"Ferðaþjónustafatlaðra uppfyllir ekki skilyrði laga"

Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélags Íslands
Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélags Íslands

Til að öll ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks öðlist gildi á við íslensk lög þarf í mörgum tilvikum að breyta lögum til samræmis við ákvæði samningsins, eða lögfesta samninginn þannig að ákvæði hans gildi umfram þau lög sem kunna að vera í andstöðu við eða ganga ekki jafn langt og ákvæði samningsins. Í sumum tilvikum þarf jafnvel ekki að gera neinar breytingar þar sem ákvæði laga eru í samræmi við ákvæði samningsins. Það er að mínu mati tilfellið með 20. grein samningsins sem fjallar um ferlimál einstaklinga. Hér geri ég grein fyrir á hverju ég byggi þá skoðun.

Í 1. grein laga um málefni fatlaðs fólks 59/1992 segir m.a.:

”Markmið þessara laga er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.
Við framkvæmd laga þessara skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.”

Í 35. grein þessara sömu laga segir:

”Sveitarfélög skulu gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðs fólks er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.
Jafnframt skal fatlað fólk eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir skv. 1.–3. tölul. 2. mgr. 9. gr. og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem því er veitt sérstaklega.
Ráðherra er heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á grundvelli ákvæðis þessa. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Þá er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skulu setja og skal gjaldið þá taka mið af gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.”

Í 20. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um ferlimál einstaklinga segir m.a.:

„Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því:
a) að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi,“ 

Að teknu tilliti til þessa og með hliðsjón af leiðbeinandi reglum sem velferðarráðherra hefur gefið út um ferðaþjónustu við fatlað fólk, og lesa má hér, er það mitt mat að Ferðaþjónusta fatlaðra, sem starfrækt er á höfuðborgarsvæðinu, uppfylli ekki skilyrði 1. og 35. greinar laga um málefni fatlaðs fólks. Ekki uppfyllir hún heldur skilyrði 20. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þar sem fjallað er um ferlimál einstaklinga, né  ákvæði leiðbeinandi reglna velferðarráðherra um ferðaþjónustu við fatlað fólk.

Meginástæða þess að ég tel Ferðaþjónustu fatlaðra ekki bjóða þjónustu sem samræmist lögum er langur viðbragðstími, panta þarf þjónustu með allt að sólarhrings fyrirvara, og stuttur þjónustutími, því ekki er aðgangur að þjónustunni allan sólahringinn alla daga vikunnar.

Það er hlutverk hagsmunasamtaka fatlaðs fólks að vekja athygli á því ef réttur er brotinn á fötluðu fólki og berjast fyrir réttindum þess.

Kristinn Halldór Einarsson
formaður Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi