Fátækt meðal öryrkja

Þorbera Fjölnisdóttir
Þorbera Fjölnisdóttir

Undanfarin misseri höfum við margoft heyrt stjórnvöld nefna velferðarkerfið í fjölmiðlum og hamra á mikilvægi þess að standa vörð um það kerfi. Hluti velferðarkerfisins eru greiðslur örorkubóta til þeirra sem sökum slysa eða veikinda geta ekki séð fyrir sér með fullu starfi á vinnumarkaði. Því miður eru alvarlegar brotalamir í þessu kerfi og afleiðingarnar eru fátækt meðal öryrkja.

Niðurstöður rannsóknar sem unnin var í tilefni af Evrópuári gegn fátækt og félagslegri einangrun árið 2010 sýna að þeir sem hafa litlar eða engar aðrar tekjur en örorkubætur búa við svo þröngan fjárhag að margir þeirra eiga ekki fyrir mat eða öðrum nauðþurftum síðari hluta mánaðarins. Aðrar sambærilegar rannsóknir hafa einnig sýnt að örorkubætur eru svo lágar að stór hluti öryrkja er annað hvort fátækur eða á mörkum fátæktar samkvæmt öllum viðurkenndum viðmiðum.

Hvað orsakar fátækt meðal öryrkja?

Örorkubætur eru lágar. Þær eru t.d. langt undir öllum neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins. Lögum samkvæmt eiga örorkubætur að breytast árlega í takt við launaþróun en þó þannig að þær hækki ekki minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þessu lagaákvæði hefur ekki verið fylgt síðan 2008 og hafa bæturnar því rýrnað að verðgildi sem því nemur. Örorkubætur hafa auk þess ekki fylgt hækkunum launa á almennum markaði, þó ýmsir standi í þeirri trú. Þetta gerist á sama tíma og greiðsluþátttaka í læknis-, lyfja- og þjálfunarkostnaði hefur stóraukist.

Tekjutengingar innan kerfisins gera fólki ókleift að bæta fjárhagslega stöðu sína og halda fólki þannig í fátæktargildru.

Hverjar eru afleiðingar fátæktar?

Fyrir utan það að eiga ekki fyrir nauðþurftum, hefur fátækt niðurbrjótandi sálræn áhrif sem til lengri tíma leiðir til hrakandi geðheilsu. Fólk þjáist af streitu, kvíða og vonleysi, finnst aðstæður sínar vera niðurlægjandi og að litið sé á það sem annars flokks þjóðfélagsþegna. Fátækt leiðir einnig til félagslegrar einangrunar. Sá sem er fátækur hefur ekki ráð á að fara í bíó, leikhús, á tónleika eða út að borða – jafnvel ekki á Bæjarins bestu.

Mannréttindi brotin

Samkvæmt stjórnarskrá okkar Íslendinga og þeim alþjóðlegu mannréttindasáttmálum sem við erum aðilar að, ber að tryggja einstaklingum þau lífskjör að fólk geti lifað með reisn. Stjórnvöld hafa því augljóslega brotið stjórnarskrána og áðurnefnda sáttmála með þeim bágu lífskjörum sem þau hafa búið öryrkjum þessa lands.

Velferðarkerfið er mannanna verk og ef það hefur ekki reynst þjóna tilgangi sínum nægjanlega vel, þá þarf einfaldlega að breyta því.

Viljum við ekki öll búa í samfélagi þar sem hverjum og einum eru tryggð mannsæmandi lífskjör? Hvers konar gildismat er að baki því viðhorfi að þeir sem misst hafa starfsorkuna vegna sjúkdóma eða slysa eigi ekki betra skilið en að skrimta?

Þorbera Fjölnisdóttir

Kjarahópi ÖBÍ

Ýmsir tenglar