Ólympíumót fatlaðra

Anna Guðrún Sigurðardóttir
Anna Guðrún Sigurðardóttir

Ólympíumót fatlaðra var haldið eins og kunnugt er í kjölfar Ólympíuleikanna í London í ár. Ólympíumótið var sett með glæsilegri setningarathöfn 7. september 2012 en í fyrsta sinn gafst Íslendingum kostur á að horfa á beina útsendingu frá athöfninni á Ólympíurás RÚV. Þema setningarathafnarinnar voru vísindi og komu fram meðal annarra Stephen Hawkins, vísindamaður, Nicola Mikes-Wilkins, þekkt bresk hreyfihömluð leikkona og heimsþekkti leikarinn Ian McKellan.

Íslendingar sendu að þessu sinni fjóra keppendur, þau Helga Sveinsson, Matthildi Ylfu Þorsteinsdóttur sem kepptu í frjálsum íþróttum, Kolbrúnu Öldu Stefánsdóttur og Jón Margeir Sverrisson sem kepptu í sundi. Keppendum fylgdu fararstjórar og þjálfarar ásamt því að dyggur hópur ættingja og vina fylgdist með sínu fólki.

Keppendur, þjálfarar og fararstjórar á Ólympíumóti fatlaðra 2012


Upphaf Ólympíumóts fatlaðra og þátttaka Íslands

Upphaf Ólympíumóts fatlaðra má rekja til Stoke Mandeville leikanna sem voru fyrst haldnir í Bretlandi árið 1952 með þátttöku hreyfihamlaðra Breta og Hollendinga. Þetta mót er forveri Ólympíumóts fatlaðra eins og við þekkjum það í dag og var fyrsta slíka mótið haldið árið 1960 á Ítalíu en þar kepptu eingöngu hreyfihamlaðir. Ólympíumót fatlaðra hefur síðan yfirleitt verið haldið í sama landi og sömu borg og Ólympíuleikarnir.

1980

Ísland tók fyrst þátt á Ólympíumóti fatlaðra árið 1980 í Arnheim í Hollandi. Mótið var haldið í Hollandi sökum þess að lönd ákváðu að sniðganga Ólympíuleikana í Moskvu í Rússlandi. Alls tóku 12 íslenskir keppendur þátt í mótinu og lönduðu einum gullverðlaunum og einum bronsverðlaunum.

1984

Ólympíumót fatlaðra árið 1984 var haldið sem Stoke Mandeville leikar í Bretlandi sökum fjárskorts mótshaldara Ólympíuleikanna sem haldnir voru það ár í New York. Á leikana í Bretlandi sendi Ísland 8 keppendur og komu þeir heim með tvenn bronsverðlaun.

1988

Árið 1988 var Ólympíumót fatlaðra haldið í Seoul í Suður Kóreu og var þetta í fyrsta sinn sem keppendur á Ólympímóti fatlaðra notuðu sömu íþróttamannvirki og voru notuð á Ólympíuleikum. Ísland sendi 14 keppendur á mótið og unnu þeir til tveggja gullverðlauna, tveggja silfurverðlauna og sjö bronsverðlauna.

1992

Ólympíumótið var næst haldið árið 1992 á Spáni, í borginni Barcelona og Ólympíumót þroskahamlaðra var haldið á sama tíma í Madrid. Ísland sendi 12 keppendur til Barcelona og unnu þeir keppendur til þriggja gullverðlauna, tveggja silfur verðlauna og 12 bronsverðlauna. Ísland sendi 8 keppendur sem tóku þátt í mótinu á Madrid og unnu þeir til 22ja gullverðlauna, sex silfurverðlauna og fimm bronsverðlauna.

1996

Árið 1996 var mótið haldið í Atlanta í Bandaríkjunum. Ísland sendi 10 keppendur á mótið og unnu þeir til fimm gullverðlauna, fjögurra silfurverðlauna og fimm bronsverðlauna.

2000

Ólympíumótið var næst haldið árið 2000 í Sydney í Ástralíu þar sem 6 íslenskir keppendur tóku þátt og unnu þeir til tveggja gullverðlauna og tveggja bronsverðlauna.

2004

Árið 2004 var mótið haldið í Aþenu í Grikklandi en þangað sendi Ísland þrjá keppendur og unnu þeir til einna gullverðlauna og tveggja silfurverðlauna.

2008

Ólympíumótið var haldið í Peking í Kína árið 2008. Á mótið sendi Ísland fimm keppendur en engin verðlaun unnust á því móti.

Árangur íslensku keppendanna á Ólympíumótinu í ár:


Matthildur Ylfa ÞorsteinsdóttirMatthildur Ylfa Þorsteinsdóttir
sem keppti  í flokki F og T 37 (flokki spastískra) hafnaði í 8. sæti í langstökki og var hennar lengsta stökk 4,08 metrar. Hún keppti í 8 kvenna úrslitum í greininni. Þetta var næst besti árangur hennar í alþjóðlegri keppni. Í 100 m hlaupi lenti Matthildur Ylfa í 15. sæti á 15,89 sekúndum og  jafnaði  besta alþjóðlega árangur sinn. Í 200 m hlaupi hafnaði hún í  13. sæti á 32,16 sekúndum og setti með því nýtt Íslandsmet.

Helgi SveinssonHelgi Sveinsson sem keppti í flokki F og T 42 (flokki aflimaðra/skert fótafærni) hafnaði í 10. sæti í langstökki og var lengsta stökk hans 4,25 metrar. Í 100 m hlaupi hafnaði Helgi í 11. sæti á 16,64 sekúndum. Í spjótkasti lenti Helgi í 5. sæti með lengsta kast upp á 47,61 metra sem var nýtt Íslandsmet.


Kolbrún AldaKolbrún Alda Stefánsdóttir sem keppti í flokki S14 (flokki þroskahamlaðra)
hafnaði í 14. sæti í 100 m baksundi á tímanum 1:21,61 mín sem var annar besti árangur hennar í alþjóðlegri k
eppni ásamt því að vera nýtt íslandsmet. Í 200 m skriðsundi lenti Kolbrún Alda í 12. sæti á tímanum 2:24,57 mín og setti nýtt íslandsmet. Í 100 m bringusundi hafnaði Kolbrún í 14. sæti á tímanum 1:30,58 mín sem var annar besti árangur Kolbrúnar Öldu í alþjóðlegri keppni.

Jón Margeir SverrissonJón Margeir Sverrisson sem keppti í flokki S14 (flokki  þroskahamlaðra)
lenti í 17. sæti í 100 m baksundi á tímanum 1:10,72 mín sem var persónuleg bæting í greininni.
Í 200 m skriðsundi stóð Jón Margeir uppi sem sigurvegari og fékk gullverðlaun en hann synti á tímanum 1:59,62 mín. Jón Margeir lenti ekki aðeins í fyrsta sætinu heldur setti hann með þessum árangri nýtt íslandsmet, evrópumet, heimsmet og Ólympíumótsmet. Jón Margeir hafnaði í 11. sæti í 100 m bringusundi á tímanum1:13,91 mín sem var nýtt íslandsmet. Eftir glæsilegan árangur á mótinu hefur Jón Margeir hlotið viðurnefnið „Gulldrengurinn“ hjá íslenskum fjölmiðlum.

Heimildir í greininni eru fengnar frá Íþróttasambandi fatlaðra.

Höfundur greinar er Anna Guðrún Sigurðardóttir