„Þau komu með svo mikla gleði inn í félagið“

Auður Inga Þorsteinsdóttir
Auður Inga Þorsteinsdóttir


Hvernig kom til að þið ákváðuð að bjóða upp á fimleikaþjálfun fyrir fólk með þroskahamlanir?

Ég var búin að vera fimleikaþjálfari hjá Gerplu í mörg ár þegar þetta kom til tals. Ég vann líka á sambýli á þessum tíma og var búin að velta því fyrir mér í þó nokkurn tíma af hverju það væri ekki hægt að bjóða krökkunum upp á fimleikaþjálfun. Svo kom það upp á ársþingi Fimleikasambandsins að formleg beiðni kom frá Íþróttasambandi fatlaðra um að eitthvað félag tæki að sér að bjóða upp á fimleikaþjálfun fyrir fatlað fólk því áhugi var á því að senda keppendur á Special Olympics. Það fór svo að ég tók þetta að mér. Fyrstu árin sem þau voru að æfa þá voru rosalega miklar breytingar fyrir starfsmenn og iðkendur félagsins. Þarna komu inn börn með mismunandi fatlanir og þetta bara breytti hugsunarhættinum hjá fullt af fólki, sem er alveg frábært. Þau komu með svo mikla gleði og ánægju inn í félagið. Þó svo að þetta hafi verið hugsað í upphafi algjörlega út frá þeirra forsendum þá gaf þetta svo mikið til baka fyrir alla aðra líka.           

Jón Gnarr borgarstjóri afhendir fimleikafélaginu Gerplu Hvatningarverðlaun 2012 í flokki fyrirtækja/stofnanaHvernig hefur ásóknin verið?

Það voru 5-6 iðkendur fyrsta árið og svo rokkaði það í kringum þennan fjölda fyrstu árin. En svo fór ásóknin að aukast svo við urðum að skipta hópnum upp í grunnhóp og framhaldshóp. Í dag eru um 30 manns að æfa og það er kominn biðlisti í grunnhópinn. Mér finnst voðalega gaman að við erum að halda sömu krökkunum í félaginu ár eftir ár. Einn iðkandinn er orðinn aðstoðarþjálfari með yngri krakkana og hún er alveg yfirburðar starfsmaður.

Fyrir hvaða aldur er fimleikaþjálfunin?

Við höfum ekki dregið neina línu með aldurinn. Elstu iðkendur eru eldri en 25 ára. Flestir í  framhaldshópnum eru samt á aldrinum 13-18 ára  en í yngri hópnum fara þau alveg niður í 6 ára.  

Hefur félagið tekið þátt í keppnum?

Nú erum við komin með svo marga krakka og við verðum að hafa einhvern viðburð fyrir alla, ekki bara þá sem fara á Special Olympics. Þó svo við höfum fengið að fara með 6  krakka á Special Olympics síðast, það hafa aldrei farið fleiri, þá hafa það yfirleitt bara verið 2-4 sem hafa fengið að fara. Við höfum alltaf keppt á Special Olympics frá byrjun. Nú erum við að reyna að koma á koppinn innanlandsmóti í samstarfi við Fimleikasambandið. Seinustu ár hafa þau alltaf tekið þátt í vorsýningu hjá okkur. Þá kemur allt félagið saman á mjög flottri sýningu sem hefur mikið aðdráttarafl.

Áhorfendur á Hvatningarverðlaunum 2012Finnst ykkur vera næg tómstunda- og íþróttaúrræði í boði fyrir fólk með þroskahamlanir?

Núna er maður hættur að kippa sér upp við þetta. Fyrst var ég voða hissa á að hin félögin færu ekki af stað með eitthvað líka. Þetta gefur bara svo rosalega mikið til baka fyrir alla félaga. Við höfum sótt til sveitarfélagsins um styrk vegna þessa verkefnis en höfum ekki fengið. Ég bjó í Noregi í nokkur ár og þar fengu félögin töluverða styrki til þess að halda úti slíkri þjálfun.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur að fá Hvatningarveðlaun ÖBÍ?

Þetta er fyrst og fremst mikil viðurkenning á ákveðnu frumkvöðlastarfi sem við höfum verið í. Þetta eykur sýnileika okkar gífurlega mikið og það eru allir afsakplega ánægðir og stoltir hér í húsi. Við erum ákaflega ánægð með að það hafi einhverjir aðrir tekið eftir því sem við höfum vitað lengi að er mjög vel gert. 

Viðtal: Margrét Rósa Jochumsdóttir