Ríkið tekur til sín hátt hlutfall lífeyrissjóðsgreiðslna

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir


Tæplega helmingur örorkulífeyrisþega fær einhverjar greiðslur úr lífeyrissjóði ásamt því að fá greiddan örorkulífeyri almannatrygginga. En hversu stóran hluta lífeyrissjóðsgreiðslnanna fá lífeyrisþegar til ráðstöfunar og hversu stór hluti fer aftur í ríkissjóð?

Ríkið klípur af greiðslum til lífeyrisþega úr tveimum áttum. Annars vegar í gegnum tekjuskatt og/eða fjármagnstekjuskatt og hins vegar með tekjutengingum, þar sem skattskyldar tekjur fyrir skatt skerða lífeyrisgreiðslur, sem fólk fær úr almannatryggingakerfinu. Veigamest er tekjutengingin á  sérstaka uppbót til framfærslu, en hún skerðist krónu á móti krónu (100% skerðing) við skattskyldar tekjur fyrir skatt. Lítum á dæmi:

Örorkulífeyrisþegi* með 40.000 kr. lífeyrissjóðstekjur á mánuði fyrir skatt

  Tekjur frá TR með 40.000 frá lífeyrissjóði
Tekjur frá lífeyrissjóði
Heildartekjur - með 40.000 úr lífeyrissjóði
Til samanburðar: Tekjur frá TR án lífeyrissjóðstekna
 Fyrir skatt
 136.978  40.000  176.978  174.946
 Staðgreiðsla  4.616  14.936  19.552  18.793
 Til ráðstöfunar
 132.362  25.064  157.426  156.153

*Fyrsta örorkumat 40 ára – býr með öðrum fullorðnum. Útreikningar skv. reiknvél TR fyrir lífeyrir.

Örorkulífeyrisþeginn í dæminu fær útborgað á mánuði 25.064 kr. úr lífeyrissjóði en sömu tekjur (40.000 kr. fyrir skatt) skerða örorkulífeyri hans (eftir skatt) frá TR um 23.791 kr. á mánuði. Samanlögð er þá skerðing vegna tekna úr lífeyrissjóði og tekjuskattur af sömu greiðslum 38.727 kr. á mánuði. Því gefa 40.000 kr. á mánuði (fyrir skatt) frá lífeyrissjóði aðeins 1.273 kr. hærri ráðstöfunartekjur. Meginhluti greiðslnanna tekur ríkið til sín í formi tekjuskatts og tekjutenginga.

40.000 kr. lífeyrissjóðsgreiðslur á mánuði fyrir skatt:
1.273 kr. hærri ráðstöfunartekjur
38.727 kr. eða tæp 97% af 40.000 kr. fær ríkið í gegnum tekjuskatt og tekjutengingar

Lögbundin aðild að lífeyrissjóðum, ekki frjálst val

Öryrkjar með réttindi í lífeyrissjóði hafa greitt iðgjöld oft á tíðum í mörg ár fyrir örorkumat. Samkvæmt lögum er skylda að greiða iðgjald í lífeyrissjóð frá 16 til 70 ára. Aðild að lífeyrissjóði kemur fram í kjarasamningi og því er um lögbundinn skyldusparnað að ræða, en ekki frjálst val. Mörgum örorkulífeyrisþegum sem leitað hafa til ÖBÍ og hafa greitt iðgjald í lífeyrissjóð fyrir orkutap misbýður að fá aðeins lítinn hluta lífeyrissjóðsgreiðslnanna í vasann þar sem meginhluti þeirra fer til ríkissjóðs.

Ríkið tekur til sín allt að 97% af lágum lífeyrissjóðsgreiðslum

Dæmið hér að ofan er um örorkulífeyrisþega með lágar aðrar tekjur, eða 40.000 kr. fyrir skatt. Af lágum lífeyrissjóðsgreiðslum tekur ríkissjóður tæp 97% í formi tekjuskatts og tekjutenginga. Dæmið sýnir enn fremur hversu miklar tekjuskerðingar geta verið í almannatryggingakerfinu og á það sérstaklega við um sérstaka uppbót til framfærslu, sem skerðist krónu á móti krónu. Svipuð útkoma yrði ef 40.000 lífeyrissjóðstekjum yrði skipt út fyrir 40.000 atvinnutekjur á mánuði.

Mikilvægt er að hafa í huga hversu stór hluti tekna lífeyrisþega rennur aftur til ríkissjóðs í gegnum skerðingar, tekjutengingar og skatta þegar rætt er um útgjöld til almannatrygginga, en slíkt gleymist gjarnan. Skerðingar voru auknar að nýju í júlí 2009.