Rauði þráðurinn íríkisrekstrinum

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ
Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ

Bætur almannatrygginga hafa ekki hækkað samkvæmt 69. gr. almannatryggingalaga í nokkur ár. Fyrsta skerðingin var 1. janúar 2009 þegar lögin voru tekin úr sambandi með fjárlögum. Í júli sama ár urðu fjölmargir öryrkjar og ellilífeyrisþegar fyrir enn meiri skerðingum á greiðslum þegar ýmis réttindi voru skert og tekjutengingar jukust allverulega. Þáverandi félagsmálaráðherra tilkynnti að skerðingarnar væru tímabundnar í hámark þrjú ár vegna efnahagsástandsins. Sá tími er liðinn. Nú hafa ákveðnir hópar fengið leiðréttingar á meðan öryrkjar og ellilífeyrisþegar sæta enn meiri kjaraskerðingum, sem hefur verið rauði þráðurinn í ríkisrekstrinum.

Lífeyrisþegar hlunnfarnir um 25,6 milljarða

Ríkið hefur hlunnfarið lífeyrisþega um umtalsverðar fjárhæðir með því að hækka ekki bætur samkvæmt almannatryggingalögum. Á tímabilinu frá 1. júlí 2009 til 1. nóvember 2012 er upphæðin 9,2 milljarðar eins og fram kom nýlega í svari velferðarráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur alþingismanns um útgjaldasparnað ríkisins í almannatryggingakerfinu. Upphæðin er sláandi en er í raun hærri þar sem í þeim tölum er hvorki tímabilið frá 1. janúar til 30. júní 2009 né frá nóvember 2012 til dagsins í dag. Þessu til viðbótar hafa skerðingar á réttindum og auknar tekjutengingar frá 1. júlí 2009 sparað ríkissjóði rúmar 16,4 milljarða og er þá árið 2013 meðtalið. Þessar upplýsingar koma fram í greinum Kristins H. Gunnarssonar f.v. alþingismanns á heimasíðu hans 9. nóvember og aftur 11. janúar sl. Tölurnar er að finna í bréfi Félags- og tryggingamálaráðuneytisins frá 19. júní 2009, sem er á vef Alþingis.

Seilst í vasa öryrkja og ellilífeyrisþega

Á sama tíma og stjórnvöld hlunnfara lífeyrisþega um umtalsverðar fjárhæðir er seilst í vasa þeirra með aukinni greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu. Hefur sá kostnaður aukist mikið á undanförnum fimm árum en hlutfallslega mest hjá öryrkjum, ellilífeyrisþegum og atvinnulausum eins og fram kom í fréttum RÚV þann 20. janúar sl. Upplýsingar um það er að finna á vef Sjúkratrygginga Íslands. Dæmi er um allt að 75% hækkun á einstökum útgjaldaliðum. Þá hafa breytingar á reglugerðum leitt til aukinnar greiðsluþátttöku lífeyrisþega í heilbrigðiskerfinu. Að auki hafa ýmis tekjuviðmið ekki fylgt hækkun bóta sem hefur leitt til þess að margt fólk sem átti rétt á uppbótaflokkum fær þá ekki lengur eða þeir hafa lækkað og má hér nefna uppbót vegna mikils lyfja- og lækniskostnaðar.

Fátæktargildra

Ríkisstjórnin telur að henni hafi tekist að verja kjör þeirra verst settu með tilkomu framfærsluuppbótarinnar. ÖBÍ hefur gagnrýnt bótaflokkinn og telur hann vera ódýra lausn sem stjórnvöld hafa nýtt sér enda eru þeir sem fá þann bótaflokk fastir í fátæktargildru þar sem allar skattskyldar tekjur skerða bótaflokkinn 100%. Má nefna að vextir og verðbætur af debetkortareikningi fyrir skatt skerða bótaflokkinn krónu á móti krónu sama hversu lág sú upphæð er. Þannig hagnast ríkið á verðbólgunni. Framan af skertist framfærsluuppbótin hjá þeim sem fengu aðra uppbótaflokka almannatrygginga, sem greiddir eru til að mæta útgjöldum fólks sem er með mikinn umframkostnað vegna sjúkdóms eða fötlunar. Eftir mikla baráttu ÖBÍ tókst að fá þessu breytt á löngum tíma en ekki var leiðrétt aftur í tímann þó svo að um verulegar fjárhæðir væri að ræða.

Málaferli hafin

Hvað þarf til að breyta viðhorfum ríkisstjórnar sem telur sig vera velferðarstjórn en hefur ekki staðið undir nafni gagnvart lífeyrisþegum eins og raun ber vitni? Öryrkjabandalagið hefur ítrekað bent á það óréttlæti sem felst í því að fólki sé haldið í örbyrgð á lágum bótum með mikinn læknis- og lyfjakostnað. Nú er þolinmæði lífeyrisþega á þrotum.

Stjórn ÖBÍ ákvað því að styðja konu til málssóknar gegn stjórnvöldum þar sem þess er krafist að viðurkennt verði að bætur almannatrygginga nægi ekki til eðlilegrar framfærslu. Ríkið hafi þar með ekki uppfyllt skyldu sína til fullnægjandi aðstoðar samkvæmt 76. grein stjórnarskrárinnar. Aðkoma ÖBÍ í þessum málaferlum er mjög mikilvæg þar sem niðurstaðan getur haft veruleg áhrif á kjör öryrkja og lífeyrisþega í landinu.

Fátækt er þjóðarskömm sem dregur úr lífsgæðum fólks og leiðir til aukins kostnaðar til lengri tíma. Það þarf að leiðrétta kjör lífeyrisþega tafarlaust með því að hækka bætur, draga úr tekjutengingum og lækka kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Slíkar breytingar auka sjálfsbjargarviðleitni fólks og gera því kleift að lifa sjálfstæðu lífi í þjóðfélagi með mannréttindi að leiðarljósi.


Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ 

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ