Spurningar kjarahóps ÖBÍ

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ

Alþingiskosningar nálgast óðfluga og mikil spenna ríkir meðal kjósenda sem vilja sjá breytingar á stefnu stjórnmálaflokkanna, þó sérstaklega hjá þeim sem munu taka við stjórnartaumunum á næsta kjörtímabili. Mörg ný framboð hafa litið dagsins ljós og ekki er séð fyrir endann á þeirri þróun.

Öryrkjar og eldri borgarar, sem hafa þurft að sæta umtalsverðum skerðingum á tekjum ásamt réttindaskerðingum síðan kreppan skall á, krefjast þess að fá að vita hvort framboðin ætli sér að rétta hlut lífeyrisþega ef þau komast í ríkisstjórn. Til að fá svör við því hefur kjarahópur Öryrkjabandalagsins sent þeim framboðum, sem bjóða fram á landsvísu, spurningar um þau kjaramál sem brenna helst á lífeyrisþegum. Beðið er með óþreyju eftir svörum sem þurfa að berast í síðasta lagi 3. apríl til að hægt sé að kynna þau tímanlega til að fólk geti gert upp hug sinn í kjörklefanum.

Stærsta spurningin, og sú sem brennur einna mest á öryrkjum, er  hvort það sé vilji framboða að þær kjara- og réttindaskerðingar lífeyrisþega, sem innleiddar voru á árinu 2009, verði afturkallaðar og leiðréttar afturvirkt. Þau framboð sem svara því játandi eru spurð hvernig og hvenær þau ætli sér að framkvæma það.

Tekjur lífeyrisþega hafa lækkað að raungildi

Ástæðan fyrir þeirri spurningu er sú að þann 1. janúar 2009 var 69. grein í lögum um almannatryggingar tekin úr sambandi með fjárlögum þannig að bætur hækkuðu minna en áætlað var. Öryrkjar urðu þannig fyrstir fyrir kjaraskerðingum vegna efnahagshrunsins og hafa þær haldið áfram, nú síðast í janúar 2013, þrátt fyrir að aðgerðirnar hafi átt að vera tímabundnar og stjórnvöld hafi lýst því yfir að hagur ríkisins sé að vænkast.

Lífeyrisgreiðslur síðustu ára hafa þar af leiðandi hvorki náð að halda í við verðlagshækkanir, almenna launaþróun, né hækkun lægstu launa (lágmarkstekjutryggingu í dagvinnu) og er munurinn verulegur. Þessi þróun hefur leitt til þess að á síðustu fjórum árum hafa meðaltekjur örorkulífeyrisþega einungis hækkað um 4,7% en launavísitala um 23,5%. Á sama tíma hefur neysluvísitalan hækkað um 20,5% sem hefur, eins og gefur að skilja, leitt til umtalsverðrar kjararýrnunar hjá öryrkjum. Þessu til viðbótar hefur kostnaður vegna sjúkdóma eða fötlunar aukist verulega frá bankahruni. Þrátt fyrir þá staðreynd hafa stjórnvöld ekki sýnt viðleitni til að leiðrétta hlut lífeyrisþega á meðan launaleiðréttingar hafa átt sér stað afturvirkt, m.a. hjá alþingismönnum, ráðherrum og fleiri aðilum sem heyra undir kjararáð og komu til framkvæmda í október 2011.

Skerðingar á öðrum sviðum

Til viðbótar því sem að ofan greinir voru ýmis réttindi öryrkja og ellilífeyrisþega skert verulega og tekjutengingar jukust til muna þann 1. júlí 2009. Sem dæmi hækkaði skerðingarhlutfall tekjutryggingar og lífeyrissjóðsgreiðslur skertu grunnlífeyri almannatrygginga í fyrsta skipti í sögunni. Þá hafa ýmis frítekjumörk og tekjuviðmið staðið í stað sem hefur leitt til þess að hækkun bóta almannatrygginga hefur ekki skilað sér sem skyldi til allra.

Baráttufundur ÖBÍ laugardaginn 13. apríl

ÖBÍ heldur opinn fund um kjör öryrkja með framboðum sem bjóða fram á landsvísu í komandi alþingiskosningum. Fundurinn verður laugardaginn 13. apríl, kl. 14.00-16.30 á Hilton Reykjavík Nordica. Á fundinum fást væntanlega svör frambjóðenda við spurningum kjarahóps ÖBÍ. Almenningi gefst einnig tækifæri til að senda inn spurningar fyrir fundinn í gegnum heimasíðu ÖBÍ. Þær spurningar sem brenna mest á fólki verða lagðar fyrir frambjóðendur á fundinum. Svörin verða birt í heild sinni á heimasíðu ÖBÍ.

Lilja Þorgeirsdóttir

framkvæmdastjóri ÖBÍ

 Tenglar