Þjónusta í 60 ár

Mynd af tveim stúlkum liggjandi í boltalandi
Mynd af tveim stúlkum liggjandi í boltalandi
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra fagnar 60 ára afmæli sínu í ár. Í tilefni þess var ákveðið að gefa út afmælisrit sem dreift var með Fréttatímanum í byrjun júní. Einnig var haldin útiskemmtun í júní framan við húsnæði félagsins á Háaleitisbraut 13.

Frá upphafi hefur félagið unnið að fjölmörgum framfaramálum í þjónustu og réttindabaráttu fyrir fatlað fólk. Ekki er ætlunin að dvelja við forna frægð  en vísum á vef félagsins www.slf.is til frekari fróðleiks.

Í dag eru helstu verkefni félagsins á sviði hæfingar og endurhæfingar en félagið rekur Æfingastöð að Háaleitisbraut 13 og sumardvöl í Reykjadal og á Stokkseyri. Starfsfólk Æfingastöðvarinnar hefur ávallt lagt sig fram við að vera í fremstu röð í þjónustu við notendur sína, tileinkað sér nýjungar og barist fyrir framförum í þjónustu. Á sama hátt hefur félagið hætt að veita þjónustu sem orðin er almenn og ríki og sveitarfélög hafa tekið við.

Þrjár stúlkur á skemmtun hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra

Fjölskyldumiðuð þjónusta

Í takt við breyttar áherslur og aukna þekkingu hefur stafsemi Æfingastöðvarinnar tekið meira mið af þörfum fjölskyldna barna með sérþarfir. Stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra ákvað fyrir nokkru að endurskipuleggja þjónustu Æfingastöðvarinnar með hugmyndafræði fjölskyldumiðaðrar þjónustu að leiðarljósi. Þjónustan byggir á ákvarðanatöku og áhrifum skjólstæðingsins sjálfs. Skjólstæðingur og þjálfari komast í sameiningu að samkomulagi um markmið og leiðir í þjálfun. Æfingastöðin hefur þannig styrkt stöðu sína enn frekar sem miðstöð þekkingar og þjónustu við börn og ungmenni með skerta færni. 

Sumar- og helgardvöl

Sumardvöl fyrir fötluð börn og ungmenni hefur verið í Reykjadal frá 1963 og munum við því fagna 50 ára afmæli Reykjadals á næsta ári. Í takt við breytta tíma hefur þjónustan sem þar er veitt gjörbreyst. Á upphafsárunum var dvalartími krakkanna mun lengri en í dag og dvöldu nokkrir sumarlangt. Nú dvelja þau í eina til tvær vikur hvert. Mikil breyting hefur orðið á þjónustuþörfum og hefur umönnunarþyngd  aukist verulega hin síðari ár. Árið 1990 hófst rekstur helgardvalar yfir veturinn. Þessi þjónusta hefur mælst mjög vel fyrir en boðið er upp á 16 - 18 helgardvalir á ári.

Hópmynd af börnum í sumardvöl

Árið 2002 hóf félagið samstarf við foreldra- og styrktarfélag Öskjuhlíðarskóla (nú Klettaskóla) um rekstur sumardvalar að Laugalandi í Holtum. Síðastliðið vor var hún flutt í Barnaskólann á Stokkseyri. Sumar- og helgarþjónustu félagsins hefur verið einstaklega vel tekið og er ánægja með starfsmenn og starfsemina mikil.

Á þessum 60 árum hefur meginstyrkur félagsins legið í því frábæra starfsfólki sem hefur starfað fyrir félagið á hverjum tíma. Einnig hefur fjöldi sjálfboðaliða komið að uppbyggingu hjá félaginu með einum eða öðrum hætti í gegnum áratugina. Við viljum færa öllu því góða fólki bestu þakkir fyrir fórnfúst og gott starf.


Tengill á vef Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra