Fötlunarlist í Hörpu

Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir
Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir


Á kvenréttindadaginn 19. júní 2012 var framinn gjörningur í anda fötlunarlistar í tónlistarhúsinu Hörpu. Gjörningurinn fór ekki fram í Eldborg eða Kaldalóni, heldur á klósettinu, fjórum sér aðgreindum salernum ætluðum fötluðu fólki. Í daglegu tali er það kallað hjólastólasalerni eða „fatlaða klósettið“ sem er bæði fyrir konur og karla. WC for both ladies and gentlemen. Gjörningurinn Hvað er eiginlega að þessari Hörpu? var framinn til þess að vekja athygli á vanvirðingu og mismunun sem fatlað fólk verður fyrir þegar það sækir Hörpu heim. Listakonan sem framdi gjörninginn heitir Kolbrún Dögg og er fötlunarlistakona. Eftirfarandi skilaboð skrifaði hún (með NPA aðstoðarkonu sinni) á speglana með rauðum varalit:

Kolbrún Dögg að skrifa á spegilinn á klósettinu fyrir fatlað fólk í Hörpunni með rauðum varalitÉg var hér í dag á kvenréttindadaginn 19. júní 2012. Niður með spegilinn!

Samfélagið gerir mig Dis-abled!

Gat nú verið að það þurfti endilega að spara fjármagnið hér! Hvað er eiginlega að þessari Hörpu?

Kolbrún Dögg að skrifa á spegilinn á klósettinu fyrir fatlað fólk í Hörpunni með rauðum varalitOMG! Lánið mér aðgengilegan stiga, svo ég geti speglað mig hérna!

Hæ, ég þarf að geta séð mig til að varalita mig almennilega!

Líf mitt er ekki harmleikur! Ég vil sjá hvað ég er flott og falleg fötluð kona í speglinum!

Tilmæli: Spegillinn á að ná hingað niður, 90 cm frá gólfi.

 Við innganga inn í Eldborgarsalinn límdi hún miða með eftirfarandi setningum:

„INNGANGUR AÐEINS FYRIR FATLAÐ FÓLK“

Kolbrún Dögg er búin að líma miða fyrir neðan neyðarútganginn sem á stendur inngangur aðeins fyrir fatlað fólk
„NEYÐARÚTGANGUR AÐEINS FYRIR ÓFATLAÐ FÓLK“

Kolbrún Dögg er búin að líma miða fyrir ofan neyðarútgangsskiltið sem á stendur neyðarútgangur aðeins fyrir ófatlað fólk


„INNGANGUR AÐEINS FYRIR ÓFATLAÐ FÓLK“

Kolbrún Dögg fyrir framan innganginn í Eldborg í Hörpunni sem er ekki aðgengilegur fyrir fólk í hjólastól


„INNGANGUR FYRIR ALLA“

Kolbrún Dögg með gjörning í Hörpunni. Myndin er af aðalinngangi Hörpunnar, sem er aðgengilegur fyrir alla og hún hefur límt límmiða á hurðina sem á stendur 
Og miða hengdi hún upp með eftirfarandi tilkynningu á ensku fyrir ferðamenn:

„Dear tourist, here in Iceland we have no law to protect disabled people and prevent disability discrimination.

Thanks for the visit and have a save trip back home!“

 

Pólitísk list og andóf

Fötlunarlist er pólitísk list og er nátengd mannréttindabaráttu fatlaðs fólks. Hún hefur verið kröftug í Bandaríkjunum og Bretlandi um árabil en hefur nýlega verið uppgötvuð af fötluðu fólki hér á landi. Kveikjan að gjörningnum Hvað er eiginlega að þessari Hörpu? kom til af persónulegri reynslu við að sækja tónleika Bryan Ferry í Eldborgarsalnum. Undirrituð hlakkaði mikið til að sjá kappann, í salnum sem margir hafa lofað í hástert fyrir góðan hljómburð, og ég gerði mér vonir um að aðgengi fyrir alla fengi eins góða dóma og hljómgæðin í húsinu. Þann 28. maí 2012 lagði ég bifreið minni fyrir utan Hörpu, í sérmerkt bílastæði. Ég rúllaði mér inn um aðalinnganginn sem var inngangur fyrir alla. Ég fór í miðasöluna og áttaði mig strax á of háu og óaðgengilegu afgreiðsluborði. Á miðanum mínum stóð 2B. Mér var sagt að fara í lyftunni upp á aðra hæð. Ég var mætt tímanlega og virti fyrir mér mannlífið í Hörpunni áður en ég vatt mér á unisex-salernið til að bæta á varalitinn. Ég fann mig hvergi á þessu salerni. Ég sá ekki sjálfa mig í speglinum þar sem hann var himinnhátt uppi og ógjörningur fyrir venjulegt fólk, hjólastólanotendur, að spegla sig við þessar aðstæður. Meira klúðrið með spegilinn, hugsaði ég með mér. Hvað voru þeir að pæla sem settu spegilinn upp eða byggingafulltrúinn, gerði hann enga athugasemd?

Virðing ekki vorkunn

Korter í tónleika tók fólk að streyma að innganginum í Eldborg. Mér krossbrá þegar ég kom að inngangi númer 2B. Á hurðinni var skilti sem á stóð „Neyðarútgangur“  og mynd af manni á hlaupum úr eldsvoða. Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur. Ætli salurinn sé mjög eldfimur? Ég snéri mér við og elti fólkið sem streymdi að inngangi sem á stóð Eldborg. Mér til mikillar skelfingar voru tröppur niður og engin skábraut. Starfsmaður sem stóð niðri og var að rífa af miðunum sagði við mig að það kæmi annar starfsmaður að aðstoða mig við að komast inn um annan inngang. Ég var orðlaus og áður en ég vissi var ég komin aftur að neyðarútganginum í öruggri fylgd starfsmanns Hörpunnar. Er þetta grín, hugsaði ég um leið og ég fór inn um neyðarútganginn. Þegar inn í neyðina var komið blasti við lítið herbergi með litlum stiga uppávið og stigalyftu við hliðina á. Starfsmaðurinn opnaði hurðina á lyftunni og sagði mér að fara inn, síðan hljóp hann upp tröppurnar til að ýta á takka. Hurðin lokaðist á lyftunni og ég silaðist upp, löturhægt. Guð minn góður, það verður komið hlé áður en ég kemst loksins á tónleikana!

Fordómar og viðhorf

Á leiðinni var mér hugsað til þeirra sem nota rafknúinn hjólastól, hvort að þeir gestir komist fyrir í sínum stól í þessu apparati. Þegar ég var loksins komin upp stigann opnaði starfsmaðurinn fyrir mér lyftuna og hurðina inn í Eldborgina og vísaði mér til sætis eða stæðis ætlað hjólastólanotendum, sem er ókeypis. Skrítið! Þegar ég hringdi í miðasöluna nokkrum dögum fyrr til að kanna hvort það væru til lausir miðar á tónleikana og lét vita að ég væri hjólastólanotandi, þá var mér tjáð að það væri laust í hjólastólastæðinu. Þegar ég spurði hvað miðinn kostaði á því svæði var sagt að hjólastóllinn þyrfti ekkert að borga. Kjánalega orðað hjá viðkomandi að hjólastóllinn þyrfti ekki að borga, eins og ég væri ekki persóna. Í þessum orðum eru reyndar ákveðin skilaboð sem endurspegla viðhorf til fatlaðs fólks, að það eigi að vorkenna fötluðu fólki og veita því ölmusu. Ég er kona, fötluð kona, og það vill svo heppilega til að ég nota hjólastól sem er fullkomlega eðlilegt þó að sumir einstaklingar ímyndi sér að líf þeirra sem nota hjálpartæki, hljóti að vera hræðilegt líf. Hjólastóll er hjálpartæki eins og gleraugu eða heyrnartæki og ég lít á hjólastólinn minn sem frelsistæki. Ég vil vera sýnileg í menningunni, ég vil taka pláss og ég vil borga fyrir minn miða eins og annað fólk. Á sama tíma geri ég kröfu um að geta notað sama inngang og annar almenningur.

Fatlandi samfélag

Upplifun af því að nota hjólastól er hins vegar oft á tíðum mjög pirrandi þegar maður mætir manngerðum hindrunum í umhverfinu og er mismunað á grundvelli fötlunar. Það er óþolandi að lifa í fötluðu samfélagi. Á tónleikunum skildi ég loksins hvað vinkona mín átti við þegar hún lýsti fyrir mér reynslu sinni af því að fara á tónleika í Hörpunni stuttu eftir að hún var opnuð. Að hennar sögn var það alveg glatað að fara í Eldborgina og hún sagðist hafa upplifað sig svo fatlaða við að geta ekki farið inn um sama inngang og aðrir tónleikagestir. Að vera vísað inn um sér inngang af því að hún notaði hjólastól, vera viðskila við félaga sína, meðan hún þurfti að fara í einhverja stigalyftu þar sem hún mátti ekki ýta sjálf á takkann. „Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að hafa þetta aðgengilegt?“ spurði hún mig. „Þetta hús er byggt í gær, ekki um miðja síðustu öld,“ sagði hún brjáluð.

Af litlum neista verður oft mikið bál

Bryan Ferry var flottur. Á tónleikunum reyndi ég að láta þessa neikvæðu upplifun af aðgenginu ekki trufla mig. Að hafa ekki getað speglað mig á salerninu eins og aðrar konur, að vera vísað í fylgd starfsmanns inn um sér inngang fyrir fatlað fólk, merktur „Neyðarútgangur“. Ég fann hitann, ég logaði að innan, sem stafaði ekki af kynþokkafullum flutningi Bryan Ferry heldur brann ég af réttmætri reiði. Mér var misboðið. Af því að þetta þarf ekki að vera svona. Ég brann í hinum ,,fullkomna“ Eldborgarsal, þar sem gæði hljóms og tóna eru sett ofar og eru æðri en algild hönnun fyrir alla. Slave to love na, na, na söng maðurinn á sviðinu og ég braut heilann um hvar í andskotanum væri hægt að komast inn í salinn á jafnsléttu. Arkitektinn hlýtur að hafa gert ráð fyrir að fatlað fólk geti verið til dæmis starfsmaður í húsinu, listamaður eða gestur að taka við viðurkenningu uppi á sviði?

Hvað er að þessari Hörpu?

Það var mikið tilhlökkunarefni að fá loksins alvöru tónlistarhús eftir að Sinfóníuhljómsveit Íslands var búin að vera í óviðunandi húsnæði í Háskólabíói til margra ára. Einmitt í því húsnæði var stigalyfta notuð til að koma hjólastólanotendum inn í salinn sem er ekki viðunandi lausn. En í raun var ekki gert ráð fyrir fötluðu fólki í stóra salnum í Háskólabíói. Þess vegna eru það mikil vonbrigði að koma í Hörpuna, þar sem ekkert hefur verið til sparað nema er viðkemur aðgengi fyrir alla. Fötluðu fólki er mismunað og mannréttindi þeirra eru ekki virt þar sem núverandi fyrirkomulag felur í sér aðskilnaðarstefnu. Raunverulegur vilji og skilningur á algildri hönnun og aðgengi fyrir alla hefur ekki verið til staðar. Ástæðan fyrir þessu hönnunarklúðri getur verið sú að það er ekki nægjanlegt eftirlit með aðgengismálum hér á landi. Eigandi mannvirkisins ber ábyrgðina og hann treystir á arkitektinn við að hanna mannvirkið samkvæmt lögum um mannvirki og byggingareglugerð. Og arkitektinn treystir á að byggingafulltrúinn sinni sínu hlutverki og geri athugasemdir við hönnun og teikningar, framkvæmd á byggingu og að gerð sé lokaúttekt á mannvirkinu. Einnig getur hluti af vandanum verið sá að þrýstingur frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks er ekki nægjanlega mikill. Hér á landi eru ekki lög sem banna mismunun á grundvelli fötlunar eins og er í Bandaríkjunum og Bretlandi. Ennfremur er ekki búið að fullgilda mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Jafnframt þurfa viðhorf til fatlaðs fólks að breytast, að horft sé á fatlað fólk sem venjulegt fólk og fullgilda borgara. Þetta helst allt í hendur og ég ber ábyrgð á að mannvirki eins og Harpan, sem mun standa næstu hundruð árin, sé fyrir alla.

Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir, fötlunarlistakona og fötlunaraðgerðarsinni