talgervil í tækin sín og notendur geta á engan hátt sett upp talgervla sem ekki eru innbyggðir í tækin. Hægt er að búa til einstök forrit, eins og til dæmis bókaspilara eða GPS tæki, og pakka íslenskum talgervli inn í þau, en þá slökknar á honum um leið og notandi er kominn út úr forritinu. Blindrafélagið hefur beitt umboðsaðila Apple á Íslandi talsverðum þrýstingi til að reyna að fá nýja talgervilinn inn í iPhone, iPad og iPod tækin og hefur erindi félagsins verið tekið vel þar á bæ. Hins vegar er það alfarið í höndum höfuðstöðva Apple erlendis að taka slíkar ákvarðanir og hingað til hefur það ekki gengið eftir. Hvetur höfundur þau ykkar sem teljið að iPhone sími með íslenskum talgervli geti nýst ykkur, að hafa samband við umboðsaðila Apple á Íslandi og benda þeim á áhuga ykkar á að fá íslenska talgervilinn inn í þessi tæki.

Android lofar góðu, en vanda þarf valið

Android símastýrikerfið er framlag Google til farsímaheimsins. Það er opið í eðli sínu og hver sem er getur breytt því eða sniðið það að sínum eigin þörfum.

Í fyrstu útgáfum Android var aðgengið ekki upp á marga fiska, enda er það oftast raunin þegar kemur að hugbúnaði (sama mátti segja um Apple símana fyrir 2007). Google hefur gert miklar umbætur og útgáfa Android sem kallast Jelly Bean (útgáfa 4,1 sem er nýkomin á markað) og hefur hún upp á margt að bjóða í aðgengismálum.

Nýju íslensku talgervilsraddirnar koma til með að keyra á mörgum Android símum og eru þeir því í raun besta lausnin eins og málin standa í dag. En vandamálið er það að framleiðendur helstu Android símanna vilja oft breyta stýrikerfinu svo mikið að aðgengislausnir Google virka stundum ekki. Því þarf að vanda valið þegar kemur að símum sem mælt er með að fólk kaupi sér og er sú vinna í raun í gangi þessa dagana. Núna virðist sem Samsung Galaxy S2, S3 og Nexus, auk Motorola Zoom séu hvað aðgengilegastir, en þó er ekki hægt að fullyrða um það að svo stöddu.

Hér má sjá lista af 253 Android forritum sem búið er að aðgengismæla.

Blackberry, framleiðandi í vandræðum en með áhuga á aðgengismálum

Blackberry framleiða bæði stýrikerfi og síma sem hingað til hafa verið einstaklega vinsælir fyrir fagmenn og tæknifólk, sérstaklega á vegum stórfyrirtækja. Markaðshlutdeild Blackberry fer ört minnkandi og fyrirtækið hefur átt í töluverðum vandræðum fjárhagslega, ef marka má fréttaflutning.

Blackberry hafa staðið sig mjög vel hvað varðar aðgengismál og símar þeirra bjóða til dæmis upp á:

 • Stuðning við TTY og TTD ásamt heyrnartækjum
 • Textun margmiðlunarefnis (hljóð- og myndbandsskráa)
 • stillanlegan titring fyrir mismunandi tegundir skilaboða
 • Skjástækkun
 • Möguleika til að breyta um leturstærð og litasamsetningu

Nýlega bættist við skjálestur þegar ókeypis skjálesari kom út fyrir Blackberry Curve 9350, 9360 og 9370 símana. Ekki er þó víst að hægt sé að þýða Blackberrry símana yfir á íslensku, né að hægt verði að keyra talgervilinn á þessum símum. Vegna lítillar markaðshlutdeildar Blackberry og lítils áhuga félagsmanna á þessum símum hafa þeir ekki verið skoðaðir að neinu viti og ólíklegt að svo verði. Aldrei skal þó útiloka neinn möguleika í þessum efnum og auðvitað ber að fagna því þegar fyrirtæki sem er jafnvel að tapa peningum leggur metnað í að bjóða upp á ókeypis skjálestur og aðgengi fólks að símunum sínum.

Hér má lesa um reynslu blinds fagmanns af Blackberry skjálesaranum.

Segja má að þrátt fyrir að Android símarnir séu langt því frá að vera fullkomnir séu þeir besta aðgengislausnin í náinni framtíð, a.m.k. fyrir blinda og sjónskerta. Betra væri að gefa fólki valkosti, og íslenska iPhonesímanna, enda telja allir sérfræðingar í aðgengismálum að þeir skari fram úr þegar kemur að aðgengismálum eins og staðan er í dag. Vonandi breytist það og Android og Windows 8 stýrikerfin bjóði okkur upp á aðgengilegt notendaviðmót.