Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Lógó Sameinuðu þjóðanna
Lógó Sameinuðu þjóðanna

Sáttmálinn

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi fatlaðs fólks ásamt valfrjálsri bókun var undirritaður fyrir hönd íslenska ríkisins 30. mars 2007. Í sáttmálanum er útfært á nákvæman hátt til hvaða aðgerða stjórnvöld skuli grípa þannig að mannréttindi fatlaðs fólks séu tryggð á sama hátt og annarra. Með undirskrift skuldbinda íslensk stjórnvöld sig til þess að virða þau réttindi sem bundin eru í sáttmálanum og að aðhafast ekkert sem gengur í berhögg við hann. Sáttmálinn er sérstakur að því leyti að hann var saminn í miklu samráði við grasrótina, en það hefur ekki verið reyndin með aðra mannréttindasáttmála. Mikil sátt og samstaða hefur ríkt um sáttmálann og kom það meðal annars fram við opnun hans en þá var hann undirritaður af meira en 80 ríkjum. Nú hafa fulltrúar 153 ríkja undirritað sáttmálann og hann verið fullgiltur af hálfu 119 ríkja.[1]

Innleiðing sáttmála í íslenskan rétt

Undirritun er ekki nægileg til þess að þegnar aðildarríkja geti byggt rétt sinn á sáttmálum sem þessum. Innleiðing hans er því nauðsynleg. Við innleiðingu á alþjóðasamningum hefur íslenska ríkið um tvo megin kosti að ræða, þ.e. fullgildingu eða lögfestingu. Fullgilding fer fram með þeim hætti að Alþingi heimilar ríkisstjórninni með ályktun að afhenda Sameinuðu þjóðunum fullgildingarskjal. Fullgiltir samningar fá ekki sjálfkrafa lagagildi nema þeir séu samþykktir sem lög í heild sinni með formlegum hætti af Alþingi. Fræðimenn hafa bent á að lögfesting sáttmála feli í sér frekari réttarvernd en fullgilding.[2] Stjórnvöld stefna að fullgildingu hans á þessu eða næsta ári.[3] Til þess að það verði hægt þarf að mati ÖBÍ að endurskoða þýðingu hans þar sem um margar rangfærslur er að ræða og þýðing ýmissa greina byggja á hugmyndafræði sem gengur í berhögg við þá félagslegu sýn sem samningurinn byggir á. ÖBÍ hefur lagt á það áherslu að samningurinn skuli lögfestur í heild sinni hér á landi.

Ný nálgun

Sáttmáli SÞ leggur upp með nýja nálgun í baráttu fatlaðs fólks fyrir réttindum sínum. Hér er um þróun að ræða sem víkur frá hjálpar eða ölmusu sjónarmiði til mannréttinda, en fyrrnefndu hugtökin hafa verið ríkjandi um árabil í málefnum fatlaðs fólks. Þessi nýja nálgun kemur fram í markmiði samningsins sem er að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra. Skilgreining á fötlun samkvæmt samningnum byggir einnig á öðru sjónarmiði en því sem hefur verið ríkjandi í samfélaginu, en þar er litið til félagslegrar sýnar á fötlun. Í sáttmálanum segir að fötlun sé breytingum undirorpin og að rekja megi hana til víxlverkunar milli skerðingar einstaklings, umhverfishindrana og viðhorfa gagnvart fötluðu fólki í samfélaginu. Bent er á að þessi atriði koma í veg fyrir fulla og virka þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli. Sáttmálinn segir til um hvernig framkvæmd og eftirlit bæði innanlands og utan eigi að fara fram og er það nýnæmi að mannréttindasamningar SÞ segi til um slíkt.

Hlutverk hagsmunasamtaka fatlaðs fólks

Gert er ráð fyrir að sáttmáli SÞ muni í framtíðinni hafa mikil áhrif á mannréttindi, en til að svo geti orðið þarf eins og áður er getið að lögfesta eða fullgilda hann. Það sem þarf til þess er pólitískur vilji til raunverulegra breytinga. Sáttmálinn mun verða sterkt tæki til þess að koma á nauðsynlegum réttarbótum fyrir fatlað fólk. Einnig er afar mikilvægt að benda á að það er í höndum fatlaðs fólks og hagsmunasamtaka þess að kynna sér hann, miðla þekkingunni og beita honum með virkum hætti. Honum verður ekki skapað líf með öðrum hætti.

Hrefna K. Óskarsdóttir, verkefnastjóri ÖBÍ

Sigurjón U. Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ

Tenglar:
[2] Þórhildur Líndal, Barnasáttmálinn. Rit um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins með vísun í íslenskt lagaumhverfi, bls. 8.

[3] Samkvæmt framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks er stefnt á fullgildingu í síðasta lagi á vorþingi 2013. Sjá framkvæmdaáætlunina hér: http://www.althingi.is/altext/140/s/1496.html. Það er ekki í fullu samræmi við það sem fulltrúi íslenska ríkisins sagði á fundi Sameinuðu þjóðanna, en þar kom fram að fullgilding sé á áætlun árið 2012. Sjá http://www.un.org/ga/search/view_doc.asp?symbol=A/HRC/19/13&, tölulið 44.