„Staðfesting á því að fólk kunni virkilega að meta það sem ég var að gera“

Inga Björk Bjarnadóttir verðlaunahafi Hvatningarverðlaunanna 2012 í flokki einstaklinga
Inga Björk Bjarnadóttir verðlaunahafi Hvatningarverðlaunanna 2012 í flokki einstaklinga


Frá því um síðustu áramót hefur Inga Björk stundað nám í listfræði við Háskóla Íslands en fyrir þann tíma bjó hún í Borgarnesi þar sem hún ólst upp og vann mikið frumkvöðlastarf í aðgengismálum alveg frá því hún var í 6. bekk. „Það var eiginlega þannig að ég var að vinna að þessum málum fyrir sjálfa mig því það voru engin önnur líkamlega fötluð börn í Borgarnesi þegar ég ólst þar upp. Þegar ég fékk svo vinnu sem aðstoðarmaður umhverfisfulltrúa í sumarstarfi þá gat ég beitt mér enn meira í þessum málum. Aðgengi fyrir fatlað fólk er að verða betra í Borgarnesi en það er samt ekki nógu gott. Grunnskólinn er t.d. ekki nógu vel búinn fyrir einstaklinga með hreyfihamlanir. Menntaskólinn er hins vegar glænýr og er með gott aðgengi,“ segir Inga.  

Ætlar að klára BA nám í listfræði

Inga segir það breytilegt eftir dögum hver framtíðarplönin hjá henni séu en eins og staðan sé í dag ætli hún að klára BA nám í listfræði. Einnig segist hún hafa mikinn áhuga á að taka þátt í stjórnmálum. Aðspurð hvernig atvinnumál fyrir fatlað fólk í Borgarfirði standi segir hún að það sem hún sé að læra gefi kannski ekki mörg tækifæri en bætir við: „En maður skapar bara sín eigin tækifæri þannig að ef maður vill vinna á einhverjum stað og búa þar þá bara gerir maður það.“

Jón Gnarr borgarstjóri afhendir Ingu Björk Bjarnadóttur Hvatningarverðlaunin 2012 í flokki einstaklinga„Samfélagið hefur fatlandi áhrif frekar en fötlunin sjálf“

„Ég mæti í sjálfu sér ekki fordómum í samfélaginu en það er þessi endalausa mýta um að það sé eitthvað að manni. Það eru auðvitað örugglega margir sem eru alltaf að bíða eftir einhverri lækningu en ég get ekki séð að þetta sé eitthvað verra en hvað annað. Það hafa auðvitað allir sinn pakka að burðast með, sumir eru skilnaðarbörn, sumir eiga við fíkniefnavandamál að stríða og ég er í hjólastól. Það er eins og það þurfi að laga allt. Meira að segja það sem er kannski ekki neitt að. Ég er bara virk í samfélaginu, geri það sem mér finnst gaman og á fullt af vinum og góða fjölskyldu svo ég get ekki sagt að það að vera í hjólastól sé beint að trufla mig,“ útskýrir Inga. Henni finnst samfélagið í raun hafa meiri fatlandi áhrif heldur en fötlunin sjálf. „Það er ekki það að ég sé í hjólastól sem hefur truflandi áhrif á mig heldur að það sé ekki aðgengi í samfélaginu svo ég hafi möguleika á að taka fullan þátt í því.“

Jón Margeir Sverrisson og Inga Björk Bjarnadóttir sem tilnefnd voru til Hvatningarverðlaunanna 2012 í flokki einstaklingaVar tilnefnd af sveitarstjóranum

Aðspurð hvaða þýðingu verðlaunin hafi fyrir hana segir Inga það helst vera staðfestinguna á því að það hafi einhver verið að hlusta. „Ég var tilnefnd af sveitarstjóranum og ég hélt að ég væri bara að gera honum lífið leitt með þessu endalausa nagi. Þannig að það er bara flott hvernig þau á skrifstofu sveitarstjórans voru að taka í þetta án þess að ég hafi áttað mig á því. Það voru náttúrulega alltaf einhverjir sem gáfu til kynna að þetta væri bara frekja en þetta er svona staðfesting á að fólk kunni virkilega að meta það sem ég var að gera. Ég bjóst alls ekki við þessu. Mér finnst alveg ótrúlegt að ég hafi verið tilnefnd því ég hefði ekki haldið að ég væri nein baráttumanneskja, mér finnst það ekki sjálfri,“ segir Inga að lokum.


Viðtal: Margrét Rósa Jochumsdóttir