Fötlunarfræði við Háskóla Íslands

Bækur í stafla
Bækur í stafla

Fötlunarfræði er þverfagleg fræðigrein sem leggur áherslu á að skoða og skilja samspil fötlunar og ýmissa þátta í menningu og samfélagi á gagnrýninn hátt. Þessi fræðigrein hafnar einhliða læknisfræðilegum skilgreiningum á fötlun en leggur þess í stað áherslu á félagslegan skilning og þátt menningar og umhverfis í að skapa og viðhalda fötlun. Spurningarmerki er sett við ýmis viðtekin „sannindi“ og ögrandi spurningar spurðar um hvernig beri að skilja og skilgreina fötlun og viðbrögð samfélagsins við fötluðu fólki.

Fræði um minnihlutahópa með áherslu á mannréttindi

Sem fræðigrein hefur fötlunarfræði þróast svipað og önnur fræði um minnihlutahópa (s.s. kvenna og kynjafræði, fræði um þjóðernisminnihlutahópa og hinsegin fræði) sem eiga það sameiginlegt að rannsaka margbreytileika og mismunun með áherslu á mannréttindi og baráttu gegn ójöfnuði og jaðarsetningu. Fötlunarfræði er yngst þessara fræðigreina en eitt aðaleinkenni hennar er samstarf við baráttuhreyfingar fatlaðs fólks og áhersla á að stuðla að jákvæðum breytingum, afhjúpa fötlunarmisrétti og rannsaka hvernig starf og stefna hefur áhrif á líf fatlaðs fólks.

Lógóið Háskóli Íslands, félags- ogmannvísindadeildMargar fræðagreinar hafa lagt til fötlunarfræða

Fötlunarfræði nær yfir fjölbreyttan hóp fólks sem þrátt fyrir ólíkar skerðingar, mismunandi reynslu og margbreytilegar skoðanir deilir sameiginlegri reynslu af félagslegum, menningarlegum og viðhorfstengdum hindrunum. Engin ein fræðigrein getur gert tilkall til fötlunarfræða en margar fræðagreinar hafa lagt til fötlunarfræða. Nemendur í fötlunarfræði hafa fjölbreytilegan bakgrunn en þeir koma úr heimspeki, táknmálstúlkun, lögfræði, þroskaþjálfun, bókmenntafræði, þjóðfræði, hagfræði, stjórnmálafræði, mannfræði og kynjafræði svo dæmi séu tekin.  Markmið námsins er að veita nemendum fræðilega og hagnýta þekkingu á fjölbreytilegum þáttum sem varða fatlað fólk og málefni þess. Innan námsbrautarinnar er áhersla lögð á að gera nemendum kleift að flétta viðfangsefni fötlunarfræðinnar við sinn bakgrunn, menntun og reynslu. Hinn margþætti bakgrunnur nemenda og persónuleg reynsla margra þeirra af fötlun er mikilvægur styrkur og gerir námið lifandi og skemmtilegt.

Þann 9. mars síðastliðinn kom út kynningarmyndband um námsbraut í fötlunarfræði og mikilvægi hennar fyrir fatlað fólk. Myndbandið gefur innsýn í fjölbreytileika námsins og nemendahópsins.

Nánari upplýsingar um nám í fötlunarfræði við HÍ má finna á heimasíðu námsbrautarinnar. 

Til að fá frekari upplýsingar um námið er bent á Hönnu Björgu Sigurjónsdóttur formann námsbrautar í fötlunarfræði hbs@hi.is og Önnu Margréti Eggertsdóttur, verkefnisstjóra (ame@hi.is).

Umsóknarfrestur um framhaldsnám við HÍ veturinn 2013-2014 er 15. apríl næstkomandi.