Rympa á ruslahaugnum

Rympa á ruslahaugunum með tuskukarlinn Volta í fanginu
Rympa á ruslahaugunum með tuskukarlinn Volta í fanginu

Halaleikhópurinn frumsýndi fjölskylduleikritið Rympa á ruslahaugnum 10. febrúar síðastliðinn. Leikritið fjallar um Rympu sem er frekar ófyrirleitin og býr á ruslahaugunum. Hún hagar lífi sínu ekki alltaf eftir lögum og reglum og er svolítið einmana með tuskukarlinum sínum honum Volta. Það er því mjög kærkomið þegar hún fær heimsókn tveggja afskiptra barna sem hún tekur í sína umsjá og kennir þeim ljóta siði.

Gömul amma sem er yfirgefin og gleymd á elliheimili kemur einnig við sögu, möppudýr, kjóll, haugur, álfur og rotta.

Leikritið er eftir Herdísi Egilsdóttur sem gefið hefur út fjöldan allan af bókum, sjónvarpsefni og leikritum fyrir börn og hlotið ótal viðurkenningar fyrir starf sitt. Leikstjórn er í höndum Herdísar Rögnu Þorgeirsdóttur sem hefur verið viðloðandi leikhús í rúmlega 40 ár og leikið í fjölda leikrita. Með aðalhlutverk fara Margrét Eiríksdóttir, Sóley Björk Axelsdóttir, Kristín A. Markúsdóttir, Hanna Margrét Kristleifsdóttir og Ásta Dís Guðjónsdóttir.

Halaleikhópurinn var stofnaður árið 1992 og hefur frá upphafi haft það markmið að „iðka leiklist fyrir alla“. Hópurinn hefur að jafnaði sett upp eina til tvær stórar sýningar á ári. Meðal sýninga sem hópurinn hefur staðið að eru: Kirsuberjagarðurinn eftir Anton P. Tsjekhov og Gaukshreiðrið eftir Dale Wassermann í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar. Sýningin Gaukshreiðrið var kosin athyglisverðasta áhugaleiksýningin leikárið 2007-2008 á vegum Þjóðleikhússins og fékk hópurinn að launum að stíga á stóra svið leikhússins.

Þann 19. febrúar fjallaði Lárus Vilhjálmsson um leikritið á leisklistarvef Bandalags íslenskra leikfélaga og sagði meðal annars: "Persónur eru litríkar og fjörugar og Rympa sem leikin er af miklum krafti af Margréti Eiríksdóttur hleypir miklu fjöri í sýninguna bæði í söng- og leikatriðum. Ásta Dís Guðjónsdóttir sem leikur hinn ísmeygilega og ógnvænlega fulltrúa kerfisins er mjög fyndin í öllu æði og tali og þar fer flink leikkona.  Hanna Margrét Kristleifsdóttir og Kristín A. Markúsdóttir sem léku börnin náðu góðum tökum á hlutverkum sínum og amman sem var leikin af Sóleyju B. Axelsdóttur var bráðskemmtileg ... Halaleikhópurinn er metnaðarfullur hópur og hefur lagt natni og vönduð vinnubrögð í sínar uppfærslur í gegnum árin. Rympa á ruslahaugnum er þar engin undantekning og mega þau vera stolt af þessari sýningu. Ég gef þessari sýningu 3 stjörnur og enda umsögnina með tilvitnun í sex ára afastelpuna sem kom með mér á sýninguna og sagði þegar við komum út í bíl eftir sýninguna „Afi, þetta er alveg rosalega skemmtileg sýning og það er ljótt að ljúga.“

Hér má sjá alla umfjöllunina um leikritið á leiklistarvef Bandalags íslenskra leikfélaga.

Næstu sýningar:

  • sunnudaginn 3. mars kl. 16.00
  • laugardaginn 9. mars kl. 16.00
  • sunnudaginn 10. mars kl. 16.00
  • laugardaginn 16. mars kl. 16.00

Allar nánari upplýsingar er að finna á vef félagsins www.halaleikhopurinn.is.

Sýnt er í Halanum, Hátúni 12. Miðaverð er 1.500 kr. og hægt er að nálgast miða á í síma 897-5007 og á midi@halaleikhopurinn.is.


Nokkur atriði úr leikritinu Rympa á ruslahaugnum