Vel heppnað málþing í Hörpunni

Stig Langvad
Stig Langvad

Haldið var málþing um Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi fatlaðs fólks í Hörpunni fimmtudaginn 11. október síðastliðinn. Fyrir ráðstefnunni stóðu Öryrkjabandalag Íslands í samstarfi við innanríkisráðuneytið, velferðarráðuneytið, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Rannsóknasetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands.

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ásamt valfrjálsri bókun var undirritaður fyrir hönd íslenska ríkisins 30. mars 2007. Samkvæmt framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014, stendur til að innleiða hann hér á landi árið 2013. Á málþinginu var lögð áhersla á 4. grein sáttmálans, sem fjallar um hlutverk hagsmunahópa og 33. gr. sem fjallar um samhæfingu stjórnsýslunnar og sjálfstæðan eftirlitsaðila.

Javier GuemesAðalfyrirlesarar á ráðstefnunni voru Stig Langvad formaður danska Öryrkjabandalagsins (Danske Handicaporganisationer) og fulltrúi í nefnd SÞ um innleiðingu mannréttindasáttmálans og Javier Güemes aðstoðarframkvæmdastjóri European Disability Forum (EDF).                                                                                          

Aðrir sem til máls tóku voru Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sem voru með ávörp, Guðmundur Magnússon formaður Öryrkjabandalags Íslands, sem fjallaði um aðkomu fatlaðs fólks að innleiðingu og eftirliti, Rún Knútsdóttir lögfræðingur í velferðarráðuneytinu, sem fjallaði um endurskoðun réttindagæslu fyrir fatlað fólk og María Rún Bjarnadóttir lögfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu, sem fjallaði um stöðu Íslands í alþjóðlegu ljósi með hliðsjón af innleiðingu sáttmálans.   

Ráðstefnunni lauk með innleggi frá Tryggva Þórhallssyni lögfræðingi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Margréti Steinarsdóttur framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands og Rannveigu Traustadóttur prófessor í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Umræður í pallborði tóku svo upp síðasta hálftíma ráðstefnunnar.

Gestir á málþingi ÖBI um mannréttindasáttmála SÞ fyrir fatlað fólkMörg og ólík sjónarmið komu fram á ráðstefnunni varðandi sáttmálann eins og t.d. hvort betra væri að fullgilda hann eða lögfesta. Rætt var um hvernig haga skuli undirbúningi, innleiðingu og framkvæmd sáttmálans. Umræður voru einnig um hvaða lögum þurfi að breyta í anda sáttmálans og hvort nauðsynlegt sé að gera það fyrir eða eftir fullgildingu hans. Mikill samhljómur var hjá ræðumönnum í því að þátttaka fatlaðs fólks og samtaka þess væri nauðsynleg í innleiðingarferlinu. Þá kom fram mikilvægi þess að endurskoða íslenska þýðingu sáttmálans í samráði við hagsmunaaðila.

Skemmtilegt er að geta þess að Helgi Hjörvar alþingismaður sem var málþingsstjóri á ráðstefnunni þurfti að bregða sér frá um stund ásamt ráðherrunum til að mæta á Alþingi og kjósa. Hann kom til baka með þá yfirlýsingu að Alþingi hefði lögfest að fatlað fólk megi velja sér persónulegan aðstoðarmann sér til aðstoðar við kosningar og fylgdi mikið lófatak í salnum.

Ráðstefnan tókst vel að öllu leyti og var tímabært að ná saman þessum tæplega 200 manna hópi úr mismunandi áttum til þess að ræða mikilvægi mannréttindasáttmálans, fullgildingu hans og aðkomu fatlaðs fólks og félaga þess við innleiðingu hans.

Því miður sá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sér ekki fært að útvega táknmálstúlka á málþinginu og harmar ÖBÍ það mjög. Málþingið var tekið upp og verður sett inn á heimasíðu ÖBÍ og mun upptakan verða táknmálstúlkuð.


Tenglar: